Beint í efni

Að sjá húmor og undur í hinu hversdagslega

Að sjá húmor og undur í hinu hversdagslega
Höfundur
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Að sjá húmor og undur í hinu hversdagslega
Höfundur
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Elín Björk Jóhannsdóttir
alþingi og dómkirkja

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hefur verið kölluð fjöllistakona því það er ómögulegt að setja hana í eitt hólf. Hún er myndasöguhöfundur, myndlistakona, myndhöfundur, tónlistakona, handritshöfundur, leikskáld, hönnuður og rithöfundur, bæði fullorðins- og barnabóka. Sem rithöfundur spannar höfundarverk hennar angist og undur lífsins og þar finnur hún alltaf húmorískan flöt á umfjöllunarefnum hversu erfið sem þau kunna að vera.

Lóa lét til sín taka á bókmenntasviðinu með útgáfu Lóaboratoríum árið 2014. Áður hafði hún gefið út svart-hvíta bók í litlu broti sem nefnist Alhæft um þjóðir (2009) þar sem hún snýr upp á ýmsar staðalímyndir í myndasöguformi. Lóaboratoríum er safn stuttra teiknimyndasagna og viðfangsefnin eru fjölbreytt en um leið oft kunnugleg og hversdagsleg og það er strax áberandi vel Lóu tekst að draga fram fyndnar hliðar á rannsóknarefnum sínum. Lóaboratoríum. Nýjar rannsóknir (2015) fylgdi svo í kjölfar þeirrar fyrri, í sama broti og bækurnar kallast skemmtilega á og fylgja sömu forskrift. Í bókunum birtast stuttar og hnyttnar myndasögur eða skopmyndir sem fanga margt í tíðarandanum. Húmor Lóu sem birtist svo skýrt í verkum hennar er sígildur, meðal annars vegna þess að staðan sem er tekin í þeim er aldrei svo fjarlæg að lesandinn finni ekki samlíðan með viðfangsefninu. Myndasögurnar í Lóaboratoríum eru ennþá fyndnar og sumar eiga enn óþægilega vel við. Lóa hefur meðal annars birt myndasögur sínar í Reykjavík Grapevine og á netinu og gaf út eina bók á ensku, Why are we still here, sem kom út 2017. Leikhópurinn Sokkabandið og Borgarleikhúsið settu svo upp leikverkið Lóaboratoríum eftir handriti Lóu sem hún byggði á teiknimyndasögunum árið 2018. Dæs er einnig myndasögubók með stuttum sögum, flestar eru einn rammi, sem kom út árið 2021. Bókin er harðspjalda í veglegu broti en árið á undan gaf Lóa út sína fyrstu barnabók, sem ber titilinn Grísafjörður (2020). Haustið 2022 komu svo út tvær barnabækur eftir Lóu, fyrst myndabók fyrir yngri börn sem heitir Mamma kaka og svo framhald Grísafjarðar, Héragerði. Lóa hefur hlotið náð bókmenntaverðlaunanefnda því Lóaboratoríum var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, Grísafjörður var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs og nú síðast var Héragerði bæði tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna.

Höfundarverk Lóu er margþætt. Auk þess að gefa út myndasögur sínar í bókarformi hefur hún einnig selt bæði frumrit og afrit af þeim og ýmsan annan varning tengdan myndheimi sínum. Hún hefur haldið sýningar, meðal annars í Listasafni Árnesinga á síðasta ári sem bar titilinn Buxnadragt en um þennan töfrum gædda klæðnað var saga í Dæs. Hún hefur einnig sett eitthvað af myndum sínum á postulín, bæði bolla og veggdiska sem eru hin mesta prýði og nýverið gaf hún út slíka seríu með stjörnumerkjunum.

