Beint í efni

Sláttur

Sláttur
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

 

um bókina

Edda er tuttugu og fjögurra ára Reykvíkingur sem fór í hjartaskipti fyrir fimm árum. Hún reynir að hugsa sem minnst um framtíðina því tölfræðin sýnir að hjartaþegar lifa ekki alltaf lengi. En hún er forvitin um fyrri eiganda hjartans og sannfærð um að ýmislegt hafi fylgt því. Stundum veit hún jafnvel ekki hvað tilheyrir henni sjálfri og hvað hún fékk með hjartanu.

úr bókinni

"Er eitthvað sérstakt sem þig langar til að tala um núna?"

Edda andvarpaði og þóttist hugsa sig um.

"Pólitík? Leiklist? Miðborgarskipulag?" sagði hún með uppgerðaráhuga. 

Sálfræðingurinn haggaðist ekki. Eddu fannst ótrúlegt hvað konan var ónæm fyrir dónaskap og skætingi. 

"Hvernig sefurðu?"

"Á hægri hliðinni."

Sálfræðingurinn brá ekki svip og endurtók spurninguna eins og Edda hefði ekki heyrt í henni í fyrsta skiptið.

"Hvernig sefurðu?"

"Ágætlega," svaraði Edda niðurlút.

Yfirvegun sálfræðingsins virkaði annars prýðilega. Einhvern veginn tókst henni alltaf að gera lítið úr útúrsnúningi Eddu og snúa vopnin úr höndunum á henni. Þá varð hún pirruð, og þegar Edda varð pirruð átti hún það til að vera með dónaskap. En bara við mömmu sína og sálfræðinginn. Það var skrýtið. Edda leit ekki á sig sem dónalega manneskju. Yfirleitt var hún ljúf sem lamb og reif aldrei kjaft við neinn. Nema mömmu sína, sem hafði lag á því að hitta á tóntegund sem skar í eyrun á henni og hrukka ennið svo yfirlætislega að Eddu langaði til að öskra við það eitt að horfa á hana. Svo fylltust augu hennar af ást og Edda varð enn þá reiðari. Hún þoldi ekki þessa ást. Hún var seigfljótandi, alltumlykjandi, kæfandi og klístrug. Skilyrðislaus.

Þegar ástin kom í augun á mömmu hennar langaði Eddu alltaf að hlaupa eitthvað langt út í buskann.

Hún gat orðið jafn brjáluð við sálfræðinginn En það var engin ást í augunum á henni.

"Af hverju verð ég alltaf svona reið við þig?" spurði Edda.

"Verður þú reið við mig?"

"Já."
"Hvers vegna?"

Edda yppti öxlum.

"Ég veit það ekki. Ég verð bara brjáluð um leið og þú byrjar að spyrja mig spurninga."

"Af hverju hedurðu að það sé?"

Edda fann pirringinn krauma í maganum. Hún dró djúpt andann. Hún ætlaði ekki að áta hann ná yfirhöndinni núna.

"Ég var að vonast til að þú gætir sagt mér það. Þú ert nú einu sinni sálfræðingurinn minn."

"Ég get ekki sagt þér svörin, Edda. En ég get kannski hjálpað þér að finna þau. Af hverju heldurðu að ég fari í taugarnar á þér?"

"Kannski af því þú spyrð mig alltaf leiðinlegra spurninga."

Sálfræðingurinn kinkaði kolli.

"Það er ekki mitt starf að vera skemmtileg."

"Þér ferst það vel úr hendi."

Sálfræðingurinn leit beint á hana. Einhverju brá fyrir í augum hennar, leiftursnöggt. Svo leit hún aftur niður á blokkina og krotaði eitthvað.

"Hvernig sefurðu?" spurði sálfræðingurinn í þriðja skiptið.

Edda yppti öxlum.

Í sannleika sagt hafði hún ekki sofið mjög vel. Ekki síðan hún sá manninn. Henni fannst vandræðalegt að hugsa um hann sem fallegasta mann sem hún hafði séð, en þannig var það bara. Hana hafði fyrst dreymt hann á hverri nóttu en aldrei sama drauminn, Í fyrsta draumum voru þau saman á strönd. Svo drukku þau kaffi. Fóru í göngutúr. Keyptu saman í matinn. Þau lágu þétt saman, með fingurna fléttaða og hún fann andardrátt hans á hnakkanum, reglubundinn, svo hún viss að hann svaf.

"Ég for til miðils," sagði Edda til að segja eitthvað.

"Ha?" sagði sálfræðingurinn hissa.

Edda brosti. Hafði henni virkilega tekist að koma henni á óvart?

(s. 73-75)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Vetrarfrí

Lesa meira

Doddi: bók sannleikans!

Lesa meira

Doddi: ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Ljónið

Lesa meira

Hingað og ekki lengra!

Lesa meira

Spádómurinn

Lesa meira