Beint í efni

Nornasaga: Hrekkjavakan

Nornasaga: Hrekkjavakan
Höfundur
Kristín Ragna Gunnarsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Katla opnar óvart galdragátt á hrekkjavökunni. Ævaforn norn, Gullveig að nafni, smýgur í gegn, uppfull af hefndarþorsta. Tjörnin fyllist af sæskrímslum og nornin hneppir landsmenn í álög, heldur Fullveldishátíð og gerir Hallgrímskirkju að höll sinni – svo fátt eitt sé nefnt.

Til að bjarga heiminum þarf Katla að:
– koma norninni burt áður en hún rústar landinu
– bjarga vini sínum Mána áður en það verður of seint
– aflétta bölvun Gullveigar áður en mannheimur ferst og tíminn er naumur …

Nornasaga – Hrekkjavakan er fyrsta bókin af þremur í nýrri trílógíu. Hún er ríkulega myndskreytt af Kristínu Rögnu.

Úr bókinni

   „Hættu nú Kría,“ sagði ég en systir mín smaug úr greipum mér og stökk upp enn einn stigann sem lá beint inn í sýningarsal á efstu hæðinni. Mér skrikaði fótur í efstu tröppunni (enda fermingarskór bróður míns allt of stórir á mig) og skautaði eftir nýskúruðu parketinu þar til ég rakst utan í veitingavagn með vínglösum á. Vagninn rúllaði af stað með glasaglaumi og tók stefnuna á röð af sýningarkössum.
   „Hey! Hvað ertu að gera? Það er ekki búið að opna kortasýninguna,“ var kallað. Svarthærður strákur baðaði út öllum öngum. Þetta reyndist vera bekkjarfélagi minni, Máni. Ég hafði aldrei heyrt hann tala áður. Hann hímdi alltaf þögull úti í horni og hrökk við í hvert sinn sem yrt var á hann.
   Mána tókst með herkjum að stöðva vínvagninn áður en hann rakst utan í sýningarkassa. Björgunaraðgerðin tókst samt ekki betur en svo að rauðvín gusaðist upp úr nokkrum glösum. Blóðrauður taumur lak niður aðra buxnaskálmina á fáránlega skærlitum íþróttagalla Mána.
   „Hæ,“ stundi ég. „Geðveikt flottur búningur.“
   Hann kom ekki upp orði en augnaráðið sagði allt sem segja þurfti.
   „Ætlarðu á ballið sem Pollapönkari?“ spurði ég og barðist við hláturinn. „Ertu ekki annars að fara á hrekkjavökuballið?“ Ég skimaði eftir Kríu sem valhoppaði forvitin á milli glerkassanna.
   „Nei.“ Máni roðnaði. Hann þreif hvíta tusku af vagninum og hófst handa við að reyna að hreinsa rauðvínsblettinn. „Ég er ekki hrifinn af skólaskemmtunum,“ muldraði hann. „Svo þarf ég líka að hjálpa pabba. Hann er sýningarstjórinn.“
   Kría sveif beint á eina sýningarkassann sem var opinn. „Vá, rosalega flott kort!“ sagði hún með kámuga fingur á kassabrúninni.
   „Ekki!“ æpti Máni. Hann kastaði klútnum frá sér, stökk til Kríu og ýtti við henni. „Þetta er forngripur.“
   Ég þusti að. „Láttu systur mína vera,“ sagði ég og leit ofan í kassann.
   Í honum lá kort af Íslandi. Landið var svolítið bjagað í laginu. Nokkrir ísbirnir bröltu um á hafís úti fyrir Austurlandi. Rekaviður flaut um í sjónum en þar svömluðu líka stórfurðuleg sæskrímsli.

(s. 15-20)
   

 

 

Fleira eftir sama höfund

Lygasaga

Lesa meira

Lokaorð

Lesa meira

Úlfur og Edda : Drottningin

Lesa meira

Úlf a Edda: Ukradený kleenot

Lesa meira

Úlfur og Edda: dýrgripurinn

Lesa meira

Örlög guðanna: Sögur úr norrænni goðafræði

Lesa meira

Úlfur og Edda : Drekaaugun

Lesa meira

Engar ýkjur

Lesa meira