Úlfhildur Dagsdóttir hefur skoðað höfundarverk Lóu og í greininni „Hlæjandi meyjar. Tilraunastofan Lóaboratoríum“ sem birtist í Tímariti Máls og menningar árið 2020. Þar skrifar hún um Lóaboratoríum:

Orðið vísar til tilraunastofu í myndrænum orðaleik sem einnig stokkar upp hefðbundnar kynjaímyndir, en margir tengja (enn sem komið er) tilraunir á stofum við karla í hvítum sloppum (þó að reyndin sé að fleiri og fleiri konur eru komnar í svona dótarí). Tilraunastofan er færð í kvenlegan búning þegar henni er slegið saman við lóuna, sem er kvengerður fugl og kvenmannsnafn. Í tilraunastofunni er svo unnið að rannsóknum sem felast í því að beita listinni í tilraunaskyni, meðal annars tilraunir með konur og kynhlutverk og þá kannski sérstaklega kvenhlutverk, femínisma og jafnrétti. Og tungumál, ekki má gleyma tungumálinu sem gegnir sérlega mikilvægu hlutverki í myndasögum Lóu. Hún leikur sér með myndir tungumálsins og notar textann á margvíslegan hátt, hvort sem það er í titlum, talblöðrum eða í öðrum orðum.

Úlfhildur nær í lýsingu sinni utan um mörg einkenni myndasagna Lóu og hún fjallar einnig um gróteskuna í samhengi við verkin því líkamar – og sérstaklega líkamar kvenna – eru þar í einkar áberandi og stundum yfirgnæfandi hlutverki. Lesandinn hlær stundum að persónunum en þær sýna okkur einnig ákveðna eiginleika í okkur sjálfum svo lesandi engist um í sammennsku með persónunum og atvikunum sem Lóa teiknar upp. Það eru hversdagslegir atburðir og hugsanir eru í forgrunni í verkum Lóu en á sama tíma er gagnrýnin sem birtist í verkunum djúpstæð og spannar allt frá hinu persónulega til hins pólitíska.

Úlfhildur fjallar í grein sinni um áhugaverða og mikilvæga fleti á verkum Lóu fyrir fullorðna. Hér verður sjónum beint að því hvernig Lóa þróast sem höfundur í sérstöku samhengi við barnabækurnar sem hún hefur gefið út á síðustu árum og hvernig höfundareinkenni hennar þróast þegar hún verður barnabókahöfundur. Sem slíkur hefur Lóa leyft skrifuðum texta að fá enn meira vægi í Grísafirði og Héragerði og í Mömmu köku, sem er fyrir ögn yngri lesendahóp en fyrrnefndu tvær, fléttar hún listilega saman ólíkar þarfir og þrár á húmorískan hátt. Í öllum þremur barnabókunum nýtir hún myndasöguformið líka til að miðla sögunni þó að hún einskorði sig ekki við það í verkunum. Orðaleikirnir sem einkenna höfundarverk Lóu njóta sín vel í barnabókunum en þó að yfirskriftir Grísafjarðar og Héragerðis leggi áherslu á fjör, kátínu og ævintýri er inntakið einnig alvarlegt og inn á milli fá lesendur innsýn í heim hinna fullorðnu og hversdagsamstur þeirra sem er fullorðnum lesendum kunnuglegt. Í barnabókunum finna persónurnar einnig ævintýri í hinu hversdagslega og þau eru margvísleg. Ákveðin þemu sem eru gegnumgangandi í höfundaverki Lóu finna nýja farvegi í barnabókunum þar sem höfðað er listilega til bæði ungra og fullorðinna lesenda. Til dæmis höfðar myndin af tebollanum í Grísafirði hér fyrir neðan frekar til fullorðinna lesenda en barna þó að eflaust sé mótívin kunnugleg þeim líka, á tebollanum með „róandi kamilluteinu“ er stressaður eða útúrkaffaður múmínsnáði sem heldur á bolla fyrir framan hillu sem er hlaðin múmínbollum en múmínbollasöfn hafa verið áberandi á móðins heimilum og umfjöllunum um þau undanfarin ár. Með myndinni kinkar Lóa kolli til myndasagna- og rithöfundarins, Tove Janson, en múmínbollar birtast víða í verkum Lóu.

