Beint í efni

Um ástina og annan fjára

Um ástina og annan fjára
Höfundur
Gabriel García Márquez
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Del amor y otros demonios eftir Gabriel García Márquez í þýðingu Guðbergs.

Úr Um ástina og annan fjára

Þannig hefðum við orðið, sagði hún.

Markgreifinn smitaðist af þessum nöturleika og sá hana fyrir sér, gamla og feita, tveimur tönnum fátækari og með sljóleika í augunum. Kannski hefðu þau orðið þannig ef hann hefði haft kjark í sér til að andmæla föður sínum.

Þú virðist vera með fullu viti, sagði hann.

Ég hef alltaf verið það, sagði hún. Það varst þú sem sást mig aldrei í réttu ljósi.

Ég veitti engri athygli í hópnum nema þér þegar þið voruð allar ungar og fagrar og erfitt að sjá hver væri fríðust, sagði hann.

Ég vakti sjálf á mér athygli vegna þín, sagði hún. Ekki þú. Þú hefur alla tíð verið eins og núna, sami vesalingurinn.

Þú svívirðir mig á mínu eigin heimili, sagði hann.

Rifrildið sem var í aðsigi gladdi Ljúfu Olívíu. Ég á það jafn mikið og þú, sagði hún. Á sama hátt og ég á telpuna þó einhver tík hafi gotið henni. Og hún bætti við án þess að gefa honum tóm til svars:

Verst er að þú hefur fært hana í slæmar hendur.

Það eru hendur Guðs, sagði hann.

Ljúfa Olívía varð æf og öskraði:

Þetta eru hendurnar á syni biskupsins sem gerir hana að mellu og ólétta.

Þú breytist í eiturnöðru ef þú opnar munninn! hrópaði greifinn hneykslaður.

Sagúnta ýkir en hún lýgur ekki, sagði Ljúfa Olívía. Reyndu ekki að kúska mig því þú hefur enga aðra lengur til að púðra þig í framan á líkbörunum.

Þannig endaði þetta alltaf. Tárin byrjuðu að leka úr henni eins og súpugutl á diskinn. Hundarnir höfðu sofnað en vöknuðu við æsinginn, reistu athugulir hausana og urruðu. Markgreifanum lá við köfnun.

Þarna sérðu, sagði hann æfur, svona hefðum við orðið.

(s. 134-135)

Fleira eftir sama höfund

Saga af sæháki...

Lesa meira

Frásögn um margboðað morð

Lesa meira

Ástin á tímum kólerunnar

Lesa meira

Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu

Lesa meira

Hundrað ára einsemd

Lesa meira

Liðsforingjanum berst aldrei bréf

Lesa meira