Beint í efni

Mistur

Mistur
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Stórhríð geisar uppi á heiðum á Austurlandi fyrir jólin 1987 þar sem hjón búa á einangruðum bóndabæ. Ókunnugur maður ber óvænt að dyrum á Þorláksmessu og segist hafa villst í fárviðrinu.

Konan á erfitt með að trúa frásögn mannsins og eftir því sem hátíðin nálgast verður andrúmsloftið á þessum afskekkta bæ meira þrúgandi, símasamband rofnar, rafmagnið fer og ekki munu allir lifa heimsóknina af. Lögreglukonan Hulda Hermannsdóttir þarf að kljást við flókið og erfitt mál skömmu eftir að hafa sjálf lent í fjölskylduharmleik sem skilur eftir sár sem aldrei gróa.

Úr Mistri

Erla vísaði veginn inní gestaherbergið. Þetta var lítið herbergi við hliðina á gamla herberginu hennar Önnu. Það var lítið notað og því tók þungt loft á móti henni þegar hún opnaði dyrnar. Hún opnaði gluggann og kaldur gustur barst strax inn. Inni í herberginu var gamall, snjáður beddi, kommóða og náttborð. Kommóðan geymdi rúmföt og gömul föt sem þau hjónin og Anna voru hætt að nota. Ofan á kommóðunni voru gamlar ljósmyndir í römmum, sumar af foreldrum Einars og öðrum forfeðrum, og aðrar úr þeirra eigin safni; svarthvít mynd frá þeim tíma þegar Erla og Einar voru að kynnast, þegar þau voru ung og vitlaus og þvældust um malarvegi landsins í frítímanum á gamalli druslu. Jafnvel þá hafði legið í loftinu að Einar þyrfti að taka við búinu en hún reyndi alltaf að leiða það hjá sér, vonaðist til að þau myndu að lokum marka sér sína eigin slóð, búa í höfuðborginni, ferðast jafnvel út fyrir landsteinana öðru hvoru, en ekkert af þessu hafði ræst. Og nú ætlaði helvítis einangrun þau lifandi að drepa …

Og svo var þarna fjölskyldumynd, þau hjónin og Anna, þegar hún var komin á unglingsár, fallega rauðhærða stúlkan.

„Það eru rúmföt hér,“ sagði hún, benti á kommóðuna og reyndi að hljóma ekki of þurr á manninn.

„Takk fyrir, takk fyrir.“ Hann virti hana fyrir sér; óþægilega lengi, fannst henni. Eins og hann væri að reyna að átta sig á henni, af einhverjum ástæðum. En kannski var hún bara, enn og aftur, að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur.

Svo tók hann eitt eða tvö skref í áttina til hennar og hún hálfpartinn hrökk við. Hélt eitt augnablk að hann ætlaði að ráðast á sig. Hún andaði léttar þegar hann nam staðar og sagði kurteisislega: „Ég er að hugsa um að leggja mig aðeins. Þetta hefur tekið töluvert á.“

Erla kinkaði kolli og mjakaði sér framhjá honum og út úr herberginu.

„Ég er farin út til hans Einars, þú getur litið til okkar ef þig vantar eitthvað,“ sagði hún. „Þú verður nú vonandi kominn heim á morgun,“ sagði hún og lokaði dyrunum á eftir sér.

Hún var svo sem ekki vön að fara og hjálpa Einari að gefa, hann réð ágætlega við það einn en hana langaði ekki til þess að vera ein með þessum manni, ekki í augnablikinu. Hún klæddi sig í lopapeysu og þykka úlpu og stígvél og fór út í kuldann. Það var í rauninni ekki kuldinn sem var verstur. Hún kunni því ágætlega að finna ferskt loftið sem fylgdi nöprum vindinum á veturna og það mátti klæða mesta gaddinn af sér. Myrkrið truflaði hana hins vegar. Á kvöldin, yfir vetrartímann, forðaðist hún eiginlega að fara út því það var myrkur svo langt sem augað eygði, nema í tunglskini auðvitað. Hvergi ljósglætu að sjá, enga von. Og húsið hennar Önnu var of langt í burtu, bak við hóla og hæðir, þannig að þaðan barst enginn bjarmi. Tunglið var vinur hennar, þeim Erlu kom ágætlega saman; þá var bærilegt að vera úti á kvöldin. Og svo var það einangrunin, þessi helvítis einangrun, þessi fullvissa um að komast hvergi. Að vita að ef eitthvað bjátaði á væri kannski enga hjálp að fá … Hún bægði þessum hugsunum frá sér í flýti.

Það hafði hætt að snjóa í bili en það myndi ekki líða á löngu þar til byrjaði að kyngja niður aftur. Skaflarnir söfnuðust upp á þessum árstíma, allt frosið og fast fram í febrúar, ef þau voru heppin, nú eða þá fram í mars.

Og þarna kom hún asvo auga á fótspor Leós. Hún fylgdi sporunum dágóðan spöl, vissi ekki alveg af hverju, en áttaði sig sá að hann hafði vissulega fylgt veginum, eins og hann hafði sagt. Eina veginum sem lá frá þorpinu, til Önnu og svo til þeirra.

Og henni dauðbrá þegar hún áttaði sig á því hvað það þýddi. Hún kófsvitnaði í kuldanum, undir ullarpeysunni og úlpunni. Sneri sér við hægt og rólega, heyrði bara gnauðið í vindinum og sá varla til hliðanna þar sem hettan á úlpunni skyggði á. Hún var þess fullviss að Leó, gesturinn – ef hann hét þá Leó – hafði elt hana út og stæði nú beint fyrir aftan hana.

Sú var þó ekki raunin. Þarna stóð hún ein í snjónum og lét vofur ímyndunaraflsins hræða sig, eins og svo oft áður.

En hún varð að fara aftur inn og bera þetta upp á hann. Þessa bölvuðu lygi. Það hafði eflaust ekki verið eitt einasta sannleikskorn í frásögninni.

Hún arkaði upp að húsinu en stígvélin sukku í fönnina og hún komst ekki eins hratt og hún hefði viljað, leið nánast eins og í martröð, föst í sömu fótsporunum.

Loks opnaði hún dyrnar, stappaði á mottunni til að taka mesta snjóinn af en leit svo eldsnöggt upp því nú hafði hún í raun og veru séð vofu. Hjartað tók aukaslag og hún horfði beint í augun á Leó. Hann stóð í miðjum ganginum og hún var þess algjörlega fullviss að hann hefði verið að koma, í hendingskasti, út úr svefnherbergi þeirra hjóna.

(46-8)

Fleira eftir sama höfund

reykjavík

Reykjavík

Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar.
Lesa meira

Vetrarmein

Lesa meira

Hvítidauði

Lesa meira

the island

Lesa meira

Fuori dal mondo

Lesa meira

La sombra del miedo

Lesa meira

Snezna slepota

Lesa meira