Beint í efni

Söngur steinasafnarans

Söngur steinasafnarans
Höfundur
Sjón
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ljóð


Úr Söng steinasafnarans:

það sem stúlkurnar geyma

í erindisleysu karlsins upp á þurrkloftið
urðu fyrir honum þrjár konur sem allar
sýsluðu með svart efni: tré, garn, járn.
ég ætlaði ekki að trufla, muldraði hann
og hörfaði afsakandi út á stigapallinn.
en áður en hann náði að láta sig hverfa
lögðu þær í lófa hans sjóslípað fjörugrjót,
svonefndan mjúkan stein, og sögðu einróma:
með þessum má skyggnast í stúlkuhugann.
steininn bar hann á sér alla tíð síðan.
á ferðalögum tók hann fram gripinn og
andaði á hann, pússaði með jakkaerminni,
starði sem fastast í gljáandi yfirborðið.
í vinnunni brá hann sér afsíðis með hann
og andaði á hann, pússaði á skyrtuerminni,
starði sem fastast í gljáandi yfirborðið.
það var allt, dýpra náði sjón hans ekki.
þegar hann kom í leitirnar, hálfur ofan
í læk skammt frá vegasjoppunni þar sem
síðast sást til hans á lífi, hafði vatnið
skolað holdinu burt af höfðinu svo skelin
hló hvítþvegin við nýkviknaðri vorsólinni.
er þeir lyftu líki karlsins upp á börurnar
höfðu sjúkraflutningamennirnir á því orð
hversu glamraði í augnlausum hausnum.
við krufningu fannst steinninn mjúki
inni í höfuðkúpunni. hvernig hann komst
þangað skildi réttarlæknirinn aldrei.
hvergi sáust þess merki að honum hefði
verið opnuð leið í gegnum beinskálina.
steininn geymir hún á vinnuborði sínu
sjálfri sér til áminningar um að lengi
enn mun margt verða vísindunum hulið.
nú hvílir karl í biksvartri eikarkistu,
í ökklasíðum kyrtli með svörtum blúndum,
undir hjartalaga blómi úr svörtu járni.
þess mun skammt að bíða að þrjár konur
vitji kirkjugarðsins og hafi á brott með
sér fullskapað listaverk sitt ...

(s. 12-14)

Fleira eftir sama höfund

Poesia 136

Lesa meira

De tes yeux tu me vis

Lesa meira

Ljóð í Poésie islandaise contemporaine

Lesa meira

Tusmørkeundere

Lesa meira

A macskaróka

Lesa meira

Mánasteinn: drengurinn sem aldrei var til

Lesa meira

Das Gleißen der Nacht

Lesa meira