Beint í efni

Abbababb!, Drekinn sem varð bálreiður og Einstök mamma

Abbababb!, Drekinn sem varð bálreiður og Einstök mamma
Höfundar
Dr. Gunni,
 Fanney Sizemore
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Barnabækur
Abbababb!, Drekinn sem varð bálreiður og Einstök mamma
Höfundar
Margrét Tryggvadóttir,
 Halldór Baldursson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Barnabækur
Abbababb!, Drekinn sem varð bálreiður og Einstök mamma
Höfundar
Bryndís Guðmundsdóttir,
 Margrét E. Laxness
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Eitt einkenni barnabóka er að sinna einhverskonar uppeldis- og kennsluhlutverki. Barnabækur bjóða foreldrum uppá ýmsar leiðir til að kynna barnið fyrir nýjum heimum og hugmyndum, í von um að barnið tileinki sér nægilega þekkingu til að takast á við samfélagið, lífið og jafnvel sjálft sig. Þannig eru barnabækur ekki bara sögur heldur líka einskonar dæmisögur sem foreldrar geta nýtt í ýmsum tilgangi. Vissulega má segja það sama um allar bókmenntir, allt eru þetta sögur eða textar um lífið og tilveruna sem lesandi tileinkar sér og verður - væntanlega og vonandi - öllu fróðari. Þó ekki væri nema um hugarheima rithöfundarins.

Þetta uppeldishlutverk barnabókarinnar er þó augljóslega misaugljóst, sumar sögur virðast fyrst og fremst ætlaðar til skemmtunar, en bjóða þó uppá heilmikinn lærdóm, en dæmi um slíka er Drekinn sem varð bálreiður (Vaka-Helgafell / Forlagið, 2007) eftir Margréti Tryggvadóttur. Þar er sagt frá dreka í sjálfsmyndakreppu: hann “vissi ekki hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór.” En drekinn er svo ‘heppinn’ að hitta monthana á förnum vegi, í félagsskap fjögurra hæna, og sá er ekki lengi að benda hetju vorri á ýmsa framamöguleika fyrir dreka: “Það eru náttúrulega til alls konar drekar, til dæmis varðdrekar, garðdrekar og erindrekar”. Ein hænan bendir einnig á að sporðdreki komi til greina, önnur nefnir flugdreka og þannig halda þau áfram að nefna ólíkar tegundir dreka. Það sem gerir þessa litlu sögu að einhverju meiru en upptalningu á drekaorðum eru frábærar myndir Halldórs Baldurssonar, sem teiknar snilldarlega upp hvernig dreka-auminginn sér sjálfan sig fyrir sér í ýmsum drekaútgáfum - sem eru ekki endilega það sem yfirleitt felst í orðum eins og sporðdreki og flugdreki. Þannig er leikið á tungumálið og viðteknar hugmyndir í sérlega vel heppnuðu samspili orða og mynda.

Á hinum enda skalans er bókin Einstök mamma (Salka, 2007) eftir Bryndísi Guðmundsdóttur, en þar er fjallað um heyrnarlausa móður og það hvernig börn hennar upplifa heyrnarleysi hennar. Sagan er sögð af dóttur konunnar sem byrjar einn morguninn á því að læðast út með bróður sínum til að róla sér í nýjum rólum. En móðurinn bregður voðalega þegar hún uppgötvar að börnin eru horfin og dóttirin ávítar sjálfa sig fyrir hugsunarleysið - mamma hennar getur jú ekki heyrt neitt þegar þau laumast út. Annað viðfangsefni er tungumálið: mamman talar undarlega og með höndunum. Stundum finnst krökkunum þetta erfitt en svo flyst ný fjölskylda í hverfið, þar er móðirin erlend og hún talar líka skringilega. Þrátt fyrir að boðskapurinn sé nokkuð augljós (svo augljós að eftirmáli sem skýrir tilgang sögunnar virðist óþarfur), þá er öllu vel haldið til haga, sagan er fallega sögð án þess að verða væmin eða pínleg og einfaldar og ljúfar myndir Margrétar E. Laxness styðja vel við textann.

Einhversstaðar þarna mitt á milli er hin bráðskemmtilega saga Dr. Gunna, eða Gunnars Lárusar Hjálmarssonar, Abbababb! (Veröld, 2007). Sagan er útgáfa af samnefndu leikriti sem notið hefur mikilla vinsælda og segir frá krökkum sem eiga sér leynifélag, og vonast eftir að leysa sakamál til að fá mynd af sér í Mogganum. Nokkrir Rússar eru fluttir í nærliggjandi hús og þau ákveða að fylgjast með þeim, enda augljóslega grunsamlegt fólk. Inn í söguna blandast svo þjófnaður á dínamíti og nýr eigandi sjoppunnar, Hr. Rokk, auk höfuðóvina gengisins, stóru strákanna. Að ógleymdri systur eins meðlimanna, en hún er pönkari, og dálítið skotin í öðrum stóra stráknum, sem er diskógæi. Hér eru það augljóslega tískustraumar níunda-áratugarins sem eru til umfjöllunar og virka bæði fyndnir og sniðugir í þessari líflegu sögu. Allt er í frekar ýktum stíl, vandlega undirstrikað af teikningum Fanneyar Sizemore, sem eru sömuleiðis ýktar og vekur litavalið sérstaka athygli. Atburðarásin er nokkuð æsandi og teikningarnar sömuleiðis spriklandi og það er auðvelt að sjá fyrir sér fjör á sviði. Þessi bók hentar kannski nokkuð eldri lesendum en hinar tvær, sem eru greinilega ætlaðar yngri börnum.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007