Beint í efni

Svefnhjólið

Svefnhjólið
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1990
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Svefnhjólið er önnur skáldsaga Gyrðis Elíassonar, og líkt og Gangandi íkorni var einskonar fantasía, er Svefnhjólið einskonar draugasaga. Ungur maður flytur með lúna ferðatösku og ritvél inn í gamalt sumarhús í litlu þorpi. Fljótlega fara undarlegir atburðir að gerast, hann dreymir furðulega, sér sæskrímsli og er ítrekað álitinn draugur, afturgenginn, eða jafnvel skyldur gömlum draugum. Sjálft svefnhjólið er mótorhjól sem hann ferðast um nágrennið á, en stundum ferðast hann án þess, því hann á það til að sofna á einum stað og vakna annarsstaðar. Í ljós kemur að ekki er allt sem sýnist.

Úr Svefnhjólinu:

Ég sofna í baðinu um kvöldið. Áður en ég dett útaf heyri ég lágan yminn frá steinolíuofninum gegnum þunnt þilið.
Hitakúturinn stendur við enda baðkarsins, stór og hvítur einsog olíutankur, og ég er alltaf hálfsmeykur um að hann kunni að springa í loft upp. Baðvatnið sæmilega heitt og ég læt mig síga uns höfuðið eitt er upp úr vatninu. Hugsa til sæskrímslisins sem kom á gluggann, nú syndir það í djúpum sjó, myrkum, kemur svo upp á yfirborðið, stefnir hægt og þyngslalega til lands, lætur sorgmædd augun mara í vatnsskorpunni; sér hvernig fjöllin halda áfram niður í hafdýpið. Síðan silast það á þurrt, hristir sig svo skröltir í skeljum á baki þess. Lötrar til húskofans bláa. Ég lygni aftur augunum og fer með skemmtilega rangt kveðna vísu í lágum hljóðum undir svefninn, fyllist höfugri notakennd:

köttur útí mýri
kyssti dauðan hund
setti upp á sig stýri
og fór á læonsfund

Með það sofna ég, og dreymir þennan mikla olíutank við kaupfélagið, hann horfir til fjalla af sínum græna hól, og kona í grænum kjól opnar dyr á tanknum einsog hann væri viti og gengur inn, og ég veit í draumnum að hún hlýtur að fljóta í dökkri seigri olíunni upp undir lúguna sem er efst á tanknum; hvernig sem henni tókst að opna þessar dyr án þess að flæddi út á grasið.
Skömmu síðar mjakast líkfylgd upp á hólinn. Burðarmenn með kistu sem sveipuð er segldúk og vatn seytlar úr gisnum botni kistunnar. Í kjölfarið kemur lítill hópur fólks, og aftastur fer presturinn í svörtu jakkafötunum sínum, hann er berfættur og glaðbeittur á svip og spilar framandi lag á munnhörpu.

(s. 31-33)

Fleira eftir sama höfund

Die Hunde

Lesa meira

Antennen

Lesa meira

Die Sommerferien

Lesa meira

Ein Holzfisch

Lesa meira

Ein Flügelmensch

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Inferno

Lesa meira

Gula húsið

Lesa meira