Beint í efni

Mannveiðihandbókin

Mannveiðihandbókin
Höfundur
Ísak Harðarson
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Smásögur

Úr Mannveiðihandbókinni:

Maðurinn kom fyrir hornið jafn snögglega og hann hafði horfið. Hann bar ritvél í fanginu og fetaði snjóuga veröndina varlega til að detta ekki og smokraði sér inn um þröngar dyrnar með byrðina. Ég sá skugga hans teygjast og togna inn í stofunni, og svo birtist hann sjálfur handan við rúðuna og lagði ritvélina frá sér á borðið við gluggann. Síðan hvarf hann - og kom aftur í ljós í dyrunum, ætlaði sjálfsagt að sækja meira hafurtask í bílinn; hann hlaut að hafa komið í bíl, með ritvélina. Ætlaði hann að eiga heima í Bæli?
,,Hæ Manni! kallaði ég ofan af veggnum.
Maðurinn tók viðbragð og snarsneri sér við. Það var heppilegt að hann skyldi ekki halda á neinu, því hann hefði áreiðanlega gloprað því úr höndunum á sér.
,,Hver er þar? kallaði hann stuttri og ryðgaðri rödd og pírði augum í áttina til mín, og ég skildi að hann greindi mig varla, samvaxinn veggnum og myrkrinu.
,,Ertu úr Reykjavík? sagði ég og klifraði alveg upp og settist á brúnina, lét fæturna lafa niður í ljósið.
,,Ætlaru að eiga heima hérna?
,,Nei, það er bara sending úr fjörunni! sagði maðurinn glaðhlakkalega. ,,Ertu kannski sjálfur fjörulallinn?
,,Nei, ég er Eilífur, svaraði ég.
,,Ha? sagði hann.
,,Ég heiti Eilífur, endurtók ég og fann hvað mér kólnaði strax á rassinum við að sitja á freðnum steininum.
,,Það er aldeilis! sagði hann forviða. ,,Heita allir svona skrítnum nöfnum hérna á Salteyri?
,,Það er ekkert skrítið, sagði ég. ,,Pabbi minn heitir líka Eilífur. Og líka afi og...
,,Heyrðu kallinn, komdu þarna niður, greip maðurinn fram í. ,,Mér finnst ég vera að tala við einhvern úr Efribyggð, þegar ég blaðra svona upp í myrkrið. Gott ef þú hálsbrotnar ekki, ef þú dettur.
Hann kom niður af pallinum og studdi við mig á meðan ég hálfrann niður steinana, og þegar ég var komin alla leið, hneigði hann sig lítið eitt og sagði hátíðlega: ,,Að eilífu velkominn til þessa lítilfjörlega Bælis á jörðu, Eilífur sonu Eilífra úr Efribyggð.
Hann var jafn skrítinn og Indriði hafði verið, og ég vissi ekki hverju ég átti að svara, en hann hélt árfam: ,,Mamma þín hlýtur þá líka að heita Eilífð, og þið eruð auðvitað langt yfir tímann hafin og þurfið ekki úr og klukkur, og hjá ykkur er hvorki dagur né nótt, morgunn né kvöld, sumar né vetur...

(s.18-19)

Fleira eftir sama höfund

Öreigarnir í Lódz

Lesa meira

Hjörturinn skiptir um dvalarstað

Lesa meira

Þúsund hamingju spor

Lesa meira

O den här poeten: Den lilla stan mellan hav och himmel: På strandiska

Lesa meira

Þúsund vísdóms spor

Lesa meira

Þunglyndi: orsök og lækning

Lesa meira

Listin að stjórna eigin lífi: Virkjaðu þinn innri kraft

Lesa meira

Hamingja í lífi og starfi

Lesa meira

Kátir krakkar og Trölla-Pétur

Lesa meira