Beint í efni

Týnd í Paradís

Týnd í Paradís
Höfundur
Mikael Torfason
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Um bókina:

Týnd í Paradís er ný bók eftir Mikael Torfason en í henni segir hann sögu sína, foreldra sinna og forfeðra. Við sögu koma guð, djöfullinn og Vottar Jehóva. Ennfremur hippar, læknar, sjómenn, bændur, húsmæður, drykkjumenn, reykingafólk og börn. Þetta er ótruleg saga en dagsönn.

Úr bókinni:

„Og drottinn lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá Drottni, af himni. Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar. En kona hans leit við að baki honum og varð að saltstöpli.“

Fyrsta Mósebók, 19:24-26

Mamma er horfin.

Ég man að Ingvi bróðir minn hvíslaði að mér að við ættum ekki að líta við því þá yrðum við að salti.

„Salti?“ endurtók ég fremur máttlaust við hliðina á honum í aftursætinu á Volgunni hans pabba.

„Já, eins og í Sódómu.“

„Hvar?“ hvíslaði Lilja systir. Hún sat handa við Ingva sem var í miðjunni.

Lilja var ekki einu sinni orðin þriggja ára og skildi aldrei neitt. ég var að verða fimm, fannst mér, þótt ég ætti ekki afmæli fyrr en á næsta ári. Reyndar héldum við ekki upp á afmæli og töluðum aldrei um afmælisdaga en það átti eftir að breytast á næstu dögum eins og eiginlega allt annað í lífi okkar.

Þetta var á öðrum degi jóla en við vissum það varla því við vorum Vottar Jehóva og máttum ekki halda upp á jólin. Lilja vissi ekki einu sinni hvað jól voru en ég var reyndar nýkominn heim af spítalanum og þar höfðu allir verið með jólin á heilanum. Ingvi bróðir var líka duglegur að segja mér sögur af þessari hátíð ljóss og friðar því hann var átta ára og í alvöru skóla og þar voru jól þótt hann mætti alls ekki búa til músastiga eða teikna myndir af jólasveinum.

Ég mundi allar sögurnar hans Ingva og hann sagði að ég væri með límheila því ég kunni margar biblíusögurnar utanbókar. Ég vissi því alveg hvaða kona varð að salti. Ég vissi líka alveg að hann var að stríða mér en ég þorði samt ekki að líta aftur fyrir mig því ég vildi ekki verða aðs alti eniso gkonan hans Lots sem Jehóva Guð breytti í salt þegar hann sendi englana tila ð brenna borgirnar Sódómu og Gómorru. ég vissi þetta allt.

„Manstu ekki eftir myndinni í biblíubókinni?“ reyndi ég að útskýra fyrir Lilju án þess að pabbi heyrði í okkur frammí. Hann var pirraður og reiður út í mömmu sem hafði bara horfið fyrirvaralaust.

„Við erum að fara til kærustunnar hans pabba,“ hafði Ingvi sagt mér áður en við lögðum af stað því hann heyrði pabba hringja í hana úr símanum frammi í forstofu. Hann sagðist líka hafa heyrt mömmu segja þetta við pabba. Að hann ætti bara að fara til kærustunnar sinnar og eiga heima hjá henni. „Vill hún ekki bara eiga þessi börn líka?“ hafði hún hvæst. Ingvi sagði mér þetta allt áður en pabbi skipaði okkur að fara út í bíl.

„Hvar er mamma?“ spurði Lilja og Ingvi hristi höfuðið.

„Hún skilur ekki neitt,“ hvíslaði hann að mér í bílnum og leit svo strangur á Lilju sem stakk snuði upp í sig. „Mamma þín er farin. Pabbi ætlar að finna handa þér nýja mömmu.“

(8-9)

Fleira eftir sama höfund

Bróðir minn og bróðir hans

Lesa meira

Saga af stúlku

Lesa meira

Verdens værste far

Lesa meira

Maailman tyhmin isä

Lesa meira

Bréf til mömmu

Lesa meira

Síðustu dagar Kjarvals

Lesa meira

Harmsaga

Lesa meira