Beint í efni

Pabbi prófessor

Pabbi prófessor
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Unglingabækur

Um Pabba prófessor

Myndskreytingar: Rán Flygenring.

Kæri lesandi

hér er komin önnur bók um mig, Stellu (manstu, þessi sem átti klikkuðu mömmuna).

Sagan gerist á jólunum – sem ég ELSKA – en nú stefnir allt í vitleysu. Á ísskápnum hangir langur listi yfir allt sem þarf að gera og verkstjórinn er enginn annar en PABBI PRÓFESSOR. Það er ekki séns að þetta náist!

Svo er hitt. ALLIR eru allt í einu orðnir skotnir í einhverjum … nema ég. Hver vill líka … Æ, þú veist. Það er samt einn strákur … Þú verður bara að lesa bókina ef þú vilt vita meira.

Kveðja, Stella

Úr Pabba prófessor

„Palli! DRÍFA SIG!“ hrópaði mamma inn á bað.

„Viltu ekki að ég líti vel út fyrir hana?“ spurði Palli pollrólegur án þess að líta af speglinum.

„Ha? Jú, auðvitað,“ sagði mamma og stoppaði í smástund til að dást að syni sínum, elsta barninu, sem var kominn með kærustu. „Vertu bara svolítið fljótur, ha? Svona einu sinni,“ sagði hún elskulega og hélt áfram að taka til.

„Já, ekkert mál,“ svaraði Palli og hrukkaði ennið um leið og hann lagaði eina krulluna á höfðinu á sér. „Og mamma!“ kallaði hann. Mamma sneri við.

„Hvað, elskan?"

„Ekki fara úr að ofan, ókei?“ Þetta var orðið viðkvæðið hjá okkur krökkunum ef einhver kom í heimsókn.

„Neinei, ekki ef þú verður í fötum,“ sagði mamma og brosti. „Drífðu þig svo að taka til inni hjá þér!“ bætti hún við og hélt áfram að æða eins og stormsveipur um íbúðina.

„Já, ég er að koma,“ sagði Palli eins og venjulega.

Þetta fór nákvæmlega eins og ég vissi að þetta myndi fara. Palli var ekki að koma. Hann var hálftíma í viðbót að laga á sér hárið og mamma tók til í herberginu hans. Hún gat ekki beðið eftir honum. Ég skildi ekki hvernig Palli gat þolað pressuna sem mamma setti á hann og svo bara eins og fyrir galdra var mamma búin að taka til fyrir hann. Ég varð að muna þessa tækni.

Pabbi kom heim með matinn og fór beint að elda. Við amma ryksuguðum stofuna og þurrkuðum af. Ég kveikti á fyrsta kertinu á aðventukransinum sem ég hafði búið til í skólanum og á slaginu sjö tók mamma síðustu handklæðin af gólfinu hjá Palla og ætlaði með þau í óhreinatauið.

„ÞETTA ER EKKI JÓLAHREINGERNINGIN EF ÞIÐ HALDIÐ ÞAÐ, KRAKKAR,“ hrópaði hún svo heyrðist um allt húsið, eins og viðvörun um að það væru enn verri tímar fram undan. Þá var dyrabjöllunni hringt.

Palli hljóp til dyra. Við hin hlupum inn í eldhús. Amma sat við eldhúsborðið og Siggi stillti sér upp við hliðina á henni. Ég renndi mér að mínum stað við borðið og var orðin verulega spennt að sjá Bellu. Þó ekki eins spennt og mamma. Hún gat ekki setið á sér og kíkti fram á gang.

Við heyrðum að þau kysstust, töluðu í lágum hljóðum og flissuðu svo.

„Jesús minn, hún er með blátt ... uss, þau eru að koma. Verið bara eðlileg,“ hvíslaði mamma sem hætti að njósna um Palla og Bellu og fór að hræra óeðlilega hratt í sósunni sem pabbi hafði búið til. Þá áttaði hún sig á því að hún hélt enn á handklæðunum sem hún hafði fundið inni hjá Palla og áttu að fara í þvott. Við heyrðum Palla og Bellu nálgast. Mamma greip handklæðin og henti þeim inn í pottaskápinn og skellti hurðinni.

Það passaði akkúrat að mamma reisti sig við þegar Palli birtist í dyragættinni með bros á vör. Svipur hans lýsti samblandi af ótta og stolti. Stressi og ást. Í annarri hendinni hélt hann á einhverju sem var vafið í plastpoka og með hinni hélt hann í eitthvað fyrir utan dyragættina sem kom nú í ljós.

„Já, hérna ... þetta er Bella,“ sagði hann um leið og Bella steig inn í eldhús.

„Hæ!“ sagði hún.

Ég veit ekki við hverju ég bjóst. Kannski svona sæmilega sætri stelpu sem myndi minna mig á mömmu eða mig. Já, ég bjóst einhvern veginn við því að Palli kæmi með stelpu sem passaði inn í fjölskylduna okkar. Stelpu sem væri góðleg til augnanna og jafnvel svolítið gáfuleg. Hress og skemmtileg eins við mamma.

En Bella var ekkert lík mér. Ekki neitt. Hún var ekki í 66° Norður-úlpu eða Cintamani-jakka. Hún var hvorki í leggings né Timberland-skóm.

(21-3)

Fleira eftir sama höfund

Barnaræninginn

Lesa meira

Víti í Vestmanneyjum

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Gula spjaldið í Gautaborg

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira

Goggi og Grjóni

Lesa meira