Úr Kular af degi:
Fimmtán ára stelpuskjátur sátu fyrir framan mig í níðþröngum buxum með litað hár, svartmáluð augu, fjólubláar varir, og upp úr flegnum bolum bunguðust brjóst þeirra. Þrátt fyrir þyngsl augnfarðans gátu þær litið ögrandi á mig og einmitt af þeim sökum sýndi ég engin viðbrögð. Þó furðaði ég mig á breytingunum sem þær höfðu tekið á einu sumri og reyndar hafði hálfur bekkurinn breytt um ásjónu frá því um vorið. Ég ætlaði varla að þekkja sum þeirra aftur. Fljótlega tók ég eftir því að tvær stúlknanna höfðu tekið að sér forystuhlutverkið og svöruðu fyrir bekkjarsystkinin sem bugtuðu sig og beygðu í öryggisleysi. Ég horfði á eftir þessum stúlkum fara út í frímínútur í þröngu buxunum, glansjökkunum og þriggja kílóa kuldaklossunum. Þær þrömmuðu yfir lóðina eins og risaeðlur án þess að líta til hægri eða vinstri.
Svo hétu þær Fjóla og Sóley.
Öllu má nú nafn gefa.
Ég bjó mig undir harðan vetur.
Mér til blessunar voru mætingar forystusauðanna strjálar og því fór enskukennslan að mestu fram með eðlilegum hætti. Eða þar til ég setti lögbann á rauðu bókina. Menn þekktu orðheppni mína og hlífðarleysi frá fyrri tíð og héldu sig því á mottunni í návist minni. Úr augum þeirra sem tilheyrðu ekki hirðinni vegna góðrar hegðunar og námsárangurs mátti þó oft lesa vanlíðan. Ég sá að þeim létti þegar þau sáu mig koma eftir ganginum ískalda og virðulega, og þegar ég opnaði skólastofuna hringuðu þau sig um mig eins og ungar sem leita skjóls hjá æðarkollu.
En óneitanlega var andrúmsloftið fjandsamlegt og lýjandi. Ég kom uppgefin á kennarastofuna eftir fjörutíu mínútur hjá þessum afturkreistingum. Svipaða sögu mátti segja um samkennara mína. Þeir furðuðu sig líka á þeim breytingum sem höfðu orðið á stelpuskjátunum á einu sumri og margir minntust á villtar verslunarmannahelgar í því sambandi. Og létu þar við sitja.
Við höfðum svo mörgum hnöppum að hneppa.
Þess vegna hunsuðum við áhyggjusvip unga forfallakennarans sem ágerðist upp úr áramótum. Milli þess sem hann hrósaði okkur, líklega til að eiga inni stuðning ef á reyndi, sat hann viðutan og hnyklaði brýnnar yfir kaffibollanum. Okkur var ekkert um það fas gefið, maðurinn átti að skemmta okkur vitanlega.
Daginn sem hann sagði mér raunir sínar var ég á leið heim eftir strangan dag. Ég sá að hann gekk í humátt á eftir mér. Um mig fór þessi venjulegi fiðringur sem fer um kvenfólk þegar geðslegir karlmenn elta þær svo ég reyndi að rétta úr mér þegar ég gekk yfir bílaplanið í áttina að jeppanum mínum. Lét að öðru leyti sem ég væri annars hugar. Gramsaði í tösku minni eftir bíllyklinum og tók mér góðan tíma svo að hann næði örugglega til mín. Þegar hann var kominn að hlið mér leit ég hissa upp og spurði hvort hann vildi far? Hann hristi höfuðið en horfði fast ofan í töskuna mína og spurði hvort nokkru hefði verið stolið af mér. Ég varð eitt spurningamerki í framan og þá sagði hann með festu að ég skyldi gæta töskunnar minnar, í þessum skóla væri öllu stolið steini léttara. Ég spurði um hvað hann væri eiginlega að tala og þá sagðist hann vera að tala um skrílinn í H-bekknum sem gengi um rænandi og ruplandi.
(s. 89-90)