Beint í efni

Það sem við tölum um þegar við tölum um ást

Það sem við tölum um þegar við tölum um ást
Höfundur
Óskar Árni Óskarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Íslenskar þýðingar


Smásagnasafnið What We Talk About When We Talk About Love eftir Raymond Carver (1974) í íslenskri þýðingu Óskars Árna Óskarssonar.



Úr bókinni:



Ég gat séð smæstu hluti



Ég var háttuð þegar ég heyrði í hliðinu. Ég hlustaði. Það heyrðist ekkert annað hljóð. En ég heyrði það. Ég reyndi að vekja Cliff. hann var steinrotaður. Svo ég fór fram úr og gekk að glugganum. Stórt tungl skein yfir fjöllunum umhverfis borgina. Hvítt tunglið var alsett örum. Hvaða vitleysingur sem var hefði getað séð úr því andlit.



Birtan var það mikil að ég gat séð allan garðinn mjög greinilega – sólstólana, pílviðinn, þvottasnúrurnar strengdar milli stauranna, hengiplöntur, grindverkið, galopið hliðið.



En það var enginn þarna. Engir ógnandi skuggar. Allt var baðað í tunglsljósi og ég gat séð smæstu hluti. Þvottaklemmurnar á snúrunum, til að mynda.



Ég lagði aðra höndina á rúðuna svo tunglið truflaði mig ekki. Ég rýndi út um gluggann. Ég hlustaði. Síðan fór ég aftur í rúmið.



En ég gat ekki sofnað. Ég var stöðugt að bylta mér. Ég hugsaði um opið hliðið. Það var eins og ögrun.



Það var ömurlegt að hlusta á andardrátt Cliffs. hann var með munninn galopinn og með handleggina krosslagða yfir fölan brjóstkassann. hann tók allt rúmplássið sín megin og stóran hluta af mínu.



Ég ýtti margoft við honum. En það rumdi bara í honum.



Ég lá kyrr dálítið lengur og sá svo að þetta þýddi ekkert. Ég fór fram úr og í inniskóna. Ég fór inní eldhús og hitaði mér te og settist með bollann við eldhúsborðið. Ég reykti eina af filterslausu sígarettunum hans Cliffs.



Það var mjög framorðið. Ég vildi ekki vita hvað klukkan var. Ég drakk teið og reykti aðra sígarettu. Eftir smástund ákvað ég að fara út og loka hliðinu.



Þess vegna fór ég í náttsloppinn.



Tunglsljósið lýsti allt upp – húsin og trén, rafmagnsstaurana og rafmagnslínurnar, allan heiminn. Ég skimaði um bakgarðinn áður en ég steig niður af veröndinni. Smávindgustur varð til þess að ég hneppti að mér sloppnum.



Það heyrðist eitthvert þrusk frá grindverkunum sem aðskildu lóðir okkar Sams Lawton. Ég gáði vel í kringum mig. Sam hallaði sér fram á grindverkið sitt, því það voru tvö grindverk sem aðskildu lóðirnar. Hann lagði lófann fyrir munninn og hóstaði þurrum hósta.



„Kvöldið, Nancy,“ sagði Sam Lawton.



„Sam, þú gerðir mig hrædda,“ sagði ég. „Af hverju ertu á fótum? Heyrðirðu eitthvað?“ sagði ég. „Ég heyrði hliðið mitt opnast.“



„Ég heyrði ekkert,“ sagði hann. „Og sá heldur ekkert. Kannske hefur það verið vindurinn.“



Hann var að tyggja eitthvað. Hann horfði á opið hliðið og yppti öxlum.



Úfið hár hans var silfursprengt í tunglsljósinu. Ég horfði á langt nefið og hrukkurnar í stóru, raunamæddu andlitinu.



Ég sagði: „Hvað ertu að gera á fótum, Sam?“ og færði mig nær grindverkinu.



„Á ég að sýna þér dálítið?“ sagði hann.



„Ég kem yfir til þín,“ sagði ég.



Ég fór út á gangstéttina. Það var einkennileg tilfinning að ganga úti við á náttsloppnum. Ég hugsaði með mér að ég ætti að leggja þetta á minnið, að ganga svona úti við á náttsloppnum.



Sam stóð upp við húsið sitt, í hvítum og ljósbrúnum skóm, í alltof stuttum náttbuxum. Hann hélt á vasaljósi í annarri hendinni og dós með einhverju í hinni.



(33-5)


Fleira eftir sama höfund

Poesia e spiritualità. Anno II n. 4

Lesa meira

Ljóð í Neue Lyrik aus Island

Lesa meira

Kuðungasafnið

Lesa meira

Das Glitzern der Heringsschuppe in der Stirnlocke. Ein isländisches Familienporträt.

Lesa meira

Einnar stjörnu nótt

Lesa meira

Nokkrar línur um ljóðlist

Lesa meira

Kæra Greta Garbo og aðrar sögur

Lesa meira

Kötturinn og kölski

Lesa meira

Lakkrísgerðin

Lesa meira