Beint í efni

500 dagar af regni og Þrír skilnaðir og jarðarför

500 dagar af regni og Þrír skilnaðir og jarðarför
Höfundur
Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Smásögur
500 dagar af regni og Þrír skilnaðir og jarðarför
Höfundur
Kristján Hrafn Guðmundsson
Útgefandi
Áróra útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Árni Davíð Magnússon

500 dagar af regni eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson og Þrír skilnaðir og jarðarför eftir Kristján Hrafn Guðmundsson eru tvö smásagnasöfn eftir nýútgefna höfunda sem hvor um sig hlutu Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þau eiga fleira sameiginlegt, sögurnar draga báðar upp svipmyndir af fólki í hversdagslegum aðstæðum þar sem gjarnan hvílir undir niðri einhver spenna. Höfundarnir nálgast þó efniviðinn á ólíkan hátt eins og greint verður frá.

500 dagar af regni

Í 500 dögum af regni er brugðið upp leifturmyndum af persónum í níu stuttum sögum. Frásögn flestra þeirra er í fyrstu persónu þar sem sögumaður á hlutdeild í atburðarásinni, en einnig kemur fyrir að sögumaður segi frá í þriðju persónu. Þá heldur hann sig þó fjarska nærri persónum sínum. Sögurnar í bókinni tengjast ekki í gegnum söguþráð eða persónur heldur í krafti tiltekinna þema.

Umfjöllunarefni þeirra má segja að sé í aðra röndina einsemd  og einmanaleiki. Persónur sagnanna eru margar hverjar einstæðingar á einn eða annan hátt. Þar segir m.a. frá Finnboga, 99 ára öldungi sem hefur verið útskúfað úr samfélagi sínu að því er virðist fyrir misskilning; Jónasi sem kennir sjálfum sér um andlát fyrrverandi unnustu sinnar og ungum, ónefndum manni sem einangrar sig eftir sambandsslit og ver kvöldum sínum í að horfa á Hitchcock-myndir með nágranna sínum á áttræðisaldri. Söguhetjur þessara sagna eru oft svolítið breyskir persónuleikar, þær eru hvorki hetjur né skúrkar heldur einfaldlega fólk sem gerir mistök, lærir af þeim (eða ekki) og vorkennir sjálfu sér þess á milli. Sum sé eins og fólk er flest.

Persónusköpun getur stundum orðið snúin í stuttum sögum eins og þeim í 500 dögum af regni. Þá þarf að skapa skýrar línur í fáum dráttum sem tekst ágætlega í sumum sögunum, myndin af áðurnefndum öldungi, Finnboga,  er t.a.m. ákaflega skörp eins og byrjun sögu hans „Heiðursgestur“ vitnar um:

Hann fikraði sig upp ísilagða brekkuna í átt að húsi sínu við Mánagötu 8, með nístingskalda sægoluna í bakið. Lotinn og þungstígur steig hann fast til jarðar svo ískraði í mannbroddunum, og blés kröftuglega í hverju skrefi, andskotans hark að þurfa að ganga þessa brekku á hverjum degi. (17)

Hér er spilað á skilningarvitin, lesendur finna „nísting“, „ískur“ og finna strit Finnboga á eigin skinni. Brekkan sem Finnbogi bisar svo við daglega kallast síðan skarplega á við það mótlæti sem hann mætir í sínu daglega lífi og sligar hann að lokum. Hér er góð samfella frá upphafi til enda og stílbrögð markviss og rökrétt. Í öðrum sögum kemur þó fyrir að reynt sé að vekja tilfinningar lesenda á fullágengan hátt, að svolítið mörgu sé komið að í fáum orðum, og skapar þetta dálitla hættu á að útkoman verði óþarflega melódramatísk eins og kannski í lokaorðum sögunnar „Sálmurinn um Rósu“:

Þessi frásögn er því ekki aðeins saga af stúlku sem átti betra skilið í lífinu, heldur líka útfararsálmur um manninn sem ég var fyrir löngu síðan; manninn sem dó þegar hann gekk inn í svefnherbergi á myrku haustkvöldi og kom að unnustu sinni hangandi neðan úr þakbita. Með þessi sorgbitnu augu, lífvana bláu augun sem voru eitt sinn svo full af fyrirheitum og hlátri. (48-49)

 Sögumanni liggur bersýnilega mikið á hjarta í þessu textabroti en það má spyrja hvort ekki hefði mátt fara örlítið fínna í sakirnar, því skáldskapur orkar ekki síður á lesendur í gegnum hið ósagða.

Flestar sögurnar í 500 dögum af regni eru harla raunsæjar eins og þær sem hér hafa verið reifaðar. Ein sker sig þó úr en það er sagan „Veröld ný og blaut“ sem mætti kannski segja að væri undir nokkrum áhrifum töfraraunsæis. Þar vaknar sögumaður upp við það að Reykjavík er horfin undir vatn. Enginn annar virðist kippa sér upp við þá sýn heldur siglir fólk um borgina á árabátum í mestu makindum. Mér varð hugsað til Gyrðis Elíassonar við lestur sögunnar, mikið er um fallegar náttúrustemmningar og víðátta þessarar blautu veraldar er á smekklegan hátt látin endurspegla innra líf sögumanns. Það væri gaman að lesa fleiri sögur í þessum dúr eftir höfund, en sögurnar í 500 dögum af regni sýna að hann er fær í því að grípa lesendur með frumlegum líkingum og leggur greinilega natni við textann. Sannarlega verður athyglisvert að fylgjast með höfundarödd hans þroskast.