grísafjörður 16

Lóaboratoríum og Lóaboratoríum. Nýjar rannsóknir

Lóaboratoríum-bækurnar komu út hjá forlaginu Ókeibæ í kiljubroti og í lit. Þó að orð og texti sé mikilvægur í höfundarverki Lóu er líka einkennandi fyrir hana sérstakur hæfileiki í að koma skilaboðum til skila án texta. Kápa fyrri bókarinnar, Lóaboratoríum, er prýdd myndasögu án orða og um er að ræða óborganlega senu úr búningsklefanum í sundi. Þar sjást þrír búkar, tvær unglingsstúlkur með bleika kroppa og enn bleikari geirvörtur skemmta sér í kynferðislegu gríni á meðan eldri kona með gulan kropp og brjóst sem eru jafn sigin og hakan gýtur augunum illilega á þær. Meginflötur kápunnar eru svo bláar flísarnar á veggjunum. Á bakhlið kápunnar bætist svo við persóna sem er kunnugleg lesendum bókarinnar, það er ein af fullu/þunnu konunum/mömmunum sem birtast í bókinni, ber að neðan og bosmamikil í of litlum brjóstahaldara með gula gúmmíhanska, uppþvottabursta og vodkaflösku en í myndasögunni inni í bókinni syngur hún lag Dolly Parton, „Jolene“, fullum hálsi á meðan þrjú börn sitja fyrir framan sjónvarpið í tölvuleik.

lóaboratoríum ferðalög

Fyrsta myndasagan í Lóaboratoríum kjarnar visst kynslóðabil og þróun þjóðarsálarinnar á lífstíð höfundarins. Yfirskriftin er „ferðalög“ og tveir rammar lýsa breytingum á 30 árum, fyrri ramminn er merktur ártalinu 1984 og sá seinni 2014 en báðir sýna þeir íslenska fjölskyldu á ferðalagi. Barnið í vinstri rammanum þekkir landið og sjoppurnar þó að það sé óþolinmótt í bílnum sem er fullur af sígarettureyk. Hægri ramminn sýnir svo konu og barn í bíl árið 2014 en kennileitin og vegasjoppurnar hafa runnið saman, hún þekkir ekki eina N1-sjoppu frá annarri og biður barnið sem er í farþegarsætinu um að gúgla „þetta fyrir [sig]“. Stemning tímabilanna tveggja birtist víða í teikningunum, meðal annars í nöfnum barnanna, Jón Þór og svo Baltasar Blær, einnig í bílaskrautinu sem hangir á ártölunum, klæðnaði og hártísku, að ógleymdu kínverska húðflúrinu á seinni myndinni, staðsetur lesandann kyrfilega á þessum ólíku tímum og dregur fram þróunina á milli þeirra. Lóa nær að fanga stóru myndina í fáum römmum, lesandinn skilur baksöguna og í myndasögu eins og þessari eru mörg lög af merkingu sem öll koma saman til að mynda heildarmyndina fyrir lesendur.

Flestar sögurnar í Lóaboratoríum-bókunum eru stuttar og sagðar í fáum römmum en þó eru einhverjar sem segja söguna í hátt í tuttugu römmum sem þó afmarkast af einni síðu í bókunum. Svo eru myndasögur sem eru samansafn af hlutum eða senum. Í fyrri bókinni er til dæmis að finna „Djammbingó“ sem er 4x4 rammar og „Ýmsir hlutir og eitthvað fleira“ sem deilir opnu með “Frægir hlutir“ þar sem má finna Íslandssylgju Leoncie og fyrsta lundasokkinn. Í seinni bókinni má meðal annars sjá sex svör svið spurningunni „Ertu ólétt?“ og „Skóladagatal“ sem spannar mánuðina tólf endar í bugun í sumarvinnu. Í bókunum gerir Lóa töluverðar tilraunir með mismunandi efni og teiknistíla. Í seinni bókinni eru líka nokkrar myndir sem eru hvítar á svörtum bakgrunni og eru í einhverjum skilningi líka myrkar í umfjöllunarefni sínu en það eru líka sumar litríkari sögurnar í bókinni eins og sú sem sýnir brennandi hús og aðgerðarleysi þess sem hjá stendur. Þannig veigrar Lóa sér ekki við að vera pólitísk í stóra samhenginu heldur.

