Beint í efni

Víti í Vestmanneyjum

Víti í Vestmanneyjum
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Barnabækur

Myndskreytingar: Rán Flygenring.

Um Víti í Vestmannaeyjum

Það var komið að því. Loksins! Eftir allt sem maður var búinn að leggja á sig allan veturinn og allt vorið þá var komið að því. Ó, sjitt … Eða sko: Ó, rækallinn. Ég gleymi að kynna mig. Ég heiti Jón Jónsson. Ég ætla að segja ykkur frá því þegar ég fór til Vestmannaeyja að keppa á peyjamótinu í fótbolta. Hér byrjar þá … FÓTBOLTASAGAN MIKLA!

Víti í Vestmannaeyjum er æsispennandi saga um magnaða markverði‚ volduga varnarnagla‚ klóka kantmenn‚ fljóta framherja og makalaus mörk … en líka ýmislegt annað eins og skapstyggan skipstjóra‚ lyginn lögreglumann‚ eldspúandi fjöll og enn alvarlegri vandamál sem þarf að glíma við jafnvel þótt fótboltamót sé í gangi.

Úr Víti í Vestmannaeyjum

Bæjarstjórar, höfðingjar og landnámsmenn
Þrettándi kafli
í öðrum hluta = 13-2

Um kvöldið var farið í skrúðgönguna. Fyrsta kvöldið á svona fótboltamótum er alltaf setningarathöfn. Þá fara öll liðin í skrúðgöngu og stilla sér upp á aðalfótboltavellinum og svo eru haldnar ræður og eitthvað svoleiðis. Allir foreldrarnir standa eða sitja í áhorfendastæðunum og taka myndir og við veifum þeim þegar við göngum inn á völlinn. Þetta er alltaf nákvæmlega eins og á Ólympíuleikunum. Við vorum sko til í þetta. Við vorum líka með besta liðið í öllu mótinu og ætluðum að verða mótsmeistarar. Og vinna prúðasta bikarinn. Við vorum í stuði og hlupum af stað.

Það var gaman.

Í svona tvær mínútur.

Rétt eftir að við lögðum af stað í skrúðgönguna fór að rigna. Ég hef aldrei lent í annarri eins rigningu á ævinni. Svona rignir aldrei í Laugardalnum í Reykjavík. Ekki svona mikið. Og ekki svona beint niður. Við vorum allir orðnir blautir í gegn þegar við komum niður á völlinn. Við gengum samt í skipulagðri röð, hnarreistir og flottir, inn á völlinn. Ja, kannski ekki svo flottir því við vorum allir að reyna að blotna ekki meira. Það gekk mjög illa. Skúli reyndi að passa upp á gifsið sitt því það mátti alls ekki blotna en það gekk hörmulega. Það var orðið blautt líka og allt stefndi í að það myndi eyðileggjast. Það var bókstaflega allt orðið blautt. Og kalt. Við héldum samt áfram að syngja Þróttaralög og vera í stuði og það hélt á okkur hita.

Einhver hress karl kom í ræðupúltið og bauð alla velkomna. Svo sagði hann: „Hverjir eru bestir?“

Allir hrópuðu nafnið á sínu liði. Við hrópuðum samt langhæst allra:

„ÞRÓTTUUUUUR!!!“

Þar með var skemmtiatriðunum lokið. Og við tóku leiðindaatriðin. Bæjarstjórinn hélt ræðu. Hún var aaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaallllllllllllllllttttttoooo
ooooooooooooooooooooooooooooooflööööööööööööö öööööööööööööööööööööööööööööööööööööööööööö ööööööönnnnnnnnnnnnggggggggggg. Við vorum farnir að skjálfa af kulda í þessari hellidembu. Það var þarna sem ég skildi máltækið: Það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Það var nákvæmlega þannig sem rigndi. Eins og hellt væri úr fötu. Aðstoðarmaður bæjarstjórans stóð við hliðina á honum og hélt regnhlíf yfir honum. Sjálfur var aðstoðarmaðurinn blautastur allra því hann var ekki í neinum regnfötum. Og enn hélt bæjarstjórinn áfram að tala.

„... það er með miklu stolti sem við Vestmannaeyingar tökum á móti rjóma æskumanna þessa lands (rjóminn var að leka burt, hæstvirtur bæjarstjóra-rjómi!) ... þakka frystihúsinu og útgerðinni fyrir veittan stuðning (Einmitt! Ég var líka að frjósa. Takk fyrir það!) ... í þrítugasta og eitthvað sinn sem mótið er haldið (gerðu það, aflýstu mótinu svo ég komist heim) ... vona að drengileg keppni fari fram jafnt innan vallar sem utan (HÆTTU AÐ TALA!) ...“

Hann hætti ekki að tala. Það var þarna sem ég skildi í fyrsta sinn máltækið: Bæjarstjórar halda leiðinlegar ræður!

„Strákar, við verðum að gera eitthvað! Ég er að frjósa hérna,“ sagði ég skjálfandi.

„Örn, megum við ekki fara heim í skóla? Gifsið er að eyðileggjast,“ sagði Skúii. Örn kíkti á gifsið og ákvað strax að fara með Skúla aftur á spítalann til að láta laga gifsið eða jafnvel að skipta um það. Allir vildu fá að fara með. Örn neitaði og bað Finn að sjá um okkur strákana á meðan hann væri í burtu. Þetta kom af stað smá óróa í hópnum. Þess vegna tók enginn eftir því þegar Bjössi dró sig út úr hópnum og hljóp yfir völlinn. Nema ég. Hann hljóp til pabba síns sem stóð í áhorfendabrekkunni. Pabbi hans fór í vasann og rétti Bjössa eitthvað. Bjössi hljóp af stað í áttina að ræðupúltinu. Svo hvarf hann á bak við það. Bæjarstjórinn stóð þar enn og bablaði. Það voru allir löngu hættir að hlusta.

(82-5)

Fleira eftir sama höfund

Barnaræninginn

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Gula spjaldið í Gautaborg

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira

Goggi og Grjóni

Lesa meira

Aukaspyrna á Akureyri

Lesa meira