Beint í efni

Goggi og Grjóni

Goggi og Grjóni
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1992
Flokkur
Barnabækur

Um Gogga og Grjóna

Myndskreytingar: Hallgrímur Helgason.

Úr Gogga og Grjóna

Nokkrum dögum síðar voru Goggi og Grjóni og Illugi á leiðinni í danstíma í asahláku og votviðri. Þeir voru í fínum fötum með dansskóna í tösku og hlökkuðu til að komast í tja tja tja og tangó. Þá allt í einu þaut strætisvagn framhjá þeim og ofan í poll við gangstéttina og skvass plass og strákamir stóðu eftir holdvotir og drulluskítugir. Börkur hafði þá engu gleymt. Það var ekki laust við að það rynni í minn mann, hann Illuga Ásmundar. Hann varð alveg brjálaður og þreif í strákana og rauk af stað heim á leið. Goggi og Grjóni gripu andann á lofti og fylgdu Illuga eftir hálfrænulausir. Meira að segja reiðilestur frá Laufeyju um sóðaskap og svínarí hafði engin áhrif á þá. Illugi stormaði bara með þá framhjá Laufeyju og upp á aðra hæð. Þá fyrst fóru þeir að átta sig á hvað hafði gerst. Elsu-mömmu brá ekki lítið við að sjá útganginn á piltunum.

- Kva er að sjá ykkjur börn? Kva kom fyrir?

- Þa-hað var hann he-helvítis stræ-hætófíflið hann Bö-hörkur maður, ekkaðist út úr Grjóna sem steingleymdi að það er bannað að blóta. Elsa-mamma ætlaði að skamma hann en komst ekki að fyrir útskýringum Gogga sem aldrei þessu vant var langt frá því að vera rólegur.

- Það er satt, það var hann, mamma. Við gerðum ekki neitt. Það ætti sko bara að lóga honum. Hann er alveg brjálaður. Ási-pabbi ætti sko að...

- Skammastu tín að segja sjona ljott. Að heyra til tín barn. Nú skulum við sleppa aðeins af og skipta um föt og sona, skammaðist hún. Kva varð af Illuga?

Það vissu strákarnir ekki og drifu sig úr blautu fötunum en varð þá svo kalt að ákveðið var að senda þá í bað. Meðan þeir sátu í sjóðheitu baðvatninu rann af þeim mesti móðurinn og þeir gátu sagt Elsu-mömmu í rólegheitunum frá þessu voðamenni sem hét Börkur og var sko versti óvinur allra krakka á öllu landinu... jahá! Þeir færðu aðeins í stílinn og útkoman varð sú að hann var á allan hátt vondur maður, bæði ljótur og leiðinlegur, feitur og fúllyndur. Af hverju var hann óvinur þeirra? Ja, þeir höfðu þama einu sinni hent einum eða tveimur snjóboltum á eftir vagninum hans en ekki hitt. Og þá hefði Börkur barasta komið af stað stríði. Og bara djöh...

Elsa-mamma keypti nú ekki alveg að heilt strætóstríð væri í gangi og reyndi meira að segja að bera í bætifláka fyrir Börk.

- Kommon mamma ... sagði Goggi hneykslaður en mamma hans greip fram í fyrir honum:

- Talaðú íslenskú drengúr, tú átt ikkje að sletta, Georg, sagði hún og var orðin pirruð af því að hún var nýbúin að þvo heila vél og nú voru sparifötin þeirra orðin drulluskítug. Svo bætti hún höst við:

- Og lofiði mér svo að tið kastið aldri aftur snjóboltum í bíla. Ti vitið að tað er bannað. Ti lova tví?

- Lofa tví! Þú getur ekki einu sinni talað íslensku almennilega sjálf, mótmælti Goggi og reyndi að láta það hljóma hortuglega þrátt fyrir kökkinn sem var í hálsinum og stækkaði óðum vegna þess hve það er skrýtið að mótmæla mömmu sinni.

- Elsa-mamma ætlaði þá aðeins að siða piltinn:

- Herdu Georg minn, tú skalt nú bara gjora so vel at..., byrjaði hún strangri röddu, en Goggi gat ekki setið lengur á sér:

- Það er satt, þú kannt ekki að tala og svo trúið þið fullorðna fólkið okkur aldrei o-hog...

- Það er alveg rétt, skaut Grjóni snúðugt að.

-... o-hog svo á ég ekki einu sinni pa-habba ..., og nú var kökkurinn orðinn svo stór að Goggi gat ekki annað en talað miklu hærra en hann ætlaði og farið svo að snökta.

- Og fyrst Goggi var farinn að snökta gat Grjóni ekki annað en farið að snökta honum til samlætis. Og fyrst þeir voru á annað borð farnir að snökta leið ekki á löngu uns stíflan brast og þeir hágrétu báðir tveir sitjandi í baðinu.

(30-2)

Fleira eftir sama höfund

Barnaræninginn

Lesa meira

Víti í Vestmanneyjum

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Gula spjaldið í Gautaborg

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira

Aukaspyrna á Akureyri

Lesa meira