Beint í efni

Kleinur og karrí

Kleinur og karrí
Höfundur
Kristín Steinsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Barnabækur

Myndir Áslaug Jónsdóttir

Úr Kleinum og karríi:

Ég er í miðju kafi að veifa englunum þegar Úlfhildur kemur hlaupandi upp tangann.
 „Drífðu þig, ég þarf að tala við þig!“ hrópar hún. Ég finn hvernig allan mátt dregur úr mér og ég ætla að hníga niður. Á sömu stundu eru englarnir flognir.
 „Það er kominn strákur í húsið heima hjá þér, rosalega skrýtinn!“ hrópar Úlfhildur. „Hann situr á tröppunum.“
 „Strákur?“ hvái ég og hætti við að hníga niður.
 „Já, þú veist, þessi sem á að búa í kjallaranum með fjölskyldu sinni,“ segir Úlfhildur og er nú komin alla leið til mín.
 „Já, hann,“ svara ég og man nú eftir því að einhverjir útlendingar sem voru að koma í frystihúsið hjá pabba voru í vandræðum með húsnæði og langa bauð þeim kjallaraíbúðina.
 „Hefurðu séð hann?“ spyr Úlfhildur.
 Ég hristi höfuðið.
 „Hann er svartur,“ segir hún og er ekki árennileg á svipinn.
 „Nuuuú,“ svara ég bara.
 „Drífðu þig!“ skipar hún og strunsar af stað á undan mér niður tangann.
 Strákurinn situr enn á tröppunum þegar við komum heim. Hann er ekki svartur en dökkur á brún og brá með stór, brún augu. Ég sé ekki hvað hann er stór því að hann situr en mér finnst að hann gæti verið á aldur við mig.
 Við Úlfhildur stöndum lengi yfir honum, svo tekur Úlfhildur af skarið, bendir á sjálfa sig og segir:
 „Ég, Úlfhildur!“
 Strákurinn horfir á hana, þegir og sýnir engin svipbrigði.
 „Ég, Úlfhildur,“ reynir hún aftur. Svo bendir hún á mig og segir: „Hann, Bjössi.“
 Strákurinn horfir á okkur til skiptis. Svo stendur hann upp og segir þreytulega:
 „Ég heit Akash og ég er búinn að búa á Flateyri í tvö ár.“ Svo fer hann steinþegjandi inn í kjallarann og lokar á eftir sér.
 Og við stöndum eftir alveg eins og fífl.

(s. 31-33)

Fleira eftir sama höfund

Á eigin vegum

Lesa meira

Draugar vilja ekki dósagos

Lesa meira

Ängeln i trapphuset

Lesa meira

Angelas Vakaru rajone

Lesa meira

Spurgos ir karis

Lesa meira

Bjarna-Dísa

Lesa meira

Eitt tvö þrjú...

Lesa meira