Beint í efni

Þrír sneru aftur

Þrír sneru aftur
Höfundur
Guðbergur Bergsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Á einangraðan stað suður með sjó, þar sem aldrei gerist neitt, berast fregnir af átökum heimsstyrjaldarinnar. Fyrr en varir hefur atburðarásin teygt anga sína þangað og nútíminn heldur innreið sína með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Höfundur dregur upp hárbeitta mynd af samfélagi á tímamótum; af eilífri baráttu manneskjunnar fyrir tilveru sinni, glímunni við fáfræði og fásinni, sannleika og lygi, heimsku og græðgi.

Og sagan endurtekur sig stöðugt við nýjar og breyttar aðstæður, kynslóðir koma og fara … en ættarfylgjan lætur ekki að sér hæða, enginn flýr frá sjálfum sér.

Úr bókinni:

Og kunnið þið íslensku eða hvaða mál er ég að tala, varla útlensku? spurði gamla konan ringluð á leiðinni inn með mennina. Stúlkurnar fylgdu á eftir en sonurinn sneri sér undan og fór að vinna við heyið.

Við lásum norræn fræði við háskólann, sagði sá hæfari. Íslenska er kennd þar í tengslum við enskuna.

Eitthvað sérstakt var við mennina, hina ljúfu framkomu og smekklega og létta klæðaburðinn sem bar með sér að þarna væru ekki venjulegir menn á ferð. Hvít skyrtan, opin í hálsinn og með breiðan kraga sem brettist út á herðarnar, vakti mesta athygli fólksins.

Sumarið hefur verið óvenjumilt og sólríkt, sagði gamla konan og gætti að búnaði mannanna í laumi áður en hún bauð þeim eitthvað í svanginn.

Þegar komið var í norðurherbergið með stóru borði, klæddu slitnum vaxdúk og stólar í kring, lá húsbóndinn þar á dívaninum og horfði umlandi á gestina. Sá hávaxni tyllti sér við fótagaflinn og rakti ferðina og tilganginn með henni.

Okkur í Oxford hafði alltaf langað til Íslands, að sjá hraun og heiðar sem eru eyðilegri á annan hátt en þær ensku, sagði maðurinn og hinn bætti við að þeir væru heillaðir af heiðum og hrifnir af sögum sem gerðust þar, og þeim þætti heiðarbýli og líf fólksins vera eftirsóknarvert vegna frelsisins og tengsla við óbrotna náttúru, en einkum þætti þeim gaman að sjá hvernig hægt væri að lifa einungis á gæðum landsins og líta fram hjá iðnaði og framleiðsludrasli sem gerði alla að sjálfskipuðum þrælum.

Gamli maðurinn skildi ekki vel tal mannsins og innihaldið en varð ánægður yfir hvernig hann hrósaði landinu og hvað báðir voru innilega glaðir og ánægðir með matinn, soðna saltfiskinn og kartöflurnar með hamsatólginni.

Við komu mannanna í norðurherbergið tóku stúlkurnar skyndilega eftir því hvað þarna inni var drungalegt. Allir á bænum, ekki síst þær sjálfar, urðu durgslegir miðað við útlit, framkomu og klæðaburð þeirra, svo þær flýttu sér úr peysunum sem þær höfðu sjálfar prjónað. Vegna samanburðarins sáu þær öll óhreinindin, dimmuna í herberginu og þær fundu raka húskuldann og vonda gólfkuldann þótt hlýtt væri úti í sólskininu. Þá hugsuðu þær með sér að þegar mennirnir færu út eftir matinn og tækju með sér birtuna sem fylgdi þeim, þá ætluðu þær að flýta sér að sandskúra trégólfin, opna glugga og dyr og hleypa rækilega út loftinu og lyktinni af gamla manninum sem missti frá sér vatn. En öðru fremur langaði þær að strjúka saggann af veggjunum.

(21-2)

Fleira eftir sama höfund

Sæmundur fróði hinn nýji reiðir selinn til höggs gegn bókinni

Lesa meira

Sæta liðið sýnir stjórnmálaandlit sitt

Lesa meira

Vorhænan og aðrar sögur

Lesa meira

Skáldsagnahöfundurinn og textinn : óttinn við textann

Lesa meira

Tíminn í listaverkinu

Lesa meira

Endurtekin orð

Lesa meira

Ævinlega

Lesa meira

Latneskur andi

Lesa meira

Das Herz lebt noch in seiner Höhle

Lesa meira