Beint í efni

HHhH

HHhH
Höfundur
Laurent Binet
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan HHhH [Himmlers Hirn heißt Heydrich] eftir Laurent Binet, í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar.

Prag 1942. Tveir menn eru komnir frá London til að drepa þann þriðja, Reinhard Heydrich, yfirmann Gestapo, leyniþjónustu nasista, og skipuleggjanda Endanlegu lausnarinnar á „gyðingavandamálinu“, manninn sem ýmist var kallaður Böðullinn í Prag, Ljóshærða villidýrið eða Hættulegasti maður Þriðja ríkisins.

Úr HHhH

30

Natasja var að fletta annars hugar eintaki af Magazine littéraire sem hún hafði verið svo vinsamleg að kaupa handa mér. Hún staldraði við umsögn um bók um ævi tónskáldsins Bach. Greinin byrjaði á tilvitnun í höfundinn: „Langar ekki alla ævisöguritara að halda fram einhverju eins og þessu: Jesús frá Nazaret hafði þann kæk að lyfta vinstri augabrúninni þegar hann var niðursokkinn í hugsanir sínar.“ Hún las þessa setningu fyrir mig brosandi.

Ég skildi ekki alveg strax að þessi setning leyndi á sér og minn gamalgróni viðbjóður á raunsæisskáldsögum olli því að ég hugsaði: oj-bara! En svo bað ég hana að sýna mér tímaritið og las setninguna aftur. Ég neyddist til þess að viðurkenna að mig myndi reyndar langa til þess að vita eitthvert svona smáatriði um Heydrich. Þá fór Natasja að hlæja og sagði: „Já, ég get alveg séð það fyrir mér þegar þú skrifar: Heydrich hafði þann kæk að lyfta vinstri augabrúninni þegar hann var niðursokkinn í hugsanir sínar!“

31

Í ímyndaheimi aðdáenda Þriðja ríkisins hefur Heydrich alltaf verið álitinn hinn dæmigerði aríi af því að hann var hávaxinn og ljóshærður með frekar fínlega andlitsdrætti. Velþóknunarhöfundar hafa yfirleitt lýst honum sem laglegum kvennaljóma. Ef þeir væri heiðarlegir eða ekki jafn blindaðir af gruggugu aðdráttarafli nasismans, þá gætu þeir séð alveg greinilega að Heydrich er ekki beinlínis klipptur út úr tískublaði heldur er margt í andlitsdráttunum sem kemur ekki heim og saman við aríska kynþáttahyggju: hann er með þykkar varir, vissulega ekki alveg lausar við munúð en þær minna helst á svertingja, nefið er langt og bogið og væri auðvelt að lýsa því sem bjúgnefi ef það væri á Gyðingi. Við þetta bætast stór eyru, fremur útstæð og langleitt andlit sem allir eru sammála um að líkist helst hestshaus og útkoman er kannski ekki beinlínis herfileg en hann er samt ansi langt frá viðmiðum Gobineaus, mannsins sem skrifaði um aríska yfirburðakynþáttinn.

(44-5)

 

Fleira eftir sama höfund