Beint í efni

Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry

Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry
Höfundur
Rachel Joyce
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan The Unlikely Pilgrimage of Harold Fry eftir Rachel Joyce í þýðingu Ingunnar.

Kort eftir John Taylor og teikningar eftir Andrew Davidson.

Þegar Harold Fry skreppur út einn morguninn til að fara með bréf í póst veit hann ekki að hann á eftir að ganga yfir landið þvert og endilangt. Hann er ekki í gönguskóm. Hann er ekki með kort. Ekki einu sinni farsímann sinn. En hann leggur upp í langa göngu. Til að bjarga lífi vinkonu sinnar.

Úr bókinni

Fossbridge Road lá um hæð fyrir ofan Kingsbridge og íbúarnir við götuna nutu þess sem fasteignasalar kölluðu „aukna hæð“, með útsýni yfir bæinn og sveitina í kring. Garðarnir fyrir framan húsin hölluðu hins vegar óþægilega niður að gagnstéttinni fyrir neðan, og plöntur gripu utan um bambusstangir eins og drukknandi menn. Harold gekk niður brattan steyptan stíginn hraðar en hann ætlaði og tók eftir fimm nýjum fíflum. Kannski ætti hann að ná í illgresiseyðinn eftir hádegið. Það væri eitthvað að gera.

Nágranninn við hliðina kom auga á Harold, veifaði til hans og kom upp að limgerðinu. Rex var lágvaxinn maður með pena fætur, lítið höfuð og þar á milli var afar kringlóttur búkur, sem olli því að Harold óttaðist alltaf að ef hann dytti gæti ekkert stöðvað hann. Hann myndi rúlla niður hlíðina eins og tunna. Eiginkona Rex hafði látist sex mánuðum áður, um það leyti sem Harold fór á eftirlaun. Síðan Elizabeth dó talaði Rex varla um annað en hversu erfitt líf hans var. hann gat talað endalaust um það. „Það minnsta sem þú getur gert er að hlusta,“ sagði Maureen, þótt Harold væri ekki viss um hvort hún meinti „þú“ svona almennt eða hann alveg sérstaklega.

„Á að fara í gönguferð?“ spurði Rex.

Harold reyndi að láta röddina hljóma glaðlega, eins og hann hefði ekki tíma tila ð stoppa. „Get ég sett eitthvað í póst fyrir þig, góði minn?“

„Það skrifar mér enginn. Síðan Elizabeth dó fæ ég ekkert nema auglýsingar.“

Rex starði út í bláinn og Harold sá strax í hvað samræðurnar stefndu. Hann leit upp; nokkrar skýjaslæður skreyttu himininn sem annars var heiður. „Afskaplega fínn dagur.“

„Ansi fínn,“ samsinnti Rex. Í þögninni sem varð á eftir skaut hann inn andvarpi. „Elizabeth þótti sólin svo dásamleg.“ Önnur þögn.

„Góður dagur til að slá blettinn, Rex.“

„Upplagður, Harold. Setur þú ljána ykkar í moltu? Eða læturðu hana rotna og verða að áburði?“

„Ef maður lætur hana rotna verður hún svo klístruð og festist við fæturna á mér. Maureen líkar það ekki þegar ég ber úrgang inn í húsið.“ Harold leit á mokkasíurnar sínar og velti því fyrir sér hvers vegna fólk klæddist þeim ef það stundaði ekki siglingar. „Jæja. Ætla að drífa mig. Ná í miðdegispóstinn.“ Hann veifaði umslaginu sínu og sneri að gangstéttinni.

(14-5)

Fleira eftir sama höfund

Árið sem tvær sekúndur bættust við tímann

Lesa meira