Beint í efni

Hrafninn

Hrafninn
Höfundur
Vilborg Davíðsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Naaja elst upp í inúítaþorpi á Grænlandi á 15. öld en er utangarðs hjá fólkinu við jökulinn þar sem flókið kerfi boða og banna á að tryggja að móðir hafsins sendi mönnunum veiðidýr. Eftir örlagaríka atburði hrekst hún burt, brennimerkt sem norn,  en erfiðleikarnir draga fram styrk hennar og sérstöðu sem gerir henni kleift að þola grimmasta mótlæti og lifa af. Í víðerni óbyggðanna fléttast saman leið hennar og norrænna manna í Norðursetu, veiðistöð þeirra við brún veraldarinnar.

Úr Hrafninum:

Heimferðin tók skamma stund nú þegar bjart var orðið og vel sást til allra átta en það kostaði Naaju drjúgan tíma og áreynslu að koma kjötinu tryggilega fyrir í grjótbyrginu skammt frá húsinu. Steinhnullunganir voru stórir og þungir og sérstakt lag þurfti að hafa á til þess að raða þeim utan um kjöthleifana þannig að hvergi kæmust refir eða hundar að með þjófótt trýni sín. Steinarnir voru henni óþægir; runnu úr greipum hennar og vildu ekki tolla á sínum stað. Litlu munaði að illa færi þegar einn þeirra losnaði og hún rétt náði að víkja sér undan svo að hann dytti ekki á fæturna á henni. Það var því langt liðið á dag þegar hún loks skreið inn göngin. Húsið var kalt og dimmt. Og hljótt.

Í skímunni frá skjánum sá hún þó að pabbi var vakandi; hann sat uprétur á svefnpallinum og hallaði sér upp að veggnum. Hann var þögull og heilsaði ekki. Naaja flýtti sér að tendra eld á spiklampanum með loppnum fingrum; auðvitað hafði pabbi ekki getað látið ljósið lifa á lampanum, hann kunni ekki slíkt kvenmannsverk fremur en aðrir karlar. Hún leit til hans óróleg; því sagði hann ekkert?

,,Ég er búin að ná í rostunginn og setja hann í grjótkösina, sagði hún lágróma og leit auðmjúk undan nístandi augnaráði hans. Hann var ennþá reiður. Mjög reiður.

,,Þú varst lengi, sagði hann eftir langa þögn. ,,Eldurinn dó á lampanum. Röddin var nöpur eins og norðanvindurinn.

,,Fyrirgefðu, hvíslaði hún og beygði höfuðið enn dýpra. ,,Fyrirgefðu, elsku ataata.

Hann hnussaði. ,,Ég er svangur.

Hún kinkaði kolli og var dálítið létt; hann hafði ekki minnst á atburði morgunsins og honum myndi líða betur þegar hann hefði borðað sig saddan af rostungsspiki. Kannski yrði allt í lagi. Hún flýtti sér að setja upp pottinn og sá þá að í honum voru enn bitar af kjötinu sem hún hafði soðið um kvöldið. Naaja leit forviða um öxl á föður sinn; af hverju hafði hann ekki borðað það sem til var? Hann tók ekki eftir augnaráði hennar því hann hafði klemmt aftur augun og andlitið var grett af kvölum. Krepptir hnefarnir hvíldu báðir á hægra lærinu. Hún sneri sér snöggt undan; hann vildi ekki að hún vissi hvað hann fyndi mikið til. Sektarkenndin helltist yfir hana og hún varð að bíta á jaxlinn til að hindra tár í að brjótast fram.

Láttu ekki svona, þú vilt að hann deyi, hvíslaði rödd andstyggilega andans inni í höfðinu á henni. Er það ekki sannleikurinn, vanþakkláta stelpuskjáta?! Nei, alls ekki! hvein jafnskjótt í hinum til svars. Hún vildi bara ekki fara frá frænda og fólkinu hans. Þetta hefur hann upp úr því að flytja okkur hingað. Hér er enginn sem getur hjálpað, enginn angakoq sem getur gefið okkur ráð. Ef hann deyr er sökin jafnmikið hans og hennar!

Naaja greip báðum höndum fyrir andlit sér og dró andann djúpt. Þegið þið, báðir tveir, hvæsti hún í huga sér. Ef hann deyr er það mín sök, og ég geri allt sem ég get til að hjálpa honum að lifa, allt!

(27-8)

Fleira eftir sama höfund

Vígroði

Lesa meira

On the Cold Coasts

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Die Winterfrau

Lesa meira

Eldfórnin

Lesa meira

Undir Yggdrasil

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Felustaðurinn

Lesa meira