Beint í efni

Jarðvist

Jarðvist
Höfundur
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Útgefandi
Kind
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur

um bókina

Jarðvist er nóvella sem kom út í tímaritaröðinni IOOV, 3, 4.  Nóvellan fjallar um níu menn sem lokast inni í námu vegna óvæntrar sprengingar. Við fylgjumst með lífi mannanna neðanjarðar á meðan þeir bíða upp á von og óvon. Þeir hafa takmarkaðar birgðir, vatnið er mengað og loftið þungt og rakt. Sögumaður er skáld og hefur haft með sér pappír sem hann ritar á einskonar dagbók. En þegar vinnufélagar hans verða þess vísir að hann geti skráð frásagnir þeirra og tilfinningar nýta þeir sér það óspart. 

úr bókinni

STEFÁN

Nikulás mænir stöðugt á armbandsúrið sitt og heldur utan um dagana. Hann segir að þeir séu orðnir átta. Í dag urðum við að fækka matargjöfum úr tveimur niður í eina á sólarhring, matskeið varð að teskeið. Þeir raða bollunum sínum upp og ég skammta blöndu af túnfiski og vatni í níu bolla. Allir fá nákvæmlega jafn mikið. Þegar ég sting upp í mig bita leyfi ég honum að dvelja á tungunni í nokkrar mínútur og finn hann leysast upp. Þegar bitinn er horfinn legg ég hendurnar á jörðina og skýt rótum. Ég faðma að mér þessa jörð sem fæðir mig og klæðir en ætlar núna að éta mig lifandi. Hún lætur mig núna dvelja á tungunni og ég finn hvað hún er stór og ég lítill.

MARTEINN

Ég ráfaði yfir til Viktors og spurði: "Hvernig gengur?" Viktor leit tortrygginn upp frá blaðinum og svaraði: "Æ, ég veit ekki. Áttu ljós? Ég verð að fá meira ljós." "Nei, því miður, mitt er búið," svaraði ég og hélt áfram: "Ég hef ekkert beðið þig um bréf og mun ekki gera það." Viktor grúfði sig aftur yfir blaðið og spurði: "Nú, af hverju Viltu ekki bréf?" "Nei, ég skrifa þau í huganum og fæ svarbréf til baka í draumum mínum," svaraði ég og hikaði því ég sa strax eftir að hafa afhjúpað mig. Viktor hikaði líka og sagði: "Gott hjá þér. En segðu nú ekki þeim hinum frá þessu, í guðanna bænum. Þá fara þeir að biðja mig um ímynduð svarbréf frá ættingum sínum." Hann glotti og ég brosti. Um leið fann ég fyrir stirðleika í munninum. Ég hafði ekki brosað í marga daga. Var þetta síðasta brosið mitt?

VIKTOR
Maðurinn með ljáinn gengur á meðal okkar. Síður kuflinn dregst eftir jörðinni og væri ljósi beint niður mætti sjá slóð í sandrykinu, hlykkjótta slóð sem liggur á milli rakra pappaspjalda. Stundum beygir hann sig niður að einhverjum okkar og andar köldu í annað eyrað, reisir sig síðan upp og byrjar að brýna.

MARTEINN

Ég er ekki lengur ég, heldur við. Við öndum í takt, hjörtu okkar slá í takt. Vi vöknum á sex tíma fresti, lognumst út af á sex tíma fresti. Við erum að renna saman í einn og sama manninn, risa með þrjátíu og sex útlimi og níu hjörtu sem dæla súrum sársauka um göngin. Raddir okkar eru á sömu tíðni og sami sveppurinn þekur húðina. Við áttum ýmislegt eftir óklárað þegar við mættum á þessa vakt, óuppgerð rifrildi, lík sem átti eftir að jarða og hálfar brennivínsflöskur, óumbúin rúm, blóm sem hafði gleymst að vökva og skítuga diska á borðum, matarleifar á gólfi. Og þegar ég strýk eftir gangagólfinu finn ég leifarnar af lífi mínu, nokkur sandkorn.

(s. XLIX - LI)

 

Fleira eftir sama höfund

Fjallvegir í Reykjavík

Lesa meira

Tungusól og nokkrir dagar í maí

Lesa meira

Stínusögur

Lesa meira

Ég erfði dimman skóg

Lesa meira
sólrún

Sólrún

Glufa í kerfinu reyndist mín mesta gæfa.
Lesa meira

Undrarýmið

ég er hingað komin / í þennan skóg / til að finna froska, sporðdreka, snáka og mýs
Lesa meira

Svuntustrengur

Lesa meira