Beint í efni

Undantekningin – de arte poetica

Undantekningin – de arte poetica
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur

Um Undantekningu:

Sagan hefst á gamlárskvöld, þegar Flóki eiginmaður söguhetjunnar kemur út úr skápnum og flytur til nafna síns og samstarfsmanns. Báðir eru stærðfræðingar og sérfræðingar í óreiðukenningunni. Í kjallaranum býr dvergurinn Perla sem leggur stund á hjónabandsráðgjöf og ritstörf þótt hún hafi hvorki verið gift né sent frá sér bók. Undantekning er fjórða skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur.  

Úr Undantekningunni:

OG ÞÁ TEKUR

VIÐ

ÖNNUR

ANDVÖKUNÓTT

EIN

Í RÚMINU með öll mín kvenlegu form sem maðurinn minn hefur ekki lengur áhuga á. Ég hristi upp í sænginni og stafla í kringum mig fjórum koddum, hleð þeim eins og virkisvegg milli mín og fjarverandi mannsins míns, tvíbreitt rúmið er úfið, grátt úthaf og ég svamla um í því, heila nótt milli dags og dags sem löngun mín þreyir. Þótt ég vilji gjarnan finna fyrir útlínum annars líkama, kvel ég mig ekki með því að hugsa um brjóstkassa sem bifast í takt í þarnæstu götu og dreg dúnsængina yfir mig. Ég ligg með hendurnar með síðum og horfi út í myrkrið.

Þá dettur mér í hug að ég geti allt eins horft á bíómynd og er nokkra stund að leita í hillunni. Á endanum dett ég niður á bíómynd um kraftaverk og ungabarn sem gleðikona skilur eftir í tágakörfu á rúmi föður síns. Það er lítið talað í myndinni en andlitin eru tjáningarrík og myndskotin nógu löng til að hægt sé að virða fyrir sér smáatriði eins og flagnað veggfóður og sprungur í vegg. Ég loka augunum augnablik og þegar ég opna þau aftur er faðir ungabarnsins að borða eggjasamloku. Af því að ég get ekki sofið fer ég niður í eldhús og rista mér tvær brauðsneiðar og hita te. á meðan suðan kemur upp á vatninu dettur mér í hug að ég gæti gert kæfu og blaða í gegnum nokkrar matreiðslubækur. Ég gref stutta stund í fyrstinn og finn kjúklingalifur. á meðan lifrin er að þiðna á vaskaborðinu, horfi ég á Sjöunda innsiglið en hætti þegar myndin er rúmlega hálfnuð og fer fram, saxa lauk og tvíhakka lifrina.

Á meðan kæfan er að bakast í ofninum dettur mér í hug að ég geti þrifið eldhússkápana. Ég finn fjölmargar krukkur af lífrænu tómatmauki, fleiri gerðir af pasta en ég hélt að ég ætti, og rjá pakka af bygggrjónum innarlega í skápnum. Utan á pökkunum er að finna uppskrift að graut með þurrkuðum ávöxtum sem ég ákveð að elda handa börnunum á morgun. Þegar ég er búin að taka eldhússkápana í gegn, tek ég niður gluggatjöldin og þurrka úr gluggakistunni. Ef við ættum silfur myndi ég pússa það líka.

Þá dettur mér í hug að ég gæti heyrt hljóðið í manninum mínum. Þess verður ekki vart á röddinni að hann sé undrandi yfir þvi´a ég skuli hringja klukkan tvö um nótt.

– Vissirðu að svanir skilja ekki? segi ég.

– Við erum ekki svanir.

Það er þögn stutta stund í símanum.

– Þú verður að sofa, segir hann loks.

– Ég get það ekki.

– Fáðu þér kamillute.

– Það sem mér finnst erfiðast er að framtíðin verður öðruvísi en ég hélt að hún yrði. Að þú verðir ekki hjá mér, heldur annars staðar.

– Þú ert best vinkona mín.

– Ég vil ekki vera vinkona þín.

– Ég get alveg verið þér góður.

– Nei, það er of erfitt.

– Ég hefði aldrei getað búið með konu í ellefu ár ef hún hefði ekki verið dásamleg.

Hann hikar.

– Ég var hættur að vaxa sem manneskja.

Þegar ég leggst niður á koddann heyri ég að gluggi skellist, eins og örvæntingarfullt vængjablak fugls sem er fastur með fætur í snöru.

Ég er úrvinda og læt mig síga undir sængina. Ég er of þreytt til að þjást lengi. Um nóttina dreymir son minn að ánamaðkur sé að elta hann svo hann skríður upp í til mín. Hann bröltir stutta stund, spriklar og sparkar en ég strýk honum um kinnina þar til ahnn sofnar. Síðan vaki ég og virði fyrir mér furðuverk sköpunarinnar.

Ég þarf stundum að útskýra fyrir fólki að það sé tvöföld hamingja að eiga tvíbura.

(79-81)

Fleira eftir sama höfund

Afleggjarinn

Lesa meira

Rosa candida

Lesa meira

Svartur hundur prestsins

Lesa meira

Weiß ich, wann es Liebe ist

Lesa meira
eden

Eden

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. 
Lesa meira

Dýralíf

Lesa meira

Stiklingen

Lesa meira

Výhonek osmilisté růže

Lesa meira