Beint í efni

Sakramentið

Sakramentið
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Nemandi í Landakotsskóla verður vitni að því þegar séra Ágúst Frans skólastjóri hrapar niður úr turninum á Kristskirkju. Tveimur áratugum síðar vill drengurinn hitta nunnuna sem í aðdraganda þessa atburðar var fengin til að rannsaka framkomu skólastjórans við nemendur.

Kynni hennar af Íslandi og Íslendingum umturnuðu lífi hennar og hún er enn með hugann við snjóinn í kringum svarta kirkjuna og skólahúsið hjá kirkjunni og líkið í snjónum. Sakramentið er stórbrotin skáldsaga um sekt og sakleysi, ást og eftirsjá, yfirhylmingu og leynd, vald – og okkar minnstu bræður.

Úr Sakramentinu

Hún kom í áttina frá kirkjunni, eins og við var að búast, og rogaðist með tvær töskur, aðra sýnilega nokkuð þunga. Ég hálfhljóp á móti henni og hjálpaði henni síðasta spölinn en það var ekki fyrr en við vorum komnar að dyrunum að ég gekk úr skugga um að þetta væri hún.

Halla? Frá Íslandi?

Oui.

Varð ég strax ástfangin af henni? Var ég kannski orðin það áður en hana bar að garði? Það kann að hljóma undarlega, en ég fór að velta því fyrir mér hvort eftirvæntingin hefði verið svo mikil að ég hefði beinlínis verið komin langleiðina með að fella hug til hennar áður en ég leit hana augum. Við lærum að elska frelsarann af tilhugsuninni einni saman, sagði ég við sjálfa mig, enda höfum við ekki við annað að styðjast en þá mynd sem birtist okkur í orðum ritningarinnar og endurlífgast í höfðinu og kallast þar á við það besta í okkur sjálfum. Þetta er myndin af voninni og kærleikanum, umburðarlyndinu og fyrirgefningunni, fegurðinni og hófseminni. Þetta er sú mynd sem við vildum geta brugðið upp af okkur sjálfum.

Þetta sagði ég við sjálfa mig því hún birtist mér eins og gleðin og fegurðin holdi klædd þegar hún rogaðist á móti mér með töskurnar, hálfhlæjandi eins og henni fyndist það skondið að hafa sett of mikið í þær og vera stödd á þessum framandi stað, fljót að þiggja hjálp mína með „ó, takk“ og breiðu brosi sem hefði getað slegið vopnin úr höndum ákafasta bardagamanns. „Ó, takk,“ eins og ég væri að gera henni feikilegan greiða.

Frá þessum fyrstu kynnum áttaði ég mig á því að hún var eins áhyggjulaus og ég gat verið alvarleg, eins léttfætt og ég gat verið þungstíg þegar tilveran vafðist fyrir mér. Hún gerði grín að því hvað hún væri sein að koma fyrir sig orði á frönsku en var strax óhrædd við að láta allt flakka jafnvel þótt hana grunaði að það væri svolítið brenglað. Hún bað mig að leiðrétta sig og hlífa sér hvergi.

Ég skal kenna þér íslensku í staðinn, sagði hún og hló.

Hún tók eftir blómunum þegar við gengum inn í herbergið.

Eru þau frá þér? I alvöru? Og faðmaði mig snöggt að sér en áttaði sig um leið á því að ég hafði látið henni eftir betri hluta herbergisins.

Nei, þú verður að vera þarna megin. Ég kann ekki við annað.

En ég gaf mig ekki og stuttu síðar var hún farin til að kynna sig fyrir umsjónarkonunni. Aður hafði hún samt opnað töskurnar en lokað þeim samstundis aftur og sagt um leið og hún hristi höfuðið: Hvað var ég eiginlega að hugsa? Þetta er alltof mikið dót.

Ég stóð kyrr þegar hún var farin, horfði á blómin á borðinu, handbókina við hliðina á þeim, töskurnar á gólfinu. Stóð kyrr og reyndi að átta mig á hvað hefði átt sér stað. Það var skrítið að þótt ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð fann ég einungis fyrir vellíðan.

(50-2)

Fleira eftir sama höfund

Málverkið

Lesa meira
játning

Játning

Tveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins.
Lesa meira

Markaðstorg guðanna

Lesa meira

Aldingarðurinn

Lesa meira

Retour en Islande

Lesa meira

Sakleysingjarnir

Lesa meira

Minnenas palats

Lesa meira

Una passeggiata nella notte

Lesa meira

Fjögur hjörtu

Lesa meira