Beint í efni

Nakti vonbiðillinn

Nakti vonbiðillinn
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2012
Flokkur
Smáprósar

Um bókina:

Bjarni Bjarnason hefur frá unga aldri haldið draumadagbók. Í þessu kveri birtir hann 64 drauma úr safni sínu. Þetta er nýstárlegt form í íslensku samhengi en á sér hliðstæðu í verkum erlendra höfunda. Draumunum er raðað í tímaröð og höfundurinn leitast við að vera þeim trúr, án þess að bæta nokkru við eða leggja út af þeim. Textanum er þannig ætlað að veita innsýn í það flæði undirvitundarinnar sem listamenn hafa löngum nýtt sér sem hráefni við sköpun sína.

Úr Nakta vonbiðlinum:

Hverfisgötu 49, 7. mars 1994. Svarti svifkötturinn.

Í leiðindum mínum slæðist ég inn á Sólon Íslandus, kem auga á kunningja en kýs að vera einn. Augu gesta lýsa tómleika og óhamingju og eftir að hafa pantað kaffi halla ég mér fram á borðið með hönd undir kinn.

Fíkniefnalögreglan er að störfum. Rassíunni stjórnar þrekvaxin röggsöm mótorhjólalögga í fullum leðurskrúða. Margir eru handteknir eftir nýju kerfi, ættuðu úr National Geographic. Í tímaritinu má sjá að eiturlyfjunum er smyglað til landsins með rauðum fuglum, sem reynast við nánari eftirgrennslan vera flamingóar. Mér finnst þetta fáránlegt þar sem flamingóar lifa ekki á Íslandi, jafnvel ekki á Sólon Íslandus. Svo kemur á daginn að það eru ekki alltaf notaðir flamingóar við smygl nautnalyfjanna, heldur líka hverjir þeir „túristafuglar“ sem leið eiga á milli Íslands og álfanna beggja vegna.

Nú birtist, á yfirborðinu í kaffibollanum mínum, fræðsluþáttur um það hvernig svarti svifkötturinn, dýr sem er í útrýmingarhættu, er notaður við eiturlyfjasmygl af landanum.

Svarti svifkötturinn gerir sér bú í klettabeltum við strendur miðvestanverðar Evrópu. Hann er grimmt og tignarlegt dýr sem minnir á pardus, en er afskaplega blíður ef traust hans er unnið. Menn eru fengnir til að vinna traust hans, og síðan gert að strjúka honum ákaft, með eiturlyfin í lófunum. Þannig verður feldur malandi parduskattarins smámsaman mettaður lyfjadufti.

(29)

 

Fleira eftir sama höfund

Andlit (brot)

Lesa meira

Bernharður Núll

Lesa meira

Endurkoma Maríu

Lesa meira

Í óralandi

Lesa meira

Vísland

Lesa meira

Urðafjóla

Lesa meira

Til minningar um dauðann

Lesa meira

Ótal kraftaverk

Lesa meira