Beint í efni

Stelpur sem ljúga

Stelpur sem ljúga
Höfundur
Eva Björg Ægisdóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Einstæð móðir hverfur af heimili sínu en skilur eftir miða með skilaboðum á eldhúsborðinu. Í fyrstu er talið að hún hafi fyrirfarið sér en þegar illa farið lík finnst í Grábrókarhrauni sjö mánuðum síðar standa lögreglukonan Elma og samstarfsmenn hennar frammi fyrir flókinni morðgátu. Fimmtán árum fyrr liggur nýbökuð móðir á fæðingardeild og hefur óbeit á barninu sem liggur við hlið hennar.

Stelpur sem ljúga er spennusaga um það hvernig brotin æska og áföll geta leitt til skelfilegra atburða síðar á lífsleiðinni.

Úr bókinni

Mál Maríönnu Þórsdóttur var Elmu enn í fersku minni. Það var sjaldgæft að ungar konur hyrfu á Íslandi og málið vakti mikla fjölmiðlaathygli á sínum tíma. Því var það líklega rétt sem Hörður sagði - nú þegar ljóst var að Maríanna hefði verið myrt yrði fjölmiðlafárið enn verra.
   Rannsóknin um vorið leiddi fljótlega í ljós að Maríanna átti langa sögu um geðræna erfiðleika. Hún var á þunglyndislyfjum og hafði nokkrum sinnum sokkið í neyslu á áfengi og fíkniefnum. Skilaboðin sem biðu dóttur hennar eftir skóla voru skrifuð aftan á gluggapóst og lágu á eldhúsborðinu ásamt krumpuðum fimmþúsundkalli. Fyrirgefðu. Ég elska þig, mamma.
   Það var ólíkt Maríönnu að skilja eftir svona skilaboð en Hekla velti því lítið fyrir sér. Hún pantaði pítsu fyrir peninginn og sofnaði fyrir miðnætti án þess að pæla í því hvers vegna mamma hennar var ekki komin heim. Vissi að Maríanna átti stefnumót um kvöldið. Það var ekki fyrr en langt var liðið á næsta dag að Hekla varð áhyggjufull. Hún reyndi að hringja en það var slökkt á símanum. Þegar tók að kvölda hringdi Hekla í Sæunni sem sótti hana og gerði lögreglunni viðvart.
   Þegar lögreglan fór að skoða málið kom í ljós að Maríanna mætti aldrei á stefnumótið. Þá fyrst fór alvara að færast í málið. Hún hafði þá verið týnd í meira en sólarhring. Maðurinn sem hún ætlaði að hitta hét Hafþór og vann á vöktum í járnblendinu við Grundartanga eins og svo margir sem bjuggu í nágrenni þess. Það var ekkert sem tengdi hann við hvarfið, þau voru nýlega byrjuð að hittast og þekktust lítið. Hann virtist nokkuð svekktur yfir því að hún lét ekki sjá sig. Hringdi margoft áður en hann gafst upp. Símagögn staðfestu það.
   Maríanna átti fyrrverandi kærasta, reyndar nokkra, en það voru allt sambönd sem höfðu varað stutt. Þau köfuðu ekki djúpt ofan í fortíð hennar, enda var hún ekki í neinu sambandi við gömlu kærastana þegar þarna var komið. Eini fjölskyldumeðlimur Maríönnu á lífi var faðir hennar sem bjó í Reykjavík. Hekla hitti hann síðast þegar amma hennar var enn á lífi. Móðir Maríönnu lést þegar Hekla var tíu ára. Bróðir Maríönnu lést þegar Maríanna var ófrísk að Heklu. Fyrirfór sér tuttugu og fimm ára gamall.
   Eftir að hafa fínkempt Akranes og nágrenni í leit að Maríönnu fannst bíllinn hennar á Bifröst. Gamall og ryðgaður Golf. Það kom þeim verulega á óvart því þau höfðu rakið slóð símans upp á Akranes og leitin öll tekið mið af því. Gögnin sýndu að síminn varð ekki batteríslaus heldur var slökkt á honum handvirkt. Slökkti Maríanna sjálf á símanum eða hafði einhver annar gert það fyrir hana? Þau giskuðu á fyrri valkostinn.

