Beint í efni

Skáldleg afbrotafræði

Skáldleg afbrotafræði
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Nýjar hugmyndir eru á kreiki í veröldinni og upplýsingarstefnan að ryðja sér til rúms, meira að segja í örsmáu sjávarþorpi á hjara veraldar. Prestar og hreppstjórar ráða enn örlögum smælingja en alþýðan er farin að átta sig á óréttlætinu og það styttist í að hún láti verkin tala. Í Tangavík leggur hópur manna á ráðin um að ræna frá hinum ríku, en fleira ber til tíðinda: sjávarflóð brjóta hús og eyða byggð, afturgöngur ofsækja fólk, ástin á undir högg að sækja en blómstrar samt...

úr bókinni

Næsta morgunn fannst hann dauður í flæðarmálinu þar nálægt sem kallað er Víkurós. Eiríkur var tekinn til kirkju og grafinn. Hvort gröf hans var merkt skiptir ekki máli, en það var hún líklega ekki. Dauður flækingur var bara dauður flækingur. Enginn gat vitað nafn hans nema Sveinn og Guðríður, sveitungar hans að austan, en þau voru einskis spurð, enda vissi enginn um þeirra tengsl nema við sem höldum um þessa sögu.
   Hitt skiptir meira máli að brátt varð ljóst að Eiríkur Traustason lá ekki kyrr heldur flakkaði um Tangavík og sveitirnar. Sáu menn hann hingað og þangað um þorpið, í versluninni og kirkjunni, innanhúss og utan.
   Fyrst hélt hann sig aðallega í Hvammshverfinu en færði sig brátt upp á skaftið og fór út um allt. Hann stal mat og drykk var þjófóttari en verstu þjófarnir á staðnum. Hann stal fyrir framan nefið á fólki og fór létt með það, og var ýmist með hattgarm á höfði eða ekki.
   Hann sást ríða hestum og elta konur. Stundum var hann fótalaus og gat flogið. Suma drap hann eða þeir dóu úr hræðslu. Hann fylgdi fólki, gerði boð á undan því, og var mættur fyrr en það þangað sem það hafði boðað komu sína; og seinna eftir að skólaskylda var tekin upp í Tangavík sat hann stundum í einni af skólastofunum í barnaskólanum og beið þar snemma á morgnana.
   Síðar meir birtist hann líka á ljósmyndum án þess að ljósmyndarar hefðu orðið varir við hann á meðan þeir tóku myndina og enn er hann að skjóta upp kollinum þó að liðin séu meira en tvöhundruð ár.
   Vegna þess hve hatturinn hans var líkur hattinum hans Óla blinda rugluðu menn þeim stundum saman og héldu jafnvel að Óli blindi væri að leika draug og það kom fyrir að ráðist var að Óla og hann barinn af því að menn héldu að hann væri draugur.
   Þá reis Óli upp og hrækti á eftir þeim sem höfðu ráðist á hann og barið og þá vissu menn hver þar var á ferð. Þeir kynntust aftur á móti Eiríkur og Óli og urðu ágætist félagar og það er mikið rétt, þeir áttu eins hatta sem jafnvel var sami hatturinn, því að aldrei sáust þeir þannig að þeir væru báðir með hatt.

(s. 88-89)

Fleira eftir sama höfund

Måske er posten sulten

Lesa meira

Ljóð 1980-1981

Lesa meira

Ljóð 1980-1995

Lesa meira

Reykjavik-trilogien

Lesa meira

Riddarar hringstigans

Lesa meira

Riddarna av runda trappan

Lesa meira

Ridderne av den runde trapp

Lesa meira

Ridderne af den runde trappe

Lesa meira

Róbinson Krúsó snýr aftur

Lesa meira