Beint í efni

Þar lágu Danir í því

Þar lágu Danir í því
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Barnabækur

Úr Þar lágu Danir í því:

Lögreglumaðurinn er ekki glaður að sjá.  Hann horfir á mig undan ygglibrún og minnir mig á ömmu þegar Nostri litli bróðir minn hélt að súputarínan úr fína mávastellinu hennar væri koppur og kúkaði í hana.  Eftir það hefur amma aldrei boðið gestum upp á súpu.  Hún segir að bróðir minn sé eins og snýttur út úr nösunum á henni mömmu og því sé varla von að hann sjái mun á mávastelli og koppi.  Stellið er sko svo fínt að drottningin í Danmörku borðar ef eins diskum.  Danadrottning er í sérstöku uppáhaldi hjá ömmu og er að auki ástæðan fyrir því að ég sit hér nú í vörslu lögreglunnar.  Það væri svo sem í lagi ef amma hefði ekki líka verið handtekin ásamt mömmu, pabba, Bjössa, Nostra, Svenna unglingi, Palla vini mínum og pabba hans.  Úff, en það klúður.
„Ehemm.“  Lögreglumaðurinn ræskir sig til að vekja aftur athygli mína á sér og ygglibrúninni.  Ég skil vel að sá sem hefur haft fyrir því  að setja upp svona agalega ygglibrún vilji að horft sé á sig.  Ég lít á hann og reyni að framkalla svip sem lýsir virðingu fyrir ygglibrúnum og lögreglumönnum í senn.  Það hefur engin áhrif.  Ygglibrúnin ygglibrúnast bara meir.  Ég iða i stólnum og reyni eftir bestu getu að koma orðum að því sem ég ætla að segja.
„Ég get útskýrt þetta allt saman,“ tauta ég eins og bófarnir í bíómyndunum.  „Þetta er einn allsherjar miskilningur.“
„Hvernig væri þá að gera það,“ segir lögreglumaðurinn.  Hann getur hreyft varirnar án þess að ygglibrúnin haggist.  Amma getur það ekki.  Hennar ygglibrún hvarf tímabundið meðan hún mótmælti því að fína perluveskið skyldi tekið af henni áður en hún var sett í fangaklefann.  Hún notar það bara þegar eitthvað virkilega fínt stendur til og situr nú örugglega í klefanum viss um að einhver sé að stela veskinu eða eiga við perlurnar, sem alls ekki má.  Þær geta nefnilega losnað af.  Úff, púff og aftur úff.  Amma í fangaklefa.  Það er eins gott að snúa sér að því að útskýra málið svo að hún fái að fara heim.
Áður en ég fæ tækifæri til þess að byrja rýfur lögreglumaðurinn þögnina.  „Segðu mér eitt stelpa, svona áður en við byrjum formlega á þessari yfirheyrslu.  Hvernig stóð á því að móðir þín reyndi svona ákaft að komast hjá því að vera færð upp á stöð í lögreglubíl?  Er hún svona gasalega bílhrædd eða hvað?  Ég man bara ekki eftir öðru eins.“
Það er varla von, hugsa ég.  Mamma hafði skorðað sig með höndum og fótum í afturdyrum stóra lögreglubílsins, öskrandi og æpandi eitthvað um valfrelsi einstaklingsins og lögregluríki.  Að lokum tókst þremur fílefldum löggum að ýta henni inn.
„Já það er ástæða fyrir því hvernig hún lét,“ segi ég.  „Sko nóttina sem...“
(s. 7-9)

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira