Beint í efni

Hvunndagshetjan : Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn

Hvunndagshetjan : Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn
Höfundur
Auður Haralds
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1979
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Berorð og hressileg saga af kvenhetjunni sem fann þrjár óbrigðular aðferðir til að eignast óskilgetin börn. Bókin var endurútgefin í kilju árið 2000.

Úr bókinni

Fyrir tveimur áratugum var ekki enn búið að finna upp unglinga. Það voru til börn, stærri börn, fullorðið fólk. Það voru til byrðar á foreldrunum og sjálfstæðir skattborgarar. Stelpukrakkar og gjafvaxta heimasætur.
   Við tókum undir okkur rosalegt stökk, lögðum upp á flatbotna lakkskóm og stuttum sokkum, og komum niður hinum megin við kynslóðabilið á háum hælum og nælonsokkum. Við stukkum yfir unglinginn og unglingavandamálið og áttum að hlaupa blindandi yfir kafla í þróunarsögunni.
   Lendingin á mjóu hælunum var erfið.

Klukkann átta að morgni þyrptist út í norðangarrann hópur lítilla kellinga, sæmilegar eftirlíkingar af Kim Novak og stöllum hennar. Eini munurinn var sá að þær sáust trítla um í þessum lögboðna skrúða undir kalífornískum pálmum. Við klöngruðumst yfir skafla og íshellur undir íslenzkum grýlukertum.
   Neðst skinu nýfægðir kálfskinnskórnir úr Rímu eða Markaðnum. Í beinu hlutfalli við stighækkandi sjálfsvirðingu hverrar og einnar var hælahæðin þetta frá fjórum og hálfum sentimetra upp í ellefu. Allt yfir ellefu sentimetrana féll ekki undir skólaskó.
   Næst, upp eftir fjólubláum leggjunum með stöku kalblettum, komu nælonsokkarnir, þunnir eins og lín ævintýranna. Dökkbrúnir, annars útskúfun.
   Pilsfaldurinn hófst kringum hnéð. Mælikvarði pilsvíddarinnar var sá að kæmist maður hjálparlaust fyrir eigin vélarafli upp í almenningsvagn, þá var pilsið púkalega vítt. Helzt, allrahelzt átti það að vera köflótt. Þá mátti sjá að hinum tuttugu og þrem köflum sem varð að kosta til yfir breiðasta hluta botnsins fækkaði snarlega niður í þrettán um hné.
   Fyrir ofan pilsið tók við Dollý-blússa. Hún leysti skyrtublússurnar af vakt þetta árið og hékk bein niður eins og fyrsta stigs tækifærisútbúnaður. Ef pilsið var köflótt var blússan einlit. Ef pilsið var einlitt var blússan rósótt. Það stóð í stjórnarskránni.
   Utan yfir blússunni mátti vera í gollu. Að vísu hétu þær golftreyjur í munnum mæðra vorra, en það var svo sveitó. Seinna urðu þær að peysum því gollur urðu sveitó. Gollan mátti ekki vera þykk. Það hefði aðeins gengið utan bæjarmarkanna.
   Þegar við gerðum uppreisn gegn hefðbundnum klæðnaði snerum við bakinu fram og hneppingunni aftur á gollunni. Það var stæll.
   Viðurkenndur skjólfatnaður á þorranum voru, allt eftir efnahag, rúskinnsjakkar og apaskinnsjakkar. Rúskinn er venjulegt skinn með rönguna út, en apaskinn er ekki fláðir apar. Það er eftirlíking af rúskinni á flauels-grundvelli og heitir molskinn á öðrum tímum. Úlpur voru púkó, hettur voru púkó, vettlingar, ullarsokkar, húfur, treflar, allt púkalegur barnafatnaður sem við höfðum lagt að baki og áttum í erfiðleikum með að grafa upp ef við fórum á skauta eða í skíðaferðalag.
   Efst trónaði höfuðið og minnti sterklega á títuprjónshaus, borið ofurliði af hárskreytingu sem slagaði hátt upp í Pompadour þegar hún var að festa sig í ljósakrónum.
   Við fórum á fætur hálftíma fyrr til að túpera hárið.

(s. 32-34)

 

Fleira eftir sama höfund

hvað er drottinn að drolla?

Hvað er drottinn að drolla?

Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld. 
Lesa meira
hlustið þér á mozart?

Hlustið þér á Mozart? Ævintýri fyrir rosknar vonsviknar konur og eldri menn

Rósemi Lovísu verkar sem fyrirboði, gamla konan fær ónot í magann, hana langar ekki að heyra meira, en hún verður.
Lesa meira
litla rauðhærða stúlkan

Litla rauðhærða stúlkan

Hér er stutt saga af lítilli rauðhærðri stúlku sem skrifuð var af Auði Haralds í samstarfi við Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur sem er höfundur myndefnis.
Lesa meira
læknamafían

Læknamafían : Lítil pen bók

Mér líður eins og perlumóður, ég á að halda áfram að safna steinum.
Lesa meira
ung, há, feig og ljóshærð

Ung, há, feig og ljóshærð

Uss, það er enginn vandi að skrifa ástarsögu.
Lesa meira
Elías

Elías

Hún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.
Lesa meira
elías, magga og ræningjarnir

Elías, Magga og ræningjarnir

Bankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.
Lesa meira
elías í kanada

Elías í Kanada

Á veggjunum í ganginum og eldhúsinu mjökuðstu sniglarnir mínir upp og niður og þreifuðu fyrir sér með fálmurunum. Alveg hafði ég steingleymt þeim þegar ég kom heim kvöldið áður. Um nóttina höfðu þeir svo skriðið upp úr bakpokanum og voru ennþá að leita að góðum steini til að búa á.
Lesa meira
elías á fullri ferð

Elías á fullri ferð

Fyrst skellur yfir þau gestaplága svo skæð, að mamma og pabbi eru að hugsa um að flýja að heiman. Elíasi tekst að hrekja gestapláguna burtu, að vísu með nokkuð grófum ráðum.
Lesa meira