Beint í efni

Sem ég lá fyrir dauðanum

Sem ég lá fyrir dauðanum
Höfundur
William Faulkner
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2013
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

As I Lay Dying eftir William Faulkner. Rúnar Helgi íslenskaði og ritar eftirmála.

Addie Bundren liggur fyrir dauðanum í herbergi sínu. Fyrir utan gluggann hamast elsti sonur hennar við að smíða kistu handa henni. Til að hefna sín á manni sínum hefur Addie tekið loforð af honum um að fara með sig til Jefferson, um 40 mílna leið, og jarða sig í fjölskyldugrafreitnum þegar hún gefur upp öndina.

Sem ég lá fyrir dauðanum er saga af örlagaríku ferðalagi fjölskyldunnar um sveitir Mississippi með lík ættmóðurinnar. Fjölskyldumeðlimir og aðrir sem þau mæta á leiðinni skiptast á um að segja söguna. Úr verður skáldsaga sem er afar óvenjuleg að gerð og er í senn harmræn og spaugileg. Hún hefur löngum verið talin með merkustu skáldverkum 20. aldar.

Úr sem ég lá fyrir dauðanum

Darl

Hann heldur í áttina að hesthúsinu, fer um hlaðið, bakið eins og það sé úr tré.

Dewey Dell er með körfuna á öðrum handleggnum, í hinni hendinni er hún með eitthvað ferkantað pakkað inn í dagblað. Það er ró og fálæti í svip hennar, augun íhyglisleg og vökul; í þeim sé ég bakið á Peabody eins og tvær kringlóttar baunir í tveimur fingurbjörgum: kannski voru í bakinu á Peabody tveir þessara orma sem vinna sig hægt og rólega í gegnum mann og út hinum megin svo að maður hrekkur með andfælum upp af svefni eða vöku, spenntur og áhyggjufullur á svip. Hún leggur körfuna á vagngólfið og klifrar upp í, langur fótleggurinn teygist niður undan æ þrengri kjólnum: vogarstöngin sem kemur heiminum á hreyfingu; eitt þessara verkfæra sem mæla lengd og breidd lífsins. Hún sest í sætið við hliðina á Vardaman og geymir böggulinn í kjöltunni.

Hann fer inn í hesthúsið. Hann hefur ekki litið um öxl.

„Það sæmir ekki,“ segir pabbi. „Það er ekki ofverkið hans að gera það fyrir hana.“

„Af stað nú,“ segir Cash. „Hann má vera eftir ef hann vill. Það væsir ekki um hann hér. Kannski fer hann upp eftir til Tulls og verður þar.“

„Hann nær okkur,“ segi ég. „Hann styttir sér leið og hittir okkur við heimreiðina hjá Tull.“

„Hann hefði líka riðið þessum hesti,“ segir pabbi, „ef ég hefði ekki afstýrt því. Þessari doppóttu skepnu sem er villtari en fjalltígur. Vísvitandi lítilsvirðing við hana og mig.“

Vagninn fer af stað; eyrun á múlösnunum fara að tifa. Á bak við okkur, fyrir ofan húsið, hreyfingarlausir í stórum og miklum hringjum, smækka þeir og hverfa.

(95-6)

 

Fleira eftir sama höfund

Griðastaður

Lesa meira

Ljós í ágúst

Lesa meira