Beint í efni

Gættu þinna handa

Gættu þinna handa
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Fimm vinir halda til Vestmannaeyja um miðjan vetur. Tilefnið er sorglegt, jarðarför gamallar vinkonu, en endurfundirnir eru líka ánægjulegir. Fljótlega verður þó ljóst að þau eiga óuppgerð mál úr partíi sem þau héldu sjö árum fyrr á stúdentagarði og hlaut örlagaríkan endi. Og ekki er víst að allir eigi afturkvæmt úr þessari ferð.

Lögregluteymið sem Yrsa Sigurðardóttir kynnti til sögunnar í bók sinni Lok lok og læs snýr hér aftur og rannsakar flókið mál.

Úr bókinni

   Inni í hvíta þunna nælontjaldinu lá óþægileg brunalykt í loftinu Hún kom ekki á óvart en Iðunn vissi að reynt hafði verið að brenna annað líkið. Það lá fyrir miðju tjaldi, kolsvart og óþekkjanlegt innan um brunnið spýtnabrak og fjörugrjót. Skjannahvítar slettur af kvoðu voru á dreif í kringum ósköpin en engar voru sjáanlegar á líkinu sjálfu. Líklega höfðu þær bráðnað enda stafaði enn dálitlum hita frá því. Henni skildist að sá sem kom að hefði slökkt eldinn með slökkvitæki og það skýrði líklega kvoðuna. Iðunn sneri sér að lögreglustjóranum í gættinni. „Hvar er hitt líkið?” 
  „Það fannst hérna aðeins frá.” 
  „Langt frá?” Iðunn hafði ekki séð annað tjald í fjörunni. 
  „Nei. Alls ekki. Hundrað metra, eða svo. Það verður mælt og svo tjaldað yfir það.” 
  Iðunn leit af brunnum líkamsleifunum og framan í alvörugefna konuna. „Hefur eitthvað verið átt við líkið?” 
  Ína hristi höfuðið. „Nei. Við höfum allavega ekki gert það. Ekki heldur sá sem kom að því. Ég ræddi sjálf við hann og hann nefndi það ekki.” 
  „Hver var þetta?” 
  „Ökumaður sjúkrabílsins sem var sendur á staðinn út af bílveltunni. Hann sá eld í fjörunni, greip slökkvitæki, hljóp þangað og slökkti á meðan verið var að klippa konuna úr bílnum. Eldurinn var þá raunar svo gott sem kulnaður. En hann hringdi síðan strax í okkur. Snerti ekki neitt.” 
  Iðunn setti í brýnnar. „Og þú heldur að hann sé að segja satt?” 
  „Já. Grunar þig eitthvað annað?” 
  Iðunn svaraði ekki beint enda ætti konunni að vera ljóst hve óþörf spurning hennar var. „Er hugsanlegt að hann hafi reynt endurlífgun? Hjartahnoð?” 
  Lögreglustjórinn varð undrandi á svip og nikkaði með hökunni í átt að svörtum líkamsleifunum. „Maðurinn er búinn að aka sjúkrabílnum í níu ár. Ég efast um að hann hafi talið sig geta kallað fram lífsmark.” Hún yppti svo öxlum. „En hver veit? Við ræðum betur við hann á eftir. Kannski kemur annað í ljós. En hvers vegna spyrðu?” 
  Iðunn sneri sér að líkinu. „Líkamsstaðan er skrýtin. Ekki eins og ég átti von á. Manneskjan liggur þráðbein, hendur með síðum og fætur ekki beygðir um hnén. Þegar lík brenna herpast þau yfirleitt saman og enda í svokallaðri boxarastöðu. Olnbogar beygðir, hendur á bringu og fingur krepptir. Eins og boxari. Hnén líka beygð.” 
  „Og hvað? Hvað þýðir það að svo er ekki?” 
  „Hef ekki hugmynd. Í bili.” Iðunn fjarlægði lokið af linsunni á myndavélinni og tók mynd. Hún skoðaði skjáinn til að fullvissa sig um að afraksturinn væri ásættanlegur og hóf síðan myndatökuna fyrir alvöru. Yfirleitt talaði hún á meðan og lýsti því sem fyrir augu bar, taldi upp allt sem vakti athygli hennar eða atriði sem hún vildi muna við krufninguna. En í þetta sinn kom hún varla að orði fyrir konunni í gættinni.  
  „Er þetta kona eða karl?” 
  Iðunn smellti af. „Ég veit það ekki. Það skýrist í krufningunni.” 
  „En hvort er líklegra?” 
  Iðunn ranghvolfdi í sér augunum, viss um að lögreglustjórinn sæi það ekki þar sem hún sneri baki í konuna. „Ég er lítið fyrir að giska. Eins og þú sérð sjálf þá er ekkert sýnilegt sem gæti gefið það til kynna í fljótu bragði. Það skýrist í krufningu.” 

(bls. 43-44) 

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira