Beint í efni

Ljónadrengurinn: Sannleikurinn

Ljónadrengurinn: Sannleikurinn
Höfundur
Zizou Corder
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Lion Boy: The Truth eftir Zizou Corder í þýðingu Hermanns.

Spennandi sögulok í hinum einstaka bókaflokki um ljónadrenginn Charlie Ashanti sem vaknar við það einn daginn að foreldrum hans hefur verið rænt. Hann slæst í för með farandsirkus til að hafa uppi á þeim. Í þessu þriðja og síðasta bindi berst leikurinn frá Norður-Afríku til Karíbahafsins.

Úr Ljónadrengnum: Sannleikurinn

Það sem unga ljónið fann í lestinni kom því til að öskra.

,,Hvað ert þú að gera hér! þrumaði það þegar það lenti á hrúku af mjúkum feldi með fætur og tennur og veiðihár.

,,Ég kem með, sagði Elsina.

,,Nei, þú kemur ekki með, sagði unga ljónið.

,,Reyndu ekki að stöðva mig! sagði hún.

,,Taktu fótinn úr kjaftinum á mér! urraði hann.

,,Hættu þá að bíta mig í fótinn, svaraði hún um hæl.

,,Ááá! Hvernig komstu hingað?

,,Ég hljóp og fylgdist með og notaði skynsemina, sagði hún. ,,Ég er ekki vitlaus ef þú heldur það.

Unga ljónið var öskureitt. Systir þess hafði komið því í vonlausa aðstöðu. Þau rifust og hvæstu hvort á annað af bræði þangað til þau heyrðu fótatak nálgast og skildu að Claudio, Boris og Younus voru að koma um borð.

,,Hvað á ég að segja við fjölskylduna þegar þú verður drepin? Eða þegar við verðum bæði drepin því ég þarf að fara og bjarga þér? muldraði unga ljónið eins lágt og það gat.

,,Ef við verðum bæið drepin gefst þér nú ekkert tækifæri til útskýringa, eða hvað? hvíslaði Elsina reiðilega. ,,Þegiðu nú. Ég er komin til að hjálpa þér og ég hef fullan rétt á því! Vertu ekki svona mikið svín!

Younus og Claudio voru beint fyrir ofan þau og unga ljónið gat ekki svarað af ótta við að ljóstra upp um felustaðinn. En um leið og þeir voru farnir hjá byrjaði það að hvæsa á hana aftur. ,,Þú verður dragbítur! sagði hann. ,,Þú tefur mig og setur okkur öll í hættu! Eins gott að þú hagir þér almennilega!

Lyktin niðri í lest var vond en Elsinu stóð á sama. Bróðir hennar gat ekki sent hana til baka og með tímanum kæmist hann að raun um hversu gagnleg hún væri.

,,Ég verð hreinasti engill á meðal ljónsunga, svaraði hún.

,,Og þú verður að éta fisk, hreytti hann út úr sér.

Ó, hugsaði hún og mundi eftir ferðinni löngu suður Miðjarðarhafið. Oj bjakk.

(70-1)

Fleira eftir sama höfund

Ljónadrengurinn

Lesa meira