Beint í efni

Með sigg á sálinni

Með sigg á sálinni
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Um bókina

Hér segir Einar Kárason rithöfundur frá ævi Friðriks Þórs Friðrikssonar, allt frá bíódögum og sveitasögum bernskunnar til Óskarsverðlaunatilnefningar og kynna leikstjórans af stórstjörnum af ýmsu tagi.

Lífsferill Friðriks Þórs hefur verið bæði ævintýralegur og öfgafullur. Hann hefur legið milli heims og helju á gjörgæsludeild í Þessalóníku við hliðina á sundurskotnum eiturlyfjabarón; verið handtekinn um nótt í Brasilíu sem grunaður hryðjuverkamaður; rekið umsvifamikið fyrirtæki og misst aleiguna; veitt marga stórfiska sem ekki minnka neitt að ráði í frásögnum þeirra félaganna; gert kvikmyndir um norræna kúreka, braggabúa, skyttur og fálkaþjófa, alheimsengla og einhverfu – og er þá fátt eitt talið.

Hér er sagt frá fjölmörgum litríkum karakterum, sumum heimsþekktum, öðrum af botni mannfélagsins og ýmsum þar á milli – en alltaf tekst þeim Friðriki og Einari að draga fram gamanmál eða örlagasögur sem gera þá minnisstæða.

Úr Með sigg á sálinni

  Ég gerði svo myndina Brennunjálssögu, sem segja má að hafi verið nokkurskonar happening; ég hafði gefið út að ég myndi filma alla bókina, og stóð svo við það: Það var kveikt í bókinni á þeirri síðu þar sem húsin taka að loga á Bergþórshvoli og svo horfðum við á hana brenna. Viðar Víkingsson sá um gerð myndarinnar.
  Þegar ég frumsýndi Brennunjálssögu í Bergen í Noregi þá notaði ég tónlist Brians Eno undir hana, en mig langaði að fá íslenska hljómsveit til að leika undir með henni þegar hún yrði frumsýnd hér heima. Svo að ég hafði samband við gamla skólafélaga og vini úr MT, þá Hilmar Örn Hilmarsson og Guðna Rúnar Agnarsson sem voru umboðsmenn rokksveitarinnar Þeys og hún reyndist fús til að taka að sér verkið. Myndin var ekki nógu löng fyrir heilt kvöld í aðalsal Háskólabíós svo ég fékk íslensku Kaupmannahafnarsveitina Kamarorghesta til að spila á undan einu sýningunni sem átti að vera á myndinni. Til að fylla bíóið var farið í mikla auglýsingaherferð í Ríkisútvarpinu þar sem við beindum þeim vinsamlegu tilmælum til fólks að ferðast ekki til Þingvalla eða að þjóðveldisbænum í Þjórsárdal vegna töku á myndinni. Og þetta skilaði þeim árangri að það lá við umferðaröngþveiti á þessum stöðum helgina sem í hönd fór; allir vildu sjá þetta gerast. Og sömuleiðis varð uppselt á skemmtunina svo að ég kom út með góðan hagnað, sem ég notaði svo til að fjármagna myndina um eldsmiðinn.
  Löngu seinna þegar Hrafn Gunnlaugsson var dagskrárstjóri á Sjónvarpinu setti hann myndina á dagskrá á præm tæm. Þá var Stefán Jón með Þjóðarsálina á Rás tvö og hún ærðist; einhver kall hringdi meðal annars alveg brjálaður, hann hafði lagt sig í sófanum en börnin hans vöktu hann dauðskelkuð og æptu: Pabbi, pabbi, bókin brennur! Hann hafði sagt börnunum að þau þyrftu að sjá þetta því að þau ættu síðar eftir að lesa bókina í skólanum. En Stebbi fór í hann, spurði hvers vegna hann hefði lagt sig; hafðir þú engan áhuga á að sjá þetta? Hafi myndin verið drasl þá var þetta allavega nokkurs virði.

(113-114)

 

Fleira eftir sama höfund

Wyspa diabla

Lesa meira

Une affligeante histoire

Lesa meira

Fjendemøde

Lesa meira

Revontulet

Lesa meira

Pirunsaari

Lesa meira

Tyhmyreiden neuvot

Lesa meira

Kultasaari

Lesa meira

Luvattu maa

Lesa meira