Beint í efni

Velkomin

Velkomin
Höfundur
Bubbi Morthens
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Ljóð

úr bókinni

5

gjáin milli hjartans og höfuðsins
breikkar stöðugt

blindþoka umlykur vitundina
uns tungan verður andsetin

föllum á kné
djöfullinn vakir í okkur
meðan við sofum mun snjóa
fordómum

þau stíga ekki fram sem píslarvottar
heldur sem blaktandi ljóstýrur
í rökkvuðum skrifstofum hins opinbera

stíga fram
og leggja allt undir
taka höggið eins og óstudd

óttinn liggur þvert í gegnum börnin
þar sem hjörtun loga og myrkur fæðist
til paradísar fást öngvir miðar

heldur að þú sért öruggur

undir hvítri húðinni
iðar ormakösin

einn daginn
kastar skuggi þinn
kápu sinni yfir þig

eins og sjónhverfing
muntu týnast að eilífu

þú þarft ekki að óttast byssukúlu
eða verða grafinn undir veggjum
híbýla þinna þú átt von á góðu

þegar þú gengur um kvöld í júlí
og fetar hraunið við borgarlækinn
skaltu ekki undrast þótt þér mæti
maður í frakka með harðkúluhatt
og skjalatösku úr leðri

ekki láta þér bregða þótt hann
stöðvi þig með mjúkri snertingu

og segi eitthvað á þessa leið

mér þykir leitt að þurfa að tilkynna
að hér lýkur för þinni í þessu lífi

kuldinn hægði á öllu
landið vorblautt og blátt

fordómafullir jöklanna tindar
himinninn þungur og grár
hafið var úfið og kalt

og í hrauninu uxu errin og þornin
í skjóli frá vindum evrópu

með blóðrisa tungu voru
þau látin lepja þau upp og gleypa hrá

orð sem skildu eftir járnbragð milli jaxla
meðan mýld tungan reyndi að rífa sig lausa

þegar húmaði
bakvið glerjaða auðn svefnsins
minning um sumarleiki og skuggalausar verur

hatrið þetta alkul
liggur sofandi þar til á reynir ef vakið verður
mun það svipta manninn mennskunni
grugga blóð hans í rótarkerfi hjartans mun fúna
og enn eitt tréð falla

miskunnsemin dásamleg
við opnum þegar hún knýr dyra og lokum aftur
og svörum þegar spurt er hver þetta var

æ enginn

(33-39)

Fleira eftir sama höfund

orð, ekkert nema orð

Orð, ekkert nema orð

og niðrí myrkrinu má sjálfsagt finna tilgang.
Lesa meira

Öskraðu gat á myrkrið

Lesa meira

Hreistur

Lesa meira

Að kasta flugu í straumvatn er að tala við guð

Lesa meira

Djúpríkið

Lesa meira

Bubbi - samtalsbók

Lesa meira