Beint í efni

Skuggasund

Skuggasund
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Einstæðingur finnst látinn í íbúð sinni í Reykjavík. Á skrifborði hans liggja blaðaúrklippur frá stríðsárunum þar sem sagt er frá óhugnanlegu morði: stúlka fannst kyrkt bak við Þjóðleikhúsið sem var á þeim tíma birgðastöð fyrir herinn. Lögreglumaður kominn á eftirlaun fréttir af málinu og forvitni hans vaknar. Hann hefur áður heyrt um stúlkuna – en hvers vegna skyldi nokkur maður geyma fregnir af dauða hennar?

Úr Skuggasundi:

Fólk hraðaði sér undan næðingnum á leið í bíó eða á kaffihús eða í heimsóknir. Hermenn á jeppum óku eftir Lækjargötu og upp Bankastræti. hann taldi réttast að þau skildu strax. Þau gætu hist aftur eftir nokkra daga þar sem þau hittust venjulega, bak við Dómkirkjuna. Þá ætti þetta allt að vera yfirstaðið. Hann kyssti hana í kveðjuskyni og hún flýtti sér heim í gegnum miðbæinn.

Hún vissi að þau voru að gera rangt með því að hlaupa svona frá stúlkunni en í aðra röndina var henni létt. kannski hafði hann farið skynsamlega að öllu saman. Það hefði ekki verið gaman að skýra það út fyrir lögreglunni eða öðrum hvað hún var að gera með Frank þarna undir veggjum leikhússins, hvaða erindi hún átti með amerískum hermanni í dyraskotið. Ef það bærist svo föður hennar til eyrna myndi hann ganga af göflunum.

Enn var bankað á dyrnar niðri og núna af meiri ákafa. Foreldrar hennar voru gengnir til náða og yngri bræður hennar tveir sofnaðir. Hún gat ekki með nokkru móti fest blund eftir atburði kvöldsins, hafði lætt sér inn og upp í herbergið sitt, háttað ofan í rúm og látið lítið fyrir sér fara. Hún reyndi að lesa ástarsögu en hugur hennar var allur við stúlkuna hjá Þjóðleikhúsinu og Frank.

Skrambans stelpan, hugsaði hún með sér eins og öll hennar vandamál væru aumingja stúlkunni að kenna.

Hún heyrði föður sinn fara á stjá og ofan stigann svo að brakaði í hverju þrepi. Hún lá með eyrað upp að herbergishurðinni til þess að reyna að heyra það sem fram fór. Kannski var það ekki lögreglan. Kannski var það einhver annar.

Það voru tálvonir einar. Hún hrökk í kút þegar hún heyrði föður sinn kalla á sig og hörfaði lengra inn í herbergið.

– Ingiborg! heyrði hún hann hrópa í annað sinn. Og svo það þriðja, og hún heyrði hvernig óþolinmæði hans óx í hvert sinn sem hann kallaði nafn hennar.

Herbergisdyrnar opnuðust og móðir hennar rak inn höfuðið.

– Pabbi þinn er að kalla á þig, barn, sagði hún. Heyrir þú það ekki? Lögreglan vill fá að tala við þig. Hvað hefurðu gert af þér?!

– Ekkert, sagði hún en vissi að hún var ekki sérlega sannfærandi.

– Farðu niður, skipaði móðir hennar. Svona, komdu nú! Óskapalæti eru þetta!

Hún fylgdi móður sinni fram á stigapallinn og niður nokkrar tröppur og sá tvo menn standa ásamt föður hennar í anddyrinu og horfa upp í stigann.

– Þarna ertu þá, sagði faðir hennar og var í nokkru uppnámi. Það eru hérna lögreglumenn …

Hann sneri sér að öðrum manninum.

– Afsakið þér, hvert var nafnið aftur?

– Flóvent, sagði maðurinn. Og þetta er Thorson, sagði hann og benti á manninn sem var með honum. Hann er á vegum lögregludeildar ameríska hersins, skráður í kanadíska herinn. Talar íslensku betur en ég.

– Vestur-Íslendingur, sagði Thorson, eins og til skýringar. Frá Manitóba.

(22-3)

Fleira eftir sama höfund

Vinterstaden

Lesa meira

Silence of the Grave (hljóðbók)

Lesa meira

Einvígið

Lesa meira

Frostnacht

Lesa meira

La voix

Lesa meira

Mocvara

Lesa meira

Smrtící intriky

Lesa meira

Voices (með stóru letri)

Lesa meira

Einvígið

Lesa meira