Beint í efni

Vormenn Íslands

Vormenn Íslands
Höfundur
Mikael Torfason
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Af bókarkápu:

Birgir Thorlacius er gjaldþrota útrásarvíkingur, fráskilinn og meðvirkur Al-anon-félagi sem rannsakar sviplegt andlát móður sinnar. Kannski drap Birgir hana sjálfur, hann er ekki viss.

Bókin er í senn spennusaga og fjölskyldusaga verkamannafjölskyldu í Breiðholti. Fyndin, tregafull og beinskeytt ádeila á nútímasamfélag.

Úr Vormönnum Íslands:

Birgir var strax í barnæsku heltekinn af því að græða peninga. Hann ætlaði ekki að enda eins og afi hans eða pabbi. Hann ætlaði að verða ríkur.
  Við vorum tíu ára þegar Biggi dró okkur Nonna niður í bæ og lét okkur fjárfesta blaðburðarpeningana í myndum og plakötum af Wham og Duran Duran. Svo fórum við upp í Breiðholt með góssið og Biggi seldi stelpunum þetta og sagði pabba sinn hafa keypt í útlöndum. Þetta var í þá daga þegar venjulegt fólk komst aldrei til útlanda.

Á þessum árum ferðaðist Júlli um heiminn. Hann var gangandi kraftaverk. Eins og alkóhólistar eru svo oft. Honum tókst að sinna starfi sínu sem flugvélstjóri svo árum skipti blindfullur. Oftar en eki lá við stórslysi en samstarfsfólk hans kóaði með honum.
  Það gerðu mamma hans og pabbi líka. Þegar hann kom í heimsókn var komið fram við hann líkt og hann væri konungborinn. Meira aðs egja Geiri, sem yfirleitt var durtur, lyftist allur upp og settist inn í eldhús til að heyra sögur frá Asíu og Afríku.
  Júlli talaði og talaði og krakkarnir hans, Biggi og Siga, sátu uppi á eldhúsborði hjá ömmu sinni og hlustuðu. Gamla konan bakaði pönnukökur og vöfflur eins og alltaf. Hún gaf fólki að borða. Það var hennar hlutverk. Afi hans einbeitti sér að því að drekka ekki. Biggi man ekki til þess að þau hafi nokkurn tímann talað saman.

***

Geiri gullpungur átti sín góðu augnablik í vinnunni þegar Biggi var krakki. Þegar hann súrsaði hrútspunga og blóðmör og lyfrarpylsu, sviðasultu og grísalappir, þá fékk hann frið í sálina. Gleymdi brennivíninu sem hann hugsaði um daglega.
  Besti vinur Geira í afurðasölunni var Halim Al: ,,Indælismaður og hörkuduglegur,” sagði Geiri um þennan fyrrverandi vinnufélaga sinn þegar Halim rændi dætrum sínum og fór með þær til Tyrklands. Honum þótti eiginkonan vanhæft foreldri og alkóhólisti. Útlendingar komast oft að þeirri niðurstöðu um íslenska foreldra.

Júlli hefði aldrei haft hugmyndaflug til að gera allt sem sonur hans gerði þegar við vorum krakkar. Biggi var alltaf að fá nýjar hugmyndir um hvernig við gætum grætt peninga.
  Við héldum tombólu til styrktar hungruðum börnum í Eþíópíu og stálum gróðanum. Við seldum Helgarpóstinn og DV og skiluðum ekki sölugróðanum aftur til útgáfunnar. Við bárum allir út Moggann og einn daginn skiluðum við ekki rukkunarpeningunum. Þetta var fyrir tíma vísakorta og blaðburðarbörnin sjálf rukkuðu inn fyrir Mogga. Við gerðum það sama við DV, Þjóðviljann, Tímann og Alþýðublaðið.
  Þegar við urðum eldri fékk Biggi þá hugmynd að við skyldum vakta kóræfingar í Fella- og Hólakirkju og ræna veskjum af kórfélögum. Þeir hengdu yfirhafnir sínar upp í fatahenginu. Og þegar Nonni komst í samband við landasala fórum við að selja landa í Fellunum. Biggi fékk þá humgynd að þynna hann út með vatni.
  Við seldum unglingum tópas og töldum þeim trú um að það væri hass og bruddum niður magnýl og seldum sem amfetamín. Þetta var á þeim árum þegar við Nonni héldum enn að við ættum ekki í neinum vandræðum með áfengi og fíkniefni. Bigga var sama. Hann vildi bara græða peninga.

(37-8)

Fleira eftir sama höfund

Bróðir minn og bróðir hans

Lesa meira

Saga af stúlku

Lesa meira

Verdens værste far

Lesa meira

Maailman tyhmin isä

Lesa meira

Bréf til mömmu

Lesa meira

Síðustu dagar Kjarvals

Lesa meira

Harmsaga

Lesa meira