lóaboratoríum 2 herra janúar
lóaboratoríum hjálp sko

Lóaboratoríum-bækurnar eru tilraunakenndari og stíltilraunir í teikningunum eru meira áberandi þar en Dæs. Fyrir vikið hafa fyrri bækurnar ekki jafn heildstætt „lúkk“ og Dæs. Í fyrstu bókunum eru útlínur oft teiknaðar dökkum línum og rammaskiptingar líka auk þess sem fletir eru sýnilega litaðir með penna eða vatnslitum svo flöturinn er alltaf lifandi. Í Dæs er Lóa búin að finna sinn stíl en í bókinni þróast teiknistíllinn líka yfir árið og sennilega hafa þær skorður sem Lóa setti sér fyrir bókina eitthvað með það að gera. Það er líka mikilvægt að horfa til þess að Lóa þróast sem teiknari á milli bóka utan prentaðra blaðsíða því hún gaf myndasögur sínar út á ýmsum formum á milli þess sem þær voru birtar í prentuðum bókum.

Dæs

Fyrir árið 2020 gerði Lóa áramótaheit um að hún ætlaði að teikna eina myndasögu á dag, án þess að gruna hvað árið myndi bera í skauti sér einsog kemur fram á baksíðutexta. Bókin hefst á formála og uppkasti að formála þar sem hún ávarpar lesandann og skýrir tilurð bókarinnar – reyndar er nokkur hluti formálans yfirstrikaður, það er dregin lína í gegnum textann sem gefur til kynna að höfundur hafi hætt við að láta hann standa. Slík innsýn í ferlið á bak við bókina og sjálfsefasemdirnar sem herja á höfund eru afskaplega áhugaverðar því bókin er á sama tíma afar vönduð á sama tíma og greinilegt er að unnið er út frá þeim reglum sem Lóu hafði sett sér fyrir árið. Í formálanum segir Lóa einnig: „Ég ætlaði bara að standa við áramótaheitið og grunaði ekki að 2020 yrði árið sem við sætum öll föst heima hjá okkur.“ Árið 2020 sameinaði faraldurinn þjóðina á óvæntan hátt og margar myndasögurnar hitta beint í mark í þetta skringilega ástand. Innbundinn bókin með glitrandi kápu er doðrantur þar sem sögurnar eru styttri en í Lóaboratoríum-bókunum og þær fá ýmist eina blaðsíðu hver eða deila fjórar síðunni. Meðal þeirra takmarkana sem Lóa setti sér var að velja litapallettu fyrir hvern mánuð og áhrifin af því eru að bókinni er skipt upp í 12 hluta sem hafa hver sína sérstöðu að þessu leyti, fyrir vikið eru þeir heildstæðari, myndasögurnar í hverjum mánuði harmoníera og að auki fylgir stutt lýsing hverjum mánuði. Þannig er þessu skrýtna ári skipt upp í afmarkaða hluta og eins og kom fram hér að framan þá sést líka ákveðin þróun í teiknistílnum í gegnum árið, það verður meira um litaða bakgrunni í litapallettu hvers mánaðar, litafletir eru heilir (þ.e. ekki sjást pennastrik) og undir lok þess eru myndir sem. Sérkennilegasta litapalletan í bókinni er sennilega sú fyrir október en hún er albleik – enda bleikur mánuður – og samanstendur af nokkrum mismunandi bleikum litum og hvítum. Í Dæs sleppir Lóa oftast dökkum útlínum þó að stundum séu þær til staðar í einum af litunum úr pallettunni. Þessum stíl heldur Lóa svo einnig í barnabókunum þar sem líka er valin litapalletta sem unnið er með í gegnum verkin.

dæs fyrsti lúsapósturinn

Í Dæs nýtur sín vel sá galdur Lóu að taka hversdagslega hluti og bera ljós að kómískum hliðum þeirra – og okkar sjálfra – og á tímum veirunnar þurftum við svo sannarlega á húmornum að halda. Úlfhildur Dagsdóttir fjallar í áðurnefndri grein um hvernig Lóa bætir við merkingalagi með yfirskriftunum sem hún birtir með myndasögunum á Facebook-síðu sinni en í Dæs eru myndirnar birtar án þeirra yfirskrifta. Í sumum myndunum hittir Lóa beint í mark með sameiginlega reynslu þjóðar á tímum kórónaveiru og samkomubanns.

