Beint í efni

Harry Potter og bölvun barnsins

Harry Potter og bölvun barnsins
Höfundur
Jack Thorne
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Leikrit eftir Jack Thorne, byggt á sögu eftir J.K. Rowling, John Tiffany og Jack Thorne. Ingunn Snædal þýðir á íslensku.

Áttunda sagan um Harry Potter gerist nítján árum eftir að síðustu bók lauk. Bókin er leikrit sem nú er sýnt í London.

Úr Harry Potter og bölvun barnsins

Vandræðaleg þögn er á milli feðganna. GINNY birtist líka í gættinni. Hún sér hvað er í gangi og staldrar við.

Ég er bara að koma með gjöf til þín fyrir skólann – eða gjafir. Ron sendi þér þetta ...

ALBUS

Allt í lagi, ástarseyði. Glæsilegt.

HARRY

Ég held að þetta sé grín um – ég veit ekki hvað. Lily fékk fretandi garðálf, James fékk greiðu sem gerði hárið á honum bleikt. Ron – þú veist, Ron er Ron.

Harry setur ástarseyðið frá sér á rúm albusar.

Ég er líka – þetta er frá mér ...

Hann sýnir Albusi lítið teppi. Ginny lítur á teppið – hún sér að Harry er að reyna að leggja sig fram og gengur hljóðlega burt.

ALBUS

Gamalt teppi?

HARRY

Ég hugsaði lengi um hvað ég ætti að gefa þér þetta árið. James – ja, hann hefur látið móðan mása um huliðsskikkjuna síðan elstu menn muna, og Lily – ég vissi að hún yrði himinlifandi yfir að fá vængi – en þú. Þú ert orðinn fjórtán ára, Albus, og mig langaði að gefa þér dálítið ... mikilvægt. Þetta ... er það síðasta sem ég fékk frá móður minni. Það eina. Þetta er teppið sem var vafið utan um mig þegar ég var gefinn Dursley-hjónunum. Ég hélt að það hefði týnst en svo ... þegar Petunia ömmusystir þín dó, fann Dudley þetta, öllum að óvörum, falið í eigum hennar – og hann var svo góður að senda mér það, og síðan þá – ja, í hvert sinn sem ég hef þurft á heppni að halda hef ég tekið það fram og bara haldið á því og mér datt í hug að þú ...

ALBUS

... vildi líka prófa að halda á því? Allt í lagi. Ég er til í það. Við skulum vona að það færi mér líka heppni. Mér veitir ekki af.

Hann snertir teppið.

En þú ættir að eiga það.

HARRY

Ég held – trúi því – að Petunia vildi að ég fengi það, þess vegna geymdi hún það, og nú vil ég að þú fáir það frá mér. Ég þekkti eiginlega ekki mömmu mína – en ég held að hún hef‘i líka viljað að þú fengir það. Kannski gæti ég komið og heimsótt þig – og teppið – á Allraheilagramessu. Ég vil gjarna vera með teppið á sama kvöldi og þau dóu – það gæti verið gott fyrir okkur báða...

ALBUS

Heyrðu, ég á eftir að pakka helling niður og þú ert vafalaust að drukkna í vinnu fyrir ráðuneytið, svo að ...

HARRY

Albus, ég vil að þú fáir teppið.

ALBUS

Til að gera hvað við það? Álfavængir eru til einhvers, pabbi, huliðsskikkjur eru líka til einhvers – en þetta – í alvöru?

Harry er dálítið miður sin. Hann lítur á son sinn og reynir að ná til hans.

HARRY

Get ég hjálpað þér? Mér fannst alltaf svo gaman að pakka niður. Það þýddi að ég var að fara butt frá Runnaflöt og aftur í skólann. Sem var ... ja, ég veit að þér finnst ekki mjög gaman þar, en ...

ALBUS

í þínum huga er það dásamlegasti staður á jörðinni, ég veit. Aumingja munaðarleysinginn sem Dursley-hjónin fóru svo skammarlega illa með ...

HARRY

Albus, gerðu það – getum við ekki...

ALBUS

... og Dudley frændi hans níddist á, Hogwartsskóli kom honum til bjargar. Ég veit þetta allt saman, pabbi. Bla, bla, bla.

HARRY

Þér mun ekki takast að reita mig til reiði, Albus Potter.

ALBUS

Aumingja munaðarleysinginn sem endaði á að bjarga okkur öllum – má ég gerast svo djarfur, fyrir hönd galdraheimsins að þakka þér fyrir hetjudáðir þínar? Eigum við að krjúpa fyrir þér eða er nóg að hneigja sig?

HARRY

Albus, gerðu það – þú veist að ég hef aldrei kært mig um neinar þakkir.

ALBUS

En ég er bara svo yfirkominn af þakklæti í augnablikinu – það hlýtur að vera út af þessari rausnarlegu gjöf, þessu myglaða teppi...

HARRY

Myglaða teppi?

ALBUS

Hvað hélstu að myndi gerast? Hélstu að við myndum fallast í faðma og ég segði að ég hefði alltaf elskað þig? Hvað? Hvað?

HARRY (missir loks stjórn á skapi sínu)

Veistu hvað? Ég læt ekki kenna mér um óhamingju þína lengur. Þú átt að minnsta kosti pabba. En ég átti engan, skilurðu það?

Fleira eftir sama höfund