Beint í efni

Landið sem aldrei sefur

Landið sem aldrei sefur
Höfundur
Ari Trausti Guðmundsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Skáldsagan Landið sem aldrei sefur er draumkennd ferðalýsing manns um stærstu álfu heims. Við fylgjum sögumanni um hrjóstrug héruð Síberíu og kynnumst því margvíslega fólki sem á vegi hans verður, lífsháttum þess og baráttu. Draumur sögumanns – eða er þetta veruleiki? – virðir engin mörk né mæri og frásögnin ber okkur frá norðaustasta horni Síberíu í krókaleiðum til suðurs, og þaðan áleiðis til Íslands. En ekki fyrr en sögumaður hefur notið alúðar þess fólks sem aðstoðar hann í nauðum og gerir honum kleift að halda ferð sinni áfram, hvort sem er í vöku eða draumi.

Úr bókinni:

Stígurinn

Skógurinn var hljóðlátur. Svalur og að mestu rökkvaður. Á stöku stað náðu sólstafir niður úr hárri laufþekju milli gildra stofna. Grænn lággróður hvarf í bláma utan við bjarta ljósblettina. Breiður göngustígur lá í óþekkta átt. Hann var þakinn sölnuðu laufi sem skrjáfaði lítillega í þegar ég silaðist áfram. Trén næst leið minni hölluðust fram og laufkrónurnar báðum megin snertust. Trjágöngin virtust löng og við munnann, þar sem stígurinn endaði eins og mjótt strik, tók við bjart en ógreinilegt landslag. Hvergi var lífsmark að heyra eða sjá í þykkninu, hvergi fugl eða fluga. Laufin í trjánum bærðust ekki.

Mér var kalt og gríðarleg þreyta gagntók mig. Ég hægði á mér eftir því sem á leið. Vonaði að sólargeislar næðu til mín en það gerðist ekki. Löng gangan vakti í mér óþol og leiða. Stórskógurinn var tilbreytingarlaus, mergð svipaðra trjástofna hvert sem litið var og fábreytt laufskrúð til beggja handa og yfir mér. Ég leit um öxl. Að baki var myrkur veggur.

Smám saman komst ég að því að stígurinn lengdist og ljósið við endann fjarlægðist með sama hraða og ég nálgaðist það. Örvænting greip mig. Ég reyndi að herða gönguna, jafnvel hlaupa en fæturnir hlýddu mér ekki.

Ég stansaði loks og hrópaði en heyrði aðeins daufan óm af eigin rödd og ekkert svar. Vissi ekki hve lengi ég stóð hreyfingarlaus. Fann að mátturinn þvarr þrátt fyrir kyrrstöðuna. Settist og horfði á sólstafi skjótast til jarðar milli trjáa og hverfa skömmu síðar, líkt og leitarljós. Ég þreifaði um sár augu og sprungnar varir. Svipaðist um eftir vatni en sá ekkert annað en tré, laufgaðar greinar, runna og burkna.

Ég gat bægt frá mér angist en gafst upp fyrir þreytunni, lagðist á bakið, hagræddi mér, hálfþakinn laufi og starði upp í blágræna skógarþekjuna. Barðist við að halda mér vakandi án þess að vita af hverju. Mátti ég ekki sofna?

Það dimmdi. Laufin runnu saman í dökkbláa hvelfingu. Þar birtist fólk, fyrst langt í burtu en það nálgaðist hratt. Fiðrildi og litlir, hvítleitir fuglar flögruðu í kringum fólkið. Ég greindi loks börnin mín og nokkra vini. Hópurinn kom enn nær en þá urðu andlitin ógreinileg. Allir teygðu fram hendur og ég fann hvernig mér var lyft hægt og sífellt hærra. Fann fyrir óumræðilegum létti. Nú gat ég sofnað.

(7-8)

 

Fleira eftir sama höfund

Landið sem aldrei sefur

Lesa meira

Eyjafjallajökull : Der ungezähmte Vulkan

Lesa meira

Pakistan

Lesa meira

Bólivía

Lesa meira

Maðurinn sem deildi vötnum: saga frá Tíbet

Lesa meira

Veröld í vanda: umhverfismál í brennidepli

Lesa meira

Íslenskur jarðfræðilykill

Lesa meira

Gagnvegir - um víða veröld: frásagnir af ferðalögum og lærdómum

Lesa meira