dæs ráða við súr

Í myndasögu frá byrjun maí sem er í fjórum römmum sem eru gerðir úr punktum sést kona á tölvuskjá, kona að hugsa um pottaplönturnar sínar, bangsar í gluggum og tvær manneskjur mætast með gott bil á milli sín. Engin orð fylgja sögunni en hún er líkt og tímahylki fyrir kafla í faraldrinum – og samlíðanin birtist meðal annars í því að stilla böngsum út í glugga til að skemmta börnum. Dæs er einkar merkileg bók vegna þess hvað gekk á í samfélaginu þetta ár sem bókin spannar og hæfileika Lóu til að draga fram fjölbreyttar hliðar óvenjulegs ástands. Á sama tíma kveður við kunnuglegan hljóm í skoðun Lóu á hlutverki kvenna í samfélaginu í bókinni eins og mæðradagar og konkrabbinn hér að neðan sýna.

dæs mæðradagar
dæs konkrabbi

Grísafjörður og Héragerði

Fyrsta barnabók Lóu, Grísafjörður, er samkvæmt lýsingu á kápu ævintýri um vináttu og fjör. Lóa hefur áður myndlýst barnabækur en þessi fyrsta barnabók Lóu sem höfundar bæði texta og mynda er líka fyrsta bók hennar þar sem textinn er fyrirferðameiri en myndirnar. Eins og áður kom fram er framhald Grísafjarðar, Héragerði, nýlega komin út þegar þessi umfjöllun er skrifuð og henni er lýst sem ævintýri um súkkulaði og kátínu á kápu. Þó að einkennishúmorinn sé áberandi í bókunum eru umfjöllunarefnin fjölbreytt og báðar segja þær fallegar sögur af lítilli ástríkri fjölskyldu og óvæntri vináttu. Í bókunum leyfir Lóa sér meiri texta en nýtir þó myndaformið til að styðja við hann.

Feður eru fjarverandi í barnabókum Lóu enda beinir hún sjónum sínum einkum að móðurhlutverkinu eins og verður fjallað um nánar hér á eftir í tengslum við Mömmu köku. Aðalfjölskyldueiningin í Grísafirði og Héragerði er lítil, aðalsögupersónurnar eru tvíburarnir Inga og Baldur sem búa með mömmu sinni, Elínu sem er kölluð Ella, í blokkaríbúð í Laugarnesinu. Fjölskyldan hefur ekki með mikið á milli handanna og lesendur fá innsýn inn í líf hinna fullorðnu þó að áherslan sé á ævintýri barnanna, til dæmis eru viðgerðir á húsinu og íbúðinni fyrirferðamiklar í seinni bókinni. Snemma í Grísafirði spyr Baldur hvað mamma sé að skoða í símanum:

Ekkert sérstakt, segir mamma og hljómar eins og uppvakningur. Baldur lítur yfir öxlina á henni og sér að hún er að fletta í gegnum sólarlandatilboð í símanum. Hún andvarpar og Baldur langar að taka af henni símann til að bjarga henni frá sjálfri sér. En hann man að um daginn reif Inga af henni símann og mamma varð svo fúl að hún kenndi þeim á uppþvottavélina. (37-8)

Baldur er lokaðri en Inga sem á auðveldara með að eignast vini og líka meiri þörf fyrir leik með öðrum á meðan Baldur getur dundað sér einn. Í Grísafirði koma afi krakkanna og kona hans við sögu og í Héragerði kynnumst við – og krakkarnir – ömmu þeirra og móðursystur sem eru nýfluttar til Hveragerðis frá útlöndum. Persónugallerí bókanna er fjölbreytt og samskipti einkennast af hlýju þó að stundum séu byrjunarörðuleikar til staðar og persónur ekki á algjörlega sömu blaðsíðu. En ævintýri tvíburanna hefjast við kynni þeirra af Alberti.

