Beint í efni

Nornasveimur

Nornasveimur
Höfundur
Emil Hjörvar Petersen
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Nornasveimur er þriðja bókin í sögu Bergrúnar og Brá.

Á Jónsmessunótt er norn myrt í Trékyllisvík á Ströndum. Fórnarlömb galdrabrenna ganga aftur. Illskeytt og dularfull kynjaskepna ræðst til atlögu. Og válegir andar eru á sveimi. Yfirnáttúrudeild rannsóknarlögreglunnar þarf að takast á við skelfilegt ástandið með aðstoð huldumiðilsins Bergrúnar Búadóttur og Brár, dóttur hennar. Samhliða því að kljást við ókennileg öfl þurfa mæðgurnar að horfast í augu við eigin breyskleika og innri ógnir..

úr bókinni

Á efri hæðinni er urrað lágt.
   Nornirnar Björg og Ægir munda stafina og búa sig undir að læðast upp. Nær ógreinilegt brak berst frá fyrsta þrepinu í stiganum þegar Björg stígur á það og samstundis deyja kokhljóðin fyrir ofan út.
   Í staðinn heyrum við einhvern þefa eða ég ætti frekar að segja eitthvað því það þefar hærra en stórnefjaðasta manneskja.
   Í kjölfarið dynur í öllu húsinu undan þungu og hægu fótataki.
   Fótatakið er beint fyrir ofan okkur.
  „Förum upp,“ hvíslar Ægir hraðmæltur. „Tökum okkur stöðu áður en það lokar gangveginum.“
   Í þröngum stiganum getum við aðeins myndað einfalda röð, sem Björg fer fyrir, og það er ómögulegt að sjá hér aftast hvernig umhorfs er á efri hæðinni. Ég verð að treysta því að nornirnar viti hvað þær eru að gera.
   En þær vita það greinilega ekki.
   Áður en Björg kemst alla leið upp birtist stór og loðin hönd með langar klær yfir handriðinu. Leiftursnöggt þrífur höndin í hárið á Björgu og sviptir henni upp með þeim afleiðingum að höfuð hennar slæst harkalega í handriðið.
   Fyrsta viðbragð okkar hinna er að snarstansa í stiganum, en við ættum auðvitað að fara samstundis á eftir Björgu. Við heyrum hvernig hún er dregin hratt eftir gólfi, hurð er skellt og skepnan - ég ætla að gera ráð fyrir því að þetta sé kynjaskepna af einhverju tagi - byrjar aftur að urra og gerir það nú hátt og illilega.
   Við bíðum ekki frekari boða heldur hlaupum upp það sem eftir er af stiganum, upp á efri hæðina þar sem ýldudaunninn af skepnunni hefur nánast kæft höfugan jurtailm. Við staðnæmumst fyrir framan lokaðar dyr að herbergi sem vísar út á stíginn fyrir utan. Ægir segir þetta vera dyrnar að svefnherbergi erkinornarinnar sálugu.
   „Slepptu henni!“ Hann otar stafnum að dyrunum. „Þú ert innikróaður...króað... þú ræður ekki við okkur öll!“
   Miðað við kraftinn í loðnu hendinni eru samt líkur á því að skepnan ráði við okkur. Ægir dregur augað í pung og ygglir sig og sé ég þá á honum að hann er meðvitaður um það. Hikandi gefur hann okkur merki um að ljúka upp dyrunum.

(62-63)

Fleira eftir sama höfund

dauðaleit

Dauðaleit

Unglingsstúlka hverfur í undirgöngunum í Hamraborg í Kópavogi og það er eins og jörðin hafi gleypt hana
Lesa meira
hælið

Hælið

Saga sem fer á flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drepsóttir fortíðar og aftökur í voginum koma við sögu
Lesa meira

Víghólar

Lesa meira

Ætar kökuskreytingar

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Níðhöggur

Lesa meira

Lísítsja

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Höður og Baldur

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Heljarþröm

Lesa meira

Gárungagap

Lesa meira