Beint í efni

Tilfinningabyltingin

Tilfinningabyltingin
Höfundur
Auður Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í átján ár voru þau hjón – hún og hann. Svo skildu leiðir og tilfinningabyltingin tók öll völd. En hvenær hófst sú atburðarás? Hér beitir Auður Jónsdóttir aðferðum skáldskaparins til að segja sögu sem er í senn einstök og algild.

Frásögnin spannar fyrsta árið eftir að söguhetjan gengur út úr hjónabandi sínu á nýjum, rauðum strigaskóm – en fjallar ekki síður um árin þar á undan, jafnvel alla ævi parsins og fólksins sem að því stendur. Um leið er þetta saga af einhleypum manneskjum á miðjum aldri að fikra sig áfram í upplausn, eins smeykar við nánd og þær þrá hana.

Bækur Auðar Jónsdóttur hafa vakið athygli heima og erlendis fyrir blöndu af nístandi einlægni og húmor. 

Úr Tilfinningabyltingunni

Þegar nýja íbúðin var loksins tilbúin flugu þau frá Berlín í sumarfrí til Íslands, ennþá með lyktina af Ameríku í fötunum. Þau höfðu skipt á húsnæði við fjölskyldu í Reykjavík en hún eirði ekki inni í íbúðinni. Hún þurfti stöðugt að fara eitthvað. Ef hún átti ekki erindi gekk hún niður að sjávarsíðunni og labbaði beint af augum, með heyrnartól á eyrunum. Hún gat ekki hætt að ganga, ef hún gengi nógu hratt tækist henni kannski að ganga út úr sjálfri sér.
  Þau höfðu svo oft arkað út í bláinn saman. Í upphafi sambandsins höfðu þau búið í Kaupmannahöfn þar sem þau vöndust á að nota hverja dauða stund til að labba eða hjóla um borgina, sama áttu þau eftir að gera í Barcelona og Berlín. Stöðugt að ráfa stefnulaust út í bláinn. Síkjaftandi og oft héldust þau í hendur. En ekki síðustu árin. Þau kjöftuðu, jú, en leiddust ekki lengur.
  Á átján árum höfðu þau runnið saman í eitt, stutt og skapað hvort annað í sinni mynd, hvorugt þeirra væri eins og það var í dag án hins. Hún lærði tungumál og tileinkaði sér að lesa fjölmiðla á framandi tungum, hann fór að skrifa og gefa út bækur; hún lærði að meta falafel og kebab hjá kjaftaglöðum Pakistönum eða Tyrkjum, hann að halda upp á afmælið sitt og tilheyra veröld þar sem einhver keypti freyðivín með morgunkaffinu og setti kerti í croissant í tilefni þess.
  Þau höfðu búið árum saman ein í útlöndum, einyrkjar að vinna heima, alltaf tvö saman. Elskendur, systkini, vinir, starfsfélagar, foreldrar. En hvað svo? Hvað var hvort um sig án hins? Þau höfðu aldrei hugsað þá hugsun til enda. En sjálfin brutust um eins og tveir innikróaðir kettir, mitt í öllum ljúfa hversdeginum. Ilmi af spagettísósu. Kaffi að krauma. Hafragraut með kanil. Þau á náttfötunum með stírurnar í augunum að hlusta á fréttirnar í útvarpinu. Þau að skrifa með höfuðið ofan í hvors annars handriti. Sækja barnið á leikskólann. Rölta út að fá sér víetnamska núðlusúpu í hádeginu. Í sólbaði í almenningsgarði. Saman úti að hjóla eða að drepa tímann með förukaffi á leikvelli. Allt þetta venjulega og yndislega. Þau.
  Umfram allt félagar.
  Gat hún þrifist án félaga síns?
  Henni skildist að hún þyrfti að skilja en tilhugsunin var óraunveruleg. Hún kunni ekki að vera fullorðin án þess að eiga félaga.

(22-23)

 

 

 

Fleira eftir sama höfund

Daarginds

Lesa meira

Folket i kjällaren

Lesa meira

Ósjálfrátt

Lesa meira

Fólkið í kjallaranum

  
Lesa meira

Litli lögfræðingurinn

Lesa meira

Stjórnlaus lukka

Lesa meira

Algjört frelsi

Lesa meira

Vetrarsól

Lesa meira

107 Reykjavík

Lesa meira