grísafjörður 26

Tvíburarnir eru nýkomnir í sumarfrí í upphafi Grísafjarðar þegar þau koma heim og finna Albert, nágranna þeirra sem er lýst sem tröllvöxnum þó hann sé lítill í sér, en mamma tvíburanna hafði rekist á hann á ganginum og boðið honum inn í te til að hressa hann við. Albert á sinn þátt í að gera söguna ævintýralega en hann vekur einmitt hugrenningartengsl hjá Baldri við mannætur ævintýranna. Ævintýrið nær einnig til bókatitlanna, Grísafjörður er nafn sem mamma tvíburanna kallar Reykjavík í glettilegum samanburði við Ísafjörð en það kemur í ljós að Grísafjörður er einnig ævintýralegur fjarlægur staður þangað sem Albert fer í leit að tvíbuarsystur sinni, Ölmu, en skortur á fregnum af henni og ferðalögum hennar er ástæða þess að hann er leiður í upphafi Grísafjarðar. Í Héragerði kemur Japan mikið við sögu á ferðalagi Alberts og Ölmu sem senda Baldri og Ingu bréf og gjafir í pósti. Tvíburasamband Alberts og Ölmu speglar að vissu leyti samband Baldurs og Ingu en báðir tvíburarnir eru ólík. En ævintýrið er líka nálægt og birtist meðal annars í íbúð Alberts og Ölmu sem er töfrum líkust. Inga er fyrst til að sækja Albert heim í Grísafirði og umhverfið umbreytist þegar hún kemur upp á hæðina hans. Veggfóðrið vekur sérstaka athygli hennar og lesandans: „Þegar Inga horfir á veggfóðrið í annað sinn finnst henni eins og það hafi breyst. Drottningarnar og riddararnir virðast hafa fært sig úr stað og hún tekur eftir sjóræningjum sem hún sá ekki áður“ (47). Öll íbúð Alberts og Ölmu er töfrum líkust og í Hveragerði eru tvíburarnir ennþá að uppgötva nýja muni og kima í íbúðinni.  

grísafjörður 41

Lóa notar sömu litapallettuna fyrir báðar bækurnar en notar einn aðallit á kápumyndir og í feitletrun í texta bókanna, í Grísafirði er aðalliturinn blár og í Héragerði appelsínugulur. Feitletrun texta í lit brýtur upp textann fyrir lesendur og leggur áherslu á ákveðna textabúta. Myndirnar í Grísafirði eru oftast af senum eða hlutum sem tengjast textanum og bæta við nýrri vídd af merkingu. Snemma í bókinni er mynd af Baldri þar sem hann ímyndar sér hver Albert sé eiginlega, og mátar hann við hlutverk risa eða bófa en það passar samkvæmt textanum illa því hann er svo leiður, enda grátandi á báðum myndunum af ímyndun Baldurs. Þennan þráð þar sem myndirnar sýna innri heim barnanna og ímyndun þeirra tekur Lóa aftur upp Héragerði þar sem hann verður ennþá meira áberandi og einkennandi fyrir söguna. Í Héragerði eru myndirnar oft fantasíur barnanna sem ýtir undir ímyndunarafl lesandanna sjálfra.

grísafjörður 14
héragerði 22

Ímyndunaraflið og leikurinn eru hornsteinar bókanna um Ingu og Baldur. Unnið er með þessa þætti í leik krakkanna, til dæmis í leik Ingu við Ómar, strák sem er nágranni ömmu krakkanna í Hveragerði. Þar er líka leikið með kyn því Ómar heldur að Inga sé strákur og kallar hana Ingvar. Skilin á milli leikjar og ímyndunar og alvöru sjást í Héragerði: „Örmagna riddari gengur að útidyrunum hjá ömmu Eygló og um leið og hann stígur yfir þröskuldinn breytist hann í Ingu“ (102). Myndræn sköpun Baldurs gefur líka ímyndunaraflinu lausan tauminn því Baldur finnur sig í að teikna með ungri móðursystur sinni, Magdalenu, og með Héragerði fylgir teiknimyndasaga eftir þau tvö. Bæði Grísafjörður og Héragerði eru með vasa innan á aftari kápu þar sem ýmsir fylgihlutir leynast svo bókunum fylgja póstkort, dúkkulísur og límmiðar í þeirri fyrri og teiknimyndasagan um Hérlokk Hólms, meðlimakort fyrir leynifélag og daruma eins og tvíburarnir frá senda frá Japan. Þannig eru börn hvött til að halda áfram að heim sögunnar í leik sínum og búa til sín eigin tengdu ævintýri.

