Beint í efni

Handbók um hugarfar kúa – skáldfræðisaga

Handbók um hugarfar kúa – skáldfræðisaga
Höfundur
Bergsveinn Birgisson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur

Úr bókinni
 

Þótt ég kæmist aðeins af stað með þetta blessaða handrit voru það í hreinskilni sagt einungis stuttir glampar, því fyrr en varði var ég sokkinn í neikvæðni og streitu sem jók á svefnleysið þar sem þursinn réðst inn í nóttina og hafði líf mitt í hendi sér. Ég var sem áhorfandi að kvikmynd þar sem hann var handritshöfundurinn. Hvort sem ég bylti mér tímunum saman í rúminu eða fór í spássitúr í nóttinni til að hitta ketti bæjarins, bakaradrengi og ökumenn gámaþjónustubifreiða, fann ég hvergi athvarf frá ráðaleysinu sem sótti í sig veðrið samfara því sem ég skynjaði atburðinn í Hvalfirði eins og köggul eða æxli sem líkaminn megnaði ekki að losa sig við.

Fyrirgefning er eflaust góð og gild aðferð fyrir þann sem trúir á annað uppgjör síðar meir, þar sem sérhvert óréttlæti launast með englagælum. (Hallgerður í Njálu var heiðin og gerði því upp kinnhestin hérna megin.) Í kristna kerfinu er óréttlæti og sársauki, sem manneskjan mætir, inneign á öðrum stað og betri. Maður getur borgað fyrir syndir sínar með því að mæta óréttlæti, sem aftur gerir manni kleift að stíga upp úr jarðvistinni. Þjáningin og mótlætið spúla syndadrulluna af manni.

Eða eins og fyrsti kristniboðinn í norðrinu orðaði það svo lystilega við lærisveina sína undir það síðasta, svo kvalinn af húðsjúkdómi að hann hvorki gat setið né legið sársaukalaust auk þess sem hann og hans trú voru rækilega niðurlægð af sænskum Freysdýrkurum, þá voru þessar raunir á engan hátt í samræmi við syndir hans, og hann sló á alla vorkunn sem lærisveinarnir sýndu honum. Fylgir þó sögunni að Ansgar, eins og hann hét, hjálpaði veikum og smáðum auk þess sem hann boðaði fögnuð og rétta trú frá morgni til kvölds alla ævi. Einlæg trúin og auðmýkingin knúði fram mildilega sátt hans við sjálfan sig. Fyrir þann sem ekki trúir á slíkt himnauppgjör er fyrirgefningin efnafræðilega ómöguleg. Hvað stoðar það að segjast fyrirgefa einhverjum ef tilfinningarnar sem afbrotið framkallaði sóta út í blóðið og eru efnafræðilegur veruleiki?

Fyrirgefningin er eflaust góð lausn fyrir afbrotamanninn sem fríast frá vondri samvisku og fær sér öl og fer að horfa á kappakstur, ef hann er þá ekki hreinlega búinn að gleyma afbrotinu!

En fyrir þann sem hefur fyrirgefið er fyrirgefninin afleit hugmynd ef hann situr uppi með íþyngjandi tilfinningar sem hann, eftir fyrirgefninguna, getur ekki hleypt upp á yfirborðið aftur. tilfinningarnar eru dæmdar til að dvelja í dýpstu kjöllurum hugardjúpsins, hvískra þar og firra viðkomandi nætursvefni og sálarró, þar til hann, fýrinn beiski, sem sóað hefur lífinu í tilvist sem átti líkt og ekkert pláss fyrir hinar fegurri kenndir sálarlífsins, deyr úr krabbameini eða einhverjum áður óþekktum sjúkdómi sem bælingin hefur framkalað í hans plasmísku líkamsvefjum gegnum organísk, psýkósómatísk og hómózýgótísk bælingarferli.

(43-5)

Fleira eftir sama höfund

Drauganet

Lesa meira

Paarungszeit

Lesa meira

Svar við bréfi Helgu (hljóðbók)

Lesa meira
kolbeinsey

Kolbeinsey

Flóttin frá siðmenningunni verður sífellt flóknari og að lokum er stefnan tekin mót nyrstu eyju Íslands - Kolbeinsey
Lesa meira

Leitin að svarta víkingnum

Lesa meira

Hledáni Carneho Vikinga

Lesa meira

Para Helga

Lesa meira

Il vichingo nero

Lesa meira

Quell des lebens

Lesa meira