Beint í efni

Henri hittir í mark

Henri hittir í mark
Höfundur
Þorgrímur Þráinsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Líf Henris tók stakkaskiptum eftir að hann varð lukkudýr íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á EM í Frakklandi. Nú býr hann í öryggi með fósturmóður og bróður í Annecy og nýtur lífsins. Dag einn berst honum boð á fótboltaleik. Í Reykjavík! Og af því að Henri er eins og hann er verður Íslandsferðin heldur meira ævintýri en til stóð.

Úr Henri hittir í mark

„Velkominn,“ sagði lögreglumaður í glerbúri með samskiptagati og leit rétt sem snöggvast á Henri.

„Takk.“

„Ertu einn á ferð?“

„Já.“

„Hvað ertu gamall?“

„Stendur það ekki í vegabréfinu?“ spurði Henri óþreyjufullur.

„Reyndar,“ svaraði löggan og leit til skiptis á vegabréfið og Henri. „Er þetta fyrsta ferðin þín til útlanda, það er enginn stimpill í vega...“

„Já,“ sagði Henri argur.

„Hvert er tilefnið?“

„Landsliðsstrákarnir í fótbolta ætla að bjóða mér á leikinn á þriðjudaginn, á móti Úkraínu. Ég var lukkutröllið þeirra í Frakklandi og þeir borga ...“

„Gjörðu svo vel,“ greip lögreglumaðurinn fram í. Hann hafði greinilega engan áhuga á fótbolta og þar fyrir utan var konan fyrir aftan Henri farin að láta í sér heyra.

Henri strunsaði í gegnum græna hliðið og bjóst við að sjá Sigga Dúllu um leið, strákslega einlæga brosið sem bræddi alla, en það var sama hversu vel hann svipaðist um, Siggi var hvergi sjáanlegur. Hann hlýtur bara að vera aðeins of seinn, pottþétt mikil umferð í kringum flugvöllinn. En þessi flugvöllur var miklu minni en Henri hafði búist við, í raun pinkulítill. Og aðeins þrjár litlar vélar sýnilegar.

Henri sótti símann í bakpokann en var búinn að steingleyma hvernig átti að opna hann. Var lykilnúmerið þrír tölustafir eða fjórir? Hann hafði aldrei þurft að slá það inn sjálfur af því Bernadette og Gautier voru svo upptekin við að sýna honum hvernig síminn virkaði.

Henri ákvað að setjast í stól þaðan sem hann hafði góða yfirsýn yfir salinn svo hann sæi Sigga örugglega þegar hann kæmi. Hann var svo feginn að vera kominn niður á jörðina að hann hafði engar áhyggjur af því þótt Sigga seinkaði örlítið. Hann hallaði sér aftur í sætinu, brosti með sjálfum sér og hlakkaði óstjórnlega til að mæta á æfingu hjá landsliðinu og keppa við þá í einhverju skemmtilegu, vinna sér inn smá pening. Og ekki síst að fá að sofa á hóteli. Hann elskaði hótel.

Skyndilega tók Henri eftir risastóru skilti við útganginn, skilti sem var hvítt með æpandi grænum stöfum. VELKOMIN TIL FÆREYJA.

„Velkomin til Færeyja,“ sagði Henri við sjálfan sig annars hugar, endurtók síðan setninguna og spratt á fætur. „Velkomin til Færeyja,“ sagði hann stundarhátt og það var eins og ískalt vatn rynni niður eftir mjóbakinu. Hjartað barðist harkalega í brjóstinu og Henri starði fram fyrir sig. Var hann ekki á Íslandi?

Í nokkurra metra ijarlægð var lítill kaffikrókur, fjögur borð og tólf stólar. Henri gekk að starfsstúlkunni og spurði, skjálfandi röddu: „Af hverju ... af hverju stendur ... stendur velkomin til Færeyja?“

Stúlkan leit undrandi á Henri, síðan á skiltið, brosti og spurði á móti: „Hvað annað ætti að standa á skiltinu?“

„Nú ... nú ... velkomin til Íslands ... auðvitað,“ stamaði Henri og óttaðist að heyra það sem hann hafði engan áhuga á að heyra.

„Hvað stóð á brottfararspjaldinu þínu?“ spurði stúlkan.

„Ísland,“ sagði Henri og opnaði hólfið sem hafði að geyma vegabréfið og brottfararspjaldið. Hann trúði ekki sínum eigum augum. Jorgen Jacobsen stóð á spjaldinu. Hvernig í ósköp...?

Í einni svipan sá Henri þá atburðarás hægt fyrir sér þegar hann rakst utan í manninn á salerninu í Genf og þeir misstu brottfararspjöldin og ýmislegt fleira.

Það var ólíklegt að þessi Jorgen hefði óvart flogið til Íslands því hann hugsaði vafalítið skýrar en stressaður og flughræddur strákur á leiðinni til ókunnugs lands. Og það má með sanni segja að hann hafi lent í bláókunnugu landi þar sem hann þekkti engan. Ekki eina einustu sálu.

„Hvert ætlaðir þú að fara?“ spurði stúlkan blíðlega þar sem hún sá að Henri var verulega brugðið.

„Ég ... bara ... bara ... átti flugmiða til Íslands en ...“

„Ísland er rétt handan við hornið,“ sagði hún brött og klappaði hughreystandi á öxlina á Henri. „Þú tekur bara næsta skip.“

„Skip?“

„Já, frá höfninni í Þórshöfn fara skip næstum daglega til Íslands, flutningaskip, fiskiskip og líka farþegaskip.“

„Klukkan hvað?“ spurði Henri með tárin í augunum án þess að átta sig á því að hann hefði spurt. Hann leit enn og aftur á skiltið og tuldraði; „Velkomin til Færeyja.“ Hristi höfuðið, greip í bakpokann og gekk niðurlútur út úr flugstöðvarbyggingunni.

(19-21)

Fleira eftir sama höfund

Litla rauða músin

Lesa meira

Steina-Petra

Lesa meira

Goðsögnin

Lesa meira

Áfram, hærra!: Knattspyrnufélagið Valur í 100 ár, 1911-2011

Lesa meira

Krakkinn sem hvarf

Lesa meira

Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama: skemmtilegra kynlíf, fallegri samskipti, meira sjálfsöryggi

Lesa meira

Margt býr í myrkrinu

Lesa meira

Meistari Jón : predikari af Guðs náð

Lesa meira

Nóttin lifnar við

Lesa meira