Beint í efni

Kákasus-gerillinn

Kákasus-gerillinn
Höfundur
Jónas Reynir Gunnarsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Bára er hugfangin af öllu sem fólk notar til að breyta líðan sinni og vinnur að hlaðvarpsþáttum um málið. Í heimildaleitinni rekst hún á Eirík Mendez, áhugaljósmyndara sem tengdist vafasömum tilraunum með ofskynjunarlyf og lést ungur að árum. Líf þeirra Báru og Eiríks fléttast saman í þessari sögu þar sem skynjun okkar á veruleikanum er ögrað.

Úr bókinni

Einn þátturinn átti að fjalla um capsaicin, virka efnið í chili-pipar. Þátturinn átti að heita Ósýnilegur eldur. Bára var langt komin með hann og hafði nú þegar tekið nokkur viðtöl. Eitt þeirra var við stjórnanda Facebookhóps sem hét Chili-hausar. Hann sagði henni frá því að þeir sem sækjast eftir sterkum mat upplifa alveg jafn mikinn sársauka við chili-át eins og þeir sem eru óvanir honum, það hefðu rannsóknir leitt í ljós, fólk myndaði ekki raunverulega ónæmi gegn capsaicin, eins og almennt var talið, það kæmist bara upp á lagið með að njóta sársaukans. Bára punktaði niður og feitletraði: Sársauki sem þú lærir að njóta. Hún hafði líka tekið viðtal við mótmælanda sem hafði fengið piparúða framan í sig.
   Einn þáttur átti að fjalla um sykur.
   Einn þáttur átti að fjalla um kannabis.
   Einn þáttur átti að fjalla um ayahuasca, jurtaseyði sem veldur uppköstum og ofskynjunum í marga klukkutíma, og hefur verið notað við sjamanískar athafnir í Amasónfrumskóginum í að minnsta kosti þúsund ár.
   Einn þáttur átti að fjalla um DMT, eitt af virku efnunum í ayahuasca, sem er líka hægt að reykja, og komst fyrst upp á yfirborðið í hinum vestræna heimi á hippatímanum, ásamt LSD og ofskynjunarsveppum. Neysla þess var þó ekki eingöngu bundin við trúarlegar hefðir, Bára fann ótal myndbönd á YouTube þar sem fólk (oftast karlmenn á þrítugsaldri) sagði ferðasögur ú þeim óravíddum hugans sem efnið opnaði fyrir. Algengt var að notendur DMT fyndu fyrir tengslum við verur sem virtust úr öðrum heimi og sæju flókin geómetrísk mynstur og form og rými sem nánast ómögulegt var að útskýra þegar víman var liðin hjá. Kennari hennar hafði lagt til að hún myndi fjalla um DMT-verurnar í tengslum við þjóðsögur af álfum og huldufólki.
   Einn þátturinn átti að fjalla um LSD, sem svissneski efnafræðingurinn Albert Hoffmann bjó fyrst til árið 1938 og uppgötvaði ofskynjunaráhrif þess þegar hann komst í vímu fyrir slysni við að meðhöndla efnið.
   Einn þátturinn átti að fjalla um psilocybin, virka efnið í trjónupeðlum og fleiri ofskynjunarsveppum, og notkun þess í meðferðum við fíkn og þunglyndi.
   Einn þáttur átti að fjalla um áfengi.
   Einn þáttur átti að fjalla um fentanýl.
   Einn þáttur átti að fjalla um tóbak og rætur tóbaksframleiðslu í þrælahaldi í Bandaríkjunum.
   Einn þáttur átti að fjalla um 5-MeO-DMT, sem var af mörgum talið sterkasta hugvíkkandi efnið í heimi. Efnið var auðvelt að framleiða á rannsóknarstofu en var upphaflega sótt í graftarkirtla körtu sem lifir í Bandaríkjunum og Mexíkó (fræðiheitið er Incilius alvarius, áður Bufo alvarius) og eftir því sem Bára komst næst var það uppgötvað af Bandaríkjamanni á níunda áratugnum, sem gaf út ljósritaðan bækling undir dulnefni með leiðbeiningum um hvernig átti að verða sér úti um og taka inn eitrið. Sjamanar með reynslu af sveppum og ayahuasca höfðu innleitt þetta efni í meðferðir sínar, en líka óvanir sjamanar sem byggðu ekki á neinum trúarlegum grunni heldur bjuggu til sinn eigin. Vinnutitillinn á þættinum var Trúarathafnir á póstmódernískum tímum.
   Allt þetta og meira var í Word-skjölum í tölvunni hennar ásamt viðtalsbrotum, vísindagreinum, ljósmyndum, heimildarmyndum og -þáttum, símamyndum af blaðsíðum úr hinum og þessum fræðibókum, brotum úr lögregluskýrslum, lagagreinum og fleiru. Vandamálið var ekki bara að koma efninu frá sér á auðskiljanlegan máta, afmarka það og finna á því áhugaverða vinkla, heldur beinlínis finna tíma til þess.

(s. 39-41)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Dauði skógar

Lesa meira

Þvottadagur

Lesa meira

Krossfiskar

Lesa meira

Stór olíuskip

Lesa meira

Leiðarvísir um þorp

Lesa meira

Millilending

Lesa meira