Beint í efni

Úlfur og Edda : Drekaaugun

Úlfur og Edda : Drekaaugun
Höfundur
Kristín Ragna Gunnarsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Amma Edda er stungin af, sökuð um að hafa stolið forngrip af Þjóðminjasafni Íslands.

Úlfur og Edda reka slóð hennar að göngunum undir Skálholti og leita hennar í goðheimum. Þar lenda þau í miklum ævintýrum, kynnast breyskum persónum goðsagnanna og takast á við forna fjendur á leið sinni heim aftur.

Úlfur og Edda: Drekaaugun er sjálfstætt framhald bókarinnar Úlfur og Edda: Dýrgripurinn 

Úr bókinni

   Edda tók dagbókina sína upp, valdi blýant úr pennaveskinu, yddaði hann og byrjaði að skrifa: Elsku mamma. Ég veit að þetta er ótrúlegt en við Úlfur erum aftur komin í Ásgarð. Við erum að leita að ömmu Eddu. Hún er sökuð um glæp sem ég er viss um að hún framdi ekki. Þetta er allt mér að kenna. Loki er örugglega brjálaður út í mig. Ég lét Freyju hafa Brísingamensbrotið. Hún veiddi Loka í háf þegar hann var í fisklíki og hótaði að breyta honum í síli. Svo var ég leiðinleg við pabba. Mig langar svo að segja fyrirgefðu við hann en fyrst þarf ég að finna ömmu og koma okkur heim. Hvernig í ósköpunum á ég að fara að því? Ég virðist klúðra öllu sem ég geri.
   Þetta var ekki til neins. Hún kastaði dagbókinni frá sér og bókin sveif í boga út úr garðskálanum. Hvað var hún að spá? Eins og hún gæti fengið svör með því að skrifa bréf til mömmu sinnar. Mamma hennar var dáin. Var amma Edda kannski líka dáin fyrst hún var innan um hauskúpur? Nei, það gat ekki verið. Amma Edda var örugglega á þessari stundu að gefa einhverjum góð ráð. Eitthvað á þá leið að það bætti engan vanda að láta áhyggjurnar hafa af mann svefninn. Þetta var speki sem amma sagðist hafa lært úr aldagömlu kvæði, Hávamálum. Eddu minnti að það þýddi „Orð Óðins“ en hún var ekki viss.
   Edda rölti út úr skálanum til að leita að dagbókinni og fann hana inni í runna. Hún settist í tröppurnar og dustaði lauf af bókinni. Tvær stjörnur skinu skærar en aðrar á fjólubláum himninum. Þær virtust horfa spyrjandi á hana. Henni fannst allt í einu eins og fylgst væri með sér úr öllum áttum. Hún dreif sig aftur inn, hjúfraði sig upp að Úlfi og sofnaði við hroturnar í honum. Hvorugt barnanna varð því vart við það að tveir hrafnar stungu sér inn í garðinn og tylltu sér á útrétta arma fuglahræðunnar.

(s. 69-70)

 

Fleira eftir sama höfund

Nornasaga: Hrekkjavakan

Lesa meira

Úlfur og Edda: dýrgripurinn

Lesa meira

Engar ýkjur

Lesa meira

Örlög guðanna: Sögur úr norrænni goðafræði

Lesa meira

Kata og ormarnir

Lesa meira

Lygasaga

Lesa meira

Lokaorð

Lesa meira

Úlfur og Edda : Drottningin

Lesa meira