(s. 62-64)

 

 

Fleira eftir sama höfund

heim fyrir myrkur kápa

Heim fyrir myrkur

Hin 14 ára Marsí skrifast á við strák sem býr hinum megin á landinu. En hún gerir það í nafni systur sinnar. Bréfaskiptunum lýkur með því að þau ákveða að hittast. Marsí kemst ekki til að hitta hann en þar sem þau höfðu mælt sér mót finnst blóðug úlpa systur hennar sem er horfin. Tíu árum síðar hefur þessi óþekkti pennavinur samband á ný.. .  
Lesa meira

Þú sérð mig ekki

Snæbergsfjölskyldan er efnamikil, voldug og virt í samfélaginu. Allt virðist leika í lyndi, en þegar stórfjölskyldan sameinast í tilefni af afmæli ættföðurins á nýju hóteli á Snæfellsnesi koma brestir í ljós. Rifið er ofan af gömlum sárum og leyndarmál fortíðarinnar leita upp á yfirborðið. Á meðan veisluhöldin standa sem hæst versnar veðrið og í gegnum hríðina heyrast skelfileg öskur. 
Lesa meira
strákar sem meiða kápa

Strákar sem meiða

Neðst var gormabók sem hlaut líka að hafa verið í eigu Mána. Hún var dökkblá og græn og á forsíðunni var mynd af trúði. Þetta var ekki skólabók. Þegar Sævar opnaði bókina sá hann að á fyrstu síðuna hafði verið skrifað stórum stöfum: Vatnaskógur. Máni reyndist ekki bara vera góður námsmaður, heldur var skriftin líka falleg og fullorðinsleg. Ártal og dagsetning hafði verið skrifað þar fyrir neðan, 8. ágúst 1995. Sævar fletti yfir á næstu síðu og las: Ég á örugglega ekkert eftir að skrifa mikið í þessa bók.
Lesa meira

Marrið í stiganum

Dagurinn hafði verið langur. Eftir líkfundinn kvöldið áður höfðu þau mætt snemma til vinnu þrátt fyrir að hafa unnið frameftir. Það var ekki oft sem lík fundust á Íslandi við grunsamlegar kringumstæður, hvað þá á Akranesi.
Lesa meira
night shadows kápa

Night Shadows

The small community of Akranes is devastated when a young man dies in a mysterious house fire, and when Detective Elma and her colleagues from West Iceland CID discover the fire was arson, they become embroiled in an increasingly perplexing case involving multiple suspects. What’s more, the dead man’s final online search raises fears that they could be investigating not one murder, but two.. .  
Lesa meira
boys who hurt kápa

Boys Who Hurt

Fresh from maternity leave, Detective Elma finds herself confronted with a complex case, when a man is found murdered in a holiday cottage in the depths of the Icelandic countryside – the victim of a frenzied knife attack, with a shocking message scrawled on the wall above him.. . At home with their baby daughter, Sævar is finding it hard to let go of work, until the chance discovery in a discarded box provides him with a distraction. Could the diary of a young boy, detailing the events of a long-ago summer have a bearing on Elma’s case?
Lesa meira
you can't see me kápa

You Can't See Me

The wealthy, powerful Snæberg clan has gathered for a family reunion at a futuristic hotel set amongst the dark lava flows of Iceland's remote Snæfellsnes peninsula.. . As the weather deteriorates and the alcohol flows, one of the guests disappears, and it becomes clear that there is a prowler lurking in the dark.. . But is the real danger inside … within the family itself?
Lesa meira
girls who lie kápa

Girls Who Lie

When single mother Maríanna disappears from her home, leaving an apologetic note on the kitchen table, everyone assumes that she’s taken her own life … until her body is found on the Grábrók lava fields seven months later, clearly the victim of murder. Her neglected fifteen-year-old daughter Hekla has been placed in foster care, but is her perfect new life hiding something sinister?. .  
Lesa meira
næturskuggar kápa

Næturskuggar

Logarnir höfðu farið illa með líkama unga mannsins og lyktin af brenndu holdi loddi enn við hann. Flíkurnar voru ennþá límdar við handleggina og fæturna og hárið hafði sviðnað af.
Lesa meira