Beint í efni

Saga eftirlifenda: Heljarþröm

Saga eftirlifenda: Heljarþröm
Höfundur
Emil Hjörvar Petersen
Útgefandi
Nykur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Heljarþröm er önnur bókin í þríleiknum Saga eftirlifenda. 
   
Saga eftirlifenda segir frá ásunum sem lifðu af Ragnarök, baráttu þeirra í heimi sem þeir misstu tökin á, og þróun þess heims sem er fullur af undrum og furðum. Þetta er saga þar sem unnið er með hliðstæður í goðsögum, einnig mannkynssögu, trúarbrögð, þjóðsögur, bókmenntir, tungumálið, samtímann, fjölmenningu og fleira.

úr bókinni

Tröll eru í tryggðum best

Það var skýjað yfir Takram - sem var prýðilegt, það hentaði borginni vel. Sólríku dagarnir birtu alla vankanta hennar, sýndu rykið og skítinn og áréttuðu það að lífið væri torvelt. Sólin var lífgjafi en olli einnig dauða í Eyðilöndunum. Sumar var á næsta leiti. 
   Ef sólarsellur væru ekki svo flóknar í hönnun og dýrar í framleiðslu hefði verið hægt að beisla sólarorkuna á markvissari hátt. Vinhverflarnir voru mun fleiri en sólarsellurnar. Þess vegna fögnuðu borgarbúar skýjuðum og vindsömum dögum, þó að hvini og syngi í borgarveggjunum. Því fleiri vindhviður, því lægra orkuverð.
   Baldur tók niður sólgleraugun og setti þau í innri frakkavasann, skipti þeim út fyrir pakka af smávindlum gerðum úr heimaræktuðu tóbaki úr verslun nokkurri í Gasgötu. Reykingarnar héldu Baldri uppteknum þegar hann gekk um borgina. Þær huldur betur þá staðreynd að hann var aðkomumaður og óvanur borgarlífinu. Hann þurfti engar áhyggjur að hafa af fylgikvillum tóbaksreyksins, hann gerði honum ekki nokkurt mein.
   Baldri var hollast að laga sig að samfélaginu sem fyrst, afla sér þekkingar á menningu ólíkra kynstofna, staðsetningu borgríkja og hættum heimsins. Úr þessu var ekki aftur snúið, hann færi aldrei til baka í tímann aftur. Hann varð að líta fram á við, segja skilið við fortíðina, horfa fram á veginn. Smám saman sætti hann sig við staðreyndirnar og varð með tímanum feginn breytingunum.
 Hann gekk meðfram markaðstorginu, ekki í gegnum það. Torgið var tekið að lifna við þann daginn. Hrópin, köllin, prúttið, fjölbreytnin - hann var farinn að venjast þessu. Hann lagði leið sína framhjá styttunni af Hagla-Naddi og inn breiða götu sem leiddi beint að Turninum. Beggja megin götunnar voru íbúðahverfi þar sem allskonar kynstofnar höfðust við. Baldur hlustaði á menn og vætti hvaðanæva úr heiminum tala saman á sama tungumálinu, ræða um daginn og veginn, rífast við nágranna, skamma börnin sín, raulandi meðan þvottur var hengdur til þerris.
   Turninn, híbýli borgarstjórans og tröllaættbálksins, var heitið yfir framlengdan norðurturn hins forna Kalemegdan-virkis og virkisveggina sem lágu út frá honum. Handan hinna fornu virkisveggja reis hinn hái járnveggur Takrams.
   Dæmigert, hugsaði Baldur þegar hann sá hvernig gamlir steinveggirnir höfðu að hluta verið hlaðnir aftur á grófan máta. Tröll, þau vilja sinn svefnstað kaldan, myrkan og harðan.
   Hann tók eftir því að þrátt fyrir viðgerðir og viðhald voru inngangar fremur illa farnir, enda voru íslensk tröll um þriggja til þriggja og hálfs metra há.
   Leið Baldur lá ekki í Turninn sjálfan, heldur inn í viðbyggingu við hliðina á honum, byggingu sem var ólík flestum öðrum byggingum. Hún var ekki byggð úr járnplötum og viðarflekum, heldur að mestu úr steinsteypuklumpum fengnum úr rústunum. Byggingin var á þremur hæðum, fremur stór að flatarmáli og kallaðir Staurkarlahúsið. Þar fór fram flest það sem mátti kallast skriffinnska borgarinnar, ásamt rannsóknum á orkugjöfum og matarrækt. Starfsemin var skipulögð ringulreið; þetta voru „skrifstofur“ embættismanna og rannsóknarstofur „vísindamanna“ og þeirra sem voru ágætlega að sér í göldrum og öðru af því tagi. Fjölbreytt starfsemi, eilítið laus í reipunum, en nauðsynleg fyrir borgríkið, ómissandi ef viðhalda átti samfélaginu. Þar inni störfuðu meðal annars birgðastjóri, orkustjóri, yfirvarðmaður, umsjónarmaður viðhalds og viðgerða, íbúastjóri og fleira. Þessum embættum sinntu bæði vættir og manneskjur, konur jafnt sem karlar
   Baldur skoðaði tinplötu sem hafði verið negld upp á vegg í anddyrinu. Hann þuldi upphátt með sjálfum sér hin mörgu embættisheiti og nöfn þeirra sem sinntu embættunum. „Hér!“ sagði hann og smellti fingri. „Herra Grani Gómíaló, íbúastjóri. Væntanlega sá sem ég þarf að ræða við.“

(311-313) 

Fleira eftir sama höfund

dauðaleit

Dauðaleit

Unglingsstúlka hverfur í undirgöngunum í Hamraborg í Kópavogi og það er eins og jörðin hafi gleypt hana
Lesa meira
hælið

Hælið

Saga sem fer á flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drepsóttir fortíðar og aftökur í voginum koma við sögu
Lesa meira

Víghólar

Lesa meira

Ætar kökuskreytingar

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Níðhöggur

Lesa meira

Nornasveimur

Lesa meira

Lísítsja

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Höður og Baldur

Lesa meira

Gárungagap

Lesa meira