Beint í efni

Kuldi

Kuldi
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur


Um Kulda:Þegar ungur maður fer að rannsaka upptökuheimili fyrir unglinga á áttunda áratug liðinnar aldar taka undarlegir atburðir að skekja tilveru hans og dóttur hans. En hvort eiga þeir rætur sínar að rekja til hörmunga sem dundu yfir unglingaheimilið eða til sviplegs fráfalls barnsmóður hans hálfu ári fyrr?Úr Kulda:Á hinum enda línunnar var kona sem virtist svo undrandi yfir því að það skyldi vera ansað að hún kom ekki almennilega fyrir sig orði eða kynnti sig. „Já, sæl. Halló, ég ætlaði bara að fá að tala við einhvern sem gæti sagt mér fréttir af syni mínum, helst hefði ég viljað fá að tala við hann sjálfan en mér skilst að það megi ekki.“ Aldís kom ekki upp orði osvo að konan hélt óðamála áfram. Það var auðheyrt að hún hefði kviðið þessu símtali. „Ég er búin að reyna svo oft að ég var við það að gefast upp. Það er pása hjá mér í vinnunni og ég fékk leyfi til að fara í símann en annars get ég bara hringt á kvöldin og þá ansar enginn. Ég var farin að halda að þetta væri vitlaust númer.“„Ég er bara að þrífa hérna. Ég get ekkert hjálpað þér.“ Aldísi fannst hún hljóma hörkulega en þetta var þó sannleikanum samkvæmt.„Geturðu kannski sótt einhvern sem er yfir þarna? ég mun ekki trufla hann lengi.“ Eftirvænting konunnar leyndi sér ekki. „Ég verð að drífa mig aftur í vinnuna svo það er alveg öruggt mál að ég mun ekki tefja hann.“Rödd konunnar var biðjandi, eins og Aldís sæti á lyfi sem ætti eftir að bjarga lífi hennar. En það var lítið sem hún gat gert. „Það eru voða strangar reglur hérna varðandi foreldra. Drengjunum er alveg bannað að tala við ykkur í síma og ég veit að Vegiar vill heldur ekki eiga í beinum samskiptum við ykkur.“ Hikið sem mætti henni gaf til kynna að konan hefði ekki hugmynd um hver Veigar væri. „Hann er forstöðumaðurinn hérna og ræður öllu.“„Ég skil. En væri hann til í að eiga við mig bara örfá orð? Ég er óskaplega kvíðin og vildi bara fá einhverjar frétir. Það er svo óþægilegt að vita ekki nokkurn skapaðan hlut.“Aldísi langaði mest til að segja konunni að reyna bara síðar, hún gæti ekkert aðstoðað hana, en sársaukinn í röddinni var meiri en svo. „Hvað heitir sonur þinn?“„Einar. Einar Allen. Kannastu við hann?“Aldís starði niður á slitna inniskóna. Þeir höfðu einu sinni verið köflóttir en munstrið hafði máðst af tánum eftir allt skúringavatnið sem hafði skvest á þá. „Ég veit hver hann er.“„Geturðu sagt mér hvernig hann hefur það? Gerðu það.“ Þetta var ábyggilega stolt kona en spurningin bar með sér undirgefni og umkomuleysi.„Hann hefur það bara fínt.“ Aldís fékk ekki af sér að segja henni annað. Sonur hennar var eins og aðrir við það að brjálast í tilgangsleysinu á heimilinu. Með hverjum degi sem leið myndi halla meira undan fæti. Eða svo taldi Aldís. Hana dauðlangaði að spyrja konuna hvað Einar hefði gert af sér en kunni ekki við það. „Hann er bara sáttur.“Konan virtist ekki vera neinn bjáni. „Ætli þú myndir segja mér frá því ef þessu væri öfugt farið?“„Kannski ekki.“ Aldísi fannst hún greina einhver hljóð frammi á gangi. „Ég verð að fara. Ég á alls ekki að vera að tala við þig. Ég lendi í vandræðum ef einhver kemur að mér.“ Hún leit á dyrnar eins og hún byggist við að þeim yrði hrundið upp á hverri stundu. En utan af gangi heyrðist ekkert svo að hún slakaði aðeins á.„Eitt áður en þú ferð. Skilaðu kveðju til hans frá mér. Segðu honum að ég hugsi stöðugt til hans.“ Hún þagnaði og virtist hafa sagt það sem henni lá á hjarta en bætti svo við í flýti: „Og líka að hafa það hugfast að þetta var rétt ákvörðun. Aðrir kostir voru mun verri. Það er mjög mikilvægt.“Aldís áttaði sig ekki á því hvort það væri mjög mikilvægt að hún myndi eftir þessu síðasta eða hvort hún ætti að segja Einari að það væri mjög mikilvægt að hafa þetta hugfast. Nema hvort tveggja væri. Hún vissi ekki hvort hún myndi koma nokkru af þessu til skila en jánkaði því engu að síður til að ljúka samtalinu sem fyrst. Hún var með hálfgert samviskubit yfir að vera ekki nógu hreinskilin við móðurina og til þess að bæta fyrir það gusaði hún út úr sér að hún væri yfirleitt að þrífa á skrifstofunni á þriðjudögum og fimmtudögum á þessum sama tíma ef konan skyldi vilja hringja síðar. Svo lagði hún á og blótaði sjálfri sér fyrir að hafa verið að blanda sér inn í samskipti mæðginanna. Hún átti nóg með sig sjálfa og mátti varla við því að verða að auki milligöngumaður þessa undarlega drengs og móður hans. Samt langaði hana öðrum þræði til að vera með í þessu laumuspili, verða aftur hluti af kærleiksríkri fjölskyldu. Kannski gæti hún eitthvað lært af þessu varðandi eigin börn þegar þau kæmu í heiminn.(65-7)


Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Barnapíubófinn, Búkolla og bókarránið

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Jeg vet hvem du er

Lesa meira

I Remember You

Lesa meira