Beint í efni

Opið haf

Opið haf
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Þegar fiskibát hvolfir úti á opnu hafi í vetrarmyrkri er fátt sem getur komið sjómönnunum um borð til bjargar. Þrír menn komast á kjöl en þegar báturinn sekkur eiga þeir engan kost annan en að leggjast til sunds og trúa því besta þótt óralangt sé til lands. Brátt er aðeins einn þeirra eftir. Einn maður andspænis algeru ofurefli ‒ og hann hann syndir áfram.

Einar Kárason segir hér sögu af bráðum lífsháska og sterkum lífsvilja; Opið haf er skáldsaga byggð á sönnum atburði eins og tvö seinustu skáldverk hans, Stormfuglar og Þung ský.

Úr bókinni

Þegar hann velti sér yfir á baksund horfði hann upp í himininn. Hann var að mestu skýjaður en þó sáust stjörnur á stangli og rúmlega kvart- eða tæplega hálffullt tungl braust stundum fram úr skýjum. Hann minntist þess að foreldrar hans töluðu stundum hér á árunum um íslenskan vísindamann sem hafði eftir merkilegar rannsóknir sett fram þær kenningar að eftir dauðann færu menn, og reyndar fleiri lífverur, til annarra stjarna og ættu þar sitt framhaldslíf; foreldrarnir áttu á æskuheimilinu bækur í hillu eftir þennan mann og töluðu um hann af virðingu; þær hétu allar eitthvað með nýal og hann hafði reynt að kíkja á þær sjálfur en ekki náð að halda fókus þótt hann hefði alltaf verið dálítill lestrarhestur, en það vantaði söguþráðinn í þessar - það verður að vera saga svo hægt sé að halda þræði. Það var líka fleira fólk í Eyjum sem hafði kynnt sér þessar kenningar og það hittist stundum til að bera saman bækur; einu sinni var þannig samsæti á æskuheimili hans, þar voru tvenn önnur hjón og málin krufin yfir kaffi, kleinum og smákökum; en hann sjálfur hafði semsé aldrei fengið mikinn áhuga á þessu, líka í og með vegna þess að einhverntíma barst þetta í tal í skólanum og maður sem hann tók mark á sagði þá að þetta væri nú eitthvert mesta dellumakerí sem nokkur rugludallur hefði fyrr eða síðar kokkað upp; hann átti eftir að bera þessa eftirminnilegu setningu undir foreldra sína og þau sögðust þá kannski ekki endilega trúa fyllilega á þetta, en það væri samt áhugavert að kynna sér allt svona og að maðurinn sem skrifaði um þetta væri nú enginn rugludallur, öðru nær, heldur heimsfrægur jarðvísindamaður og doktor. En nú á baksundinu enn á lífi þótt það gæti varla varað mikið lengur sá hann einhvernveginn stjörnurnar í nýju ljósi; þótt hann hefði einsett sér að dvelja ekki í huganum við yfirvofandi dauða þá urðu ýmsar spurningar af þessu tagi á einhvern hátt nærtækari eins og á stóð, eins og sú hvort það gæti verið að þetta, þessir ljósdeplar þarna uppi, væru framtíðarheimkynnin? Og hverslags tilvera ætli það væri að hírast þar, langt í burtu frá öllu og öllum? Ætli það væri hægt að gera eitthvað skemmtilegt á þeim slóðum? Hann hafði séð teiknaðar myndir af yfirborði Mars og einhverra fleiri stjarna, eins og það var talið vera, og svo auðvitað myndirnar frá tunglinu, geimförunum sem fóru þangað upp, og ekki var það lokkandi. Enginn gróður, engin dýr eða fuglar, ekkert nema endalaust grjót og möl. Allir höfðu auðvitað lært í fermingarfræðslu og kristinfræði í skólanum um himnaríki, þarna fyrir ofan skýin, þar sem menn voru orðnir að englum, en líka það hlaut að vera hálftilbreytingarlaust. Ekkert lokkandi tilhugsun eins og á stóð. Svo voru margir sem trúðu því að menn yrðu að draugum þegar þar að kæmi, yrðu afturgöngur, en aldrei hafði hann heyrt um neina slíka öðruvísi en að það væru hvimleiðir aðilar, til óþrifa og óþurftar fyrir hina lifandi, væru að birtast með geiflur, hrekki og illvirki á verstu stundum, og allra helst ef hinir lifandi voru einir og í myrkri eða á vondum stað - Glámur í sögunni um Gretti sterka var einmitt þannig draugur, afturgenginn skratti og ekki beinlínis jákvæður peyi. Þannig vildi hann helst ekki verða. En hinsvegar hafði einn vinur hans í Eyjum fengið þær fréttir á miðilsfundi að honum fylgdi verndarengill, að amma hans sáluga vekti yfir honum og vegferð hans og gerði sitt besta til að bægja frá honum hættum, og það væri þá nær að fara út í eitthvað svoleiðis ef á þyrfti að halda, frekar en að eyða eilífðinni í að hræða saklaust fólk og hrekkja; ef menn hefðu um það val kysi hann heldur að fá að verða fólki til gagns, það hafði alltaf verið meira hans stíll ...

(bls. 38-41)

Fleira eftir sama höfund

Kultasaari

Lesa meira

Þar sem djöflaeyjan rís

Lesa meira

Þættir af einkennilegum mönnum

Lesa meira

Þar sem djöflaeyjan rís

Lesa meira

Luvattu maa

Lesa meira

Tyhmyreiden neuvot

Lesa meira

Revontulet

Lesa meira

Pirunsaari

Lesa meira

Fjendemøde

Lesa meira