Beint í efni

Kollhnís

Kollhnís
Höfundur
Arndís Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Álfur er fimleikastrákur úr Kópavogi; góður vinur, frábær sonur og besti stóri bróðir í heimi. Alveg þangað til mamma og pabbi fá þá flugu í höfuðið að Eiki bróðir hans sé einhverfur og Álfur stelst til þess að heimsækja Hörpu frænku, landsfrægu fimleikahetjuna sem fór á Ólympíuleika með skammarlegum árangri og enginn í fjölskyldunni talar lengur við.

Arndís Þórarinsdóttir hefur skrifað vinsælar barna- og unglingabækur, meðal annars um nærbuxnaverksmiðju, miðaldahandrit, mjólkurfernuskáld og blokk á heimsenda. Hún hefur hlotið Barnabókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, Íslensku bókmenntaverðlaunin og Vorvindaviður – kenningu IBBY, og verið tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Úr bókinni

   "Álfur? Hvað heldurðu eiginlega að hún hafi gert?" spyr Ragnar stóreygur. "Sem lét mömmu þína hætta að tala við hana?"
   "Ég veit það ekki," segi ég, þótt það sé alveg satt. Ég stari á hurðina. Svo löbbum við hægt í kringum húsið og reynum og líta ekki grunsamlega út.
   "Það hlýtur að hafa verið eitthvað hræðilegt," segir Ragnar og smattar á síðasta orðinu.
   Fjölskyldan hans Ragnars er rosalega eðlileg og honum finnst mjög spennandi að hugsa sér tvær systur sem hætta að tala saman.
   "Ég veit það ekki," segi ég aftur. "Kannski hafa þær bara rifist. Þær geta báðar rifist mjög mikið. Og svo eru þær mjög ólíkar. Mamma er miklu ..." Ég leita að orði sem er ekki móðgandi, því mér finnst mamma mjög fín. "Mamma er miklu venjulegri," segi ég að lokum.
   Eftir að ég kjaftaði frá þessu með Hörpu hafði Ragnar ekki hætt að tala um hana. Og þegar hann stakk upp á því að við færum í njósnaferð að húsinu hennar samþykkti ég það bara.
   Kannski var ég að vona að hann myndi stinga upp á því þegar ég sagði honum frá?
   Harpa er auðvitað fræg. Eða var það. Og alveg sérstaklega í fimleikaheiminum. Svo Ragnar vissi allt um fimleikaferilinn hennar. En hann vissi ekki um allt hitt. Um eðlurnar og tölvuleikina sem hún sýndi mér og öll ævintýrin sem Harpa lenti í, eins og þegar hún fór í snjósleðaferð með Lady Gaga eða þegar hún klifraði óvart upp á hæsta fjall á Íslandi í gallabuxum og strigaskóm.
   Húsið hennar Hörpu er ótrúlega nálægt okkar húsi. Svona þegar maður pælir í því. Miðað við hvað við hittum hana sjaldan hefði Harpa getað búið hinum megin á hnettinum en ekki í sama bæjarfélagi.
   Hinum megin á hnettinum. Hluta af mér finnst eiginlega eins og það væri miklu líklegra að ganga fram á hana í frumskóginum í Suður-Ameríku, með risaskjaldböku í fanginu, heldur en að rekast á hana úti á bensínstöð.
   Við stoppum á leikvelli fyrir aftan húsið og Eiki skríkir af ánægju í rólunni. Ragnar sest í hina róluna og ég ýti þeim báðum á meðan ég gjóa augunum á húsið.

(s. 16-17)

Fleira eftir sama höfund

Játningar mjólkurfernuskálds

Lesa meira

Blokkin á heimsenda

Lesa meira

Innræti

Lesa meira

Nærbuxnaverksmiðjan

Lesa meira

Nærbuxnavélmennið

Lesa meira

Lyginni líkast

Lesa meira

Heimur í hendi – Sitthvað á sveimi

Lesa meira

Gleraugun hans Góa

Lesa meira

Galdraskólinn

Lesa meira