Beint í efni

Glæpur og refsing

Glæpur og refsing
Höfundur
Fjodor Dostojevskíj
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1984
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Prestúplenije í nakazanije eftir Fjodor Dostojevskíj í þýðingu Ingibjargar.

Endurútgefin í tveimur bindum í kilju 1987: Mál og menning, Reykjavík.

Endurútgefin 1998: Mál og menning, Reykjavík.

Endúrútgefin 2008: Forlagið, Reykjavík.

Úr Glæpi og refsingu

Gamla konan tók lykla upp úr vasa sínum og gekk inn í hitt herbergið. Ungi maðurinn stóð einn á miðju gólfi, lagði við hlustir og hugsaði. Hann heyrði hana opna kommóðuna með lykli. Þetta hlýtur að vera efsta skúffan, hugsaði hann - hún geymir semsagt lyklana í hægri vasanum . . . Alla í einni kippu, á stálhring . . . Og einn lyklanna er stærstur þeirra allra, þrisvar sinnum stærri en hinir, með tenntu haki, hann getur auðvitað ekki gengið að kommóðunni . . . Það hlýtur því að vera einhver kistill eða læst hirsla í viðbót . . . Það er athyglisvert. Lyklar af þessu tagi ganga alltaf að kistlum . . . Æ, hvað þetta er annars lágkúrulegt allt saman!

Gamla konan kom aftur.

-Hér kemur þetta, herra: það eru tíu kópekar á mánuði af hverri rúblu, sem gerir fimmtán kópeka af hálfri annarri rúblu fyrir mánuðinn, fyrirfram. Og svo eru það með sama útreikningi tuttugu kópekar af fyrri rúblunum tveimur. Samtals verða þetta því þrjátíu og fimm kópekar. Þá eigið þér að fá núna fyrir úrið eina rúblu og fimmtán kópeka. Gjörið svo vel.

-Hvað! Ekki nema rúblu og fimmtán!

-Einmitt.

Ungi maðurinn tók við peningunum án þess að mögla frekar. Hann leit á gömlu konuna og flýtti sér ekki út, það var engu líkara en hann ætti eitthvað ósagt eða ógert en vissi sjálfur ekki almennilega hvað það væri . . .

-Ég kem kannski til yðar bráðum aftur, Aljona Ívanovna, með annan pant . . . úr silfri . . . góðan . . . vindlingahylki . . . um leið og ég fæ það aftur frá kunningja mínum . . . Hann fór hjá sér og þagnaði.

-Við tölum um það þegar þar að kemur, herra minn.

-Verið þér sælar. Eruð þér annars alltaf ein heima? Er ekki systir yðar hér? spurði hann eins kæruleysislega og honum var unnt, um leið og hann gekk fram í forstofuna.

-Hvað kemur hún yður við, herra minn?

-Ekkert. Ég spurði bara. Þér skuluð ekki halda . . .  Verið þér sælar, Aljona Ívanovna!

Raskolnikof var gjörsamlega niðurbrotinn þegar hann kom út. Þessi tilfinning ágerðist stöðugt. Á leið niður stigann stansaði hann nokkrum sinnum, einsog eitthvað óvænt hefði runnið upp fyrir honum. Og þegar hann var loks kominn út úr húsinu hrópaði hann upp yfir sig:

-Guð minn góður! Hvað þetta er allt viðbjóðslegt! Og get ég . . . get ég . . . Nei, þetta er rugl, þetta er fráleitt! bætti hann við, ákveðinn. Getur verið að mér hafi dottið annar eins hryllingur í hug? En sá viðbjóður sem rúmast í hjarta mínu! Umfram allt viðbjóður, skítur, andstyggð, andstyggð! og ég . . . í heilan mánuð . . .!

(s. 9-10)

Fleira eftir sama höfund

Karamazovbræðurnir

Lesa meira

Hinir smánuðu og svívirtu

Lesa meira

Fávitinn : skáldsaga í fjórum hlutum

Lesa meira

Tvífarinn. Pétursborgarbálkur

Lesa meira

Djöflarnir

Lesa meira

Minnisblöð úr undirdjúpunum

Lesa meira

Fjárhættuspilarinn

Lesa meira