Þrír skilnaðir og jarðarför

Sögurnar í  Þremur skilnuðum og jarðarför eru ekki á eins alvarlegum nótum og þær í 500 dögum af regni. Margar þeirra eru í léttum dúr, sögumaður er gjarnan sposkur og lesendur geta brosað út í annað. Þó snertir bókin einnig á alvarlegum viðfangsefnum innan um húmorinn og því má segja að í henni sé tragískur strengur sem lesendur finna vel fyrir meðan á lestri stendur. Sögurnar í bókinni eru annars níu talsins, en þar af er ein, „Fólk og fjara“, í þremur hlutum. Bókin á það sameiginlegt með 500 dögum af regni að flestar sögurnar eru afskaplega raunsæjar, en þó er ein sem leyfir sér að fara inn á braut fantasíunnar eins og vikið verður að síðar. Hún skilur sig frá 500 dögum á þann veg að sögur hennar eru samtengdari þótt þær standi sjálfstæðar; koma má auga á tengingar milli persóna í ólíkum sögum sem stundum virðist einungis vera til þess að „blikka“ lesendur en getur annars staðar skipt máli.

Hvað þemu bókarinnar varðar þá má freista þess að nálgast þau í gegnum kápumyndina, sem er skemmtileg og sýnir mynd af stórri talblöðru með þremur bleikum punktum fyrir miðju, og hefur reyndar einnig aðra merkingu eins og mun koma í ljós. Þetta tákn kannast margir við af spjallforritum þegar beðið er eftir skilaboðum, stundum með óþreyju, og kallast þessi táknbeiting á við yrkisefni margra sagnanna í bókinni. Þar eru sambönd og samskipti fólks í fyrirrúmi eða kannski öðru fremur samskiptaörðugleikar. Fólk sendir skilaboð sem eru ekki móttekin, hugsar um að segja eitthvað en sleppir því síðan. Talblaðran lýsir þessu vel þar sem hún táknar allt það sem er ósagt, skilaboð sem aldrei koma.

Mörg dæmi má nefna úr bókinni sem lýsa þessu stefi, sum eru létt eins og skopleg og ómarkviss samskipti konu við aðra sem ætlar að sækja borðstofuskáp, en önnur alvarleg eins og nauðgunartilraun sem virðist vera þögguð eða svæfð, verður að ómótteknum skilaboðum. Það er þó gagnlegt að nálgast bókina út frá þríleiknum „Fólk og fjara“ þar sem hún myndar ákveðinn burðarstólpa meðal sagnanna og í henni er komið að mörgum málefnum sem safnið í heild snertir á. Sögunni er skipt upp í bókinni en gæti vel staðið ein og sér. Eins og kemur fram í eftirmála er hún byggð á smásögu Svövu Jakobsdóttur „Þegar skrúfað var frá krananum í ógáti“. Í þeirri sögu skrúfar einhver frá baðherbergiskrana á neðri hæð, og í stað þess að skrúfa fyrir hann leitar fjölskylda sögunnar ofar í húsið og karlmenn fjölskyldunnar hverfa svo í vatnselginn einn af öðrum meðan mæðgur standa eftir. Kjarni sögunnar mætti því segja að væri í aðra röndina samskiptaleysi milli kynja og en samskiptaleysið má lesa með ögn öðrum formerkjum í sögu Kristjáns Hrafns.

 Í „Fólki og fjöru“ er það fjölskyldufaðirinn Jón sem skrúfar frá krananum og lýkur fyrsta hlutanum á spennu og ógn: „Það sem hann áttar sig ekki heldur á er að hann gleymdi að skrúfa fyrir kranann inni á baðherbergi. Vatnið rennur“ (12). Næsti hluti er eins konar millibilsástand, Jón fer með Kollu konu sinni í leiðinlegt og samskiptasnautt matarboð sem þau sækja af skyldurækni einvörðungu. Eftir matarboðið er neðri hæð hjónanna á floti en það virðist ekki ætla að hafa aðra eftirmála en parketskipti. Á því verður þó snarleg breyting í þriðja hluta því þar raungerist ógnin sem fyrsti hlutinn boðaði. Þá er farið með lesendur inn í heim fantasíunnar þegar Jón rankar við sér úti á hafi á bát með tveimur mæðgum. Þá kemur önnur merking kápumyndarinnar í ljós því hún sýnir ekki einungis talblöðru heldur einnig þrjár manneskjur á rúmsjó. Alveg eins og í 500 dögum af regni er Reykjavík er komin undir vatn og eins og í sögu Svövu leita sögupersónur sífellt hærra, stefna raunar á Alpana, þótt þær viti að það muni þegar upp er staðið engu skila. Segja má að það samskiptaleysi sem fjallað er um í smásögu Svövu sé í „Fólki og fjöru“ snúið upp á mann og náttúru, því þríleikurinn fjallar öðru fremur um aðsteðjandi ógn, loftslagsvá, sem flóðið í sögunni vitnar um. Ómóttekin skilaboð geta haft afleiðingar, og spurningin verður: Hver ætlar að skrúfa fyrir kranann?

Að samanteknu er Þrír skilnaðir og jarðarför er spennandi smásagnafn og sannarlega góð byrjun á höfundaferli Kristjáns Hrafns Guðmundssonar. Höfundur hefur bersýnilega gott lag á persónusköpun og snýr vel upp á takmarkanir smásagnaformsins með því að tengja sögurnar saman, stundum í smáu en einnig í stóru.
 

Árni Davíð Magnússon, desember 2020