Slegið er á ýmsa alvarlegri strengi í bókunum og koma meðal annars umhverfismálin og neyslusamfélag við sögu og auk þess bendir Héragerði á karllægni teiknimyndasagnaarfleifðarinnar því krakkarnir komast í gamlar myndasögubækur og Inga spyr gáttuð hvort það séu „engar stelpur í þessum myndasögum?“ (69).

Mamma kaka

Mamma kaka og Héragerði komu báðar út haustið 2022. Kápa Mömmu köku er mött fyrir utan titilinn og titilpersónuna, mömmu Köku sjálfa, sem eru með glansáferð og í stíl, í formi ljósrar köku sem er skreytt ríkulega með bleiku kremi og rauðum berjum. Aðalpersónur bókarinnar, Viggó og Dalía halda á mömmu köku á káputeikningunni. Saurblöðin eru skreytt með bakstursmótívum og innihaldsefnum og svo tekur við dásemdarbleik opna sem er tóm fyrir utan litla mynd af kettinum Tusku. Tuska er líka á kápumyndinni en á bleiku opnunni er hún staðsett neðst til hægri og leiðir þannig lesandann yfir á titilsíðuna. Strax við þessar fyrstu flettingar finnur lesandi fyrir því hversu mikið er lagt í að gera fallegt bókverk í þessari fyrstu myndabók Lóu fyrir börn.

Mamma kaka fjallar um annars vegar bakstursævintýri sem lausn við leiðindum í vetrarfríi og hins vegar um móðurhlutverkið, sérstaklega áskoranir við að sinna bæði vinnu og fjölskyldu. Þannig höfðar Lóa til tveggja aðallesendahópa bókarinnar, barnanna og foreldranna sem lesa fyrir þau. Líkt og í Grísafirði og Héragerði er faðirinn fjarverandi enda er það einkum hlutverk kvenna og mæðra sem er til skoðunar í verkunum. Tvíþætta ávarpið í Mömmu köku er kröftugt því auk þess að fjalla um ævintýrin sem börnin finna sér fjallar bókin líka um hið ómögulega hlutverk mæðra sem eiga að uppfylla allar kröfur barna sinna, vera góðar og skemmtilegar mæður, fæða þau og klæða, elska þau, líka þegar þau eru óþolandi, og skemmta þeim, líka í vetrarfríum þegar móðirin hefur sjálf nóg að gera því samfélagið slær ekki af kröfunum þó að það sé vetrarfrí hjá börnum. Þessum kröfum fundu mæður vel fyrir í heimsfaraldrinum eins og Lóa sýndi í Dæs. Móðirin er hin vinnandi móðir eins og flestar nútímamæður á Íslandi eru. Af teikniborðinu, blýantinum í hárinu og bókarkostinum á vinnustofunni að dæma er hún arkítekt og hún er upptekin bókina í gegn, meðal annars á fjarfundum. Mamma kaka vekur upp hugrenningartengsl við fyrstu skáldsögu Margaret Atwood, The Edible Woman frá árinu 1969 og persóna mömmu köku er vísun í grafíkverk Ragnheiðar Jónsdóttur „Deluxe and Delightful“ frá árinu 1979. Það er ljóst af þessum vísunum að Lóa er að vinna með femíníska arfleifð og tengsl hennar við líf og tilveru kvenna enn í dag. Sjónarhorn barnsins er einfaldara: „Leiðindaskarfurinn hún mamma vill aldrei gera neitt skemmtilegt. Hún vill bara vinna og sussa og skamma.“ Mamma kaka er full af fjöri og ævintýrum fyrir barnunga lesendur en hún er líka veisla fyrir fullorðna.

lóaboratoríum 2 leikskólafrí
deluxe and delightful

Mamma kaka er líka frumleg saga að því leyti að sögumaðurinn er óvenjulegur, sjónarhornið er fjarlægt þó að „við“ komum að „snotur[ri] lítilli borg“ og sjáum „huggulegasta hús“ þar sem við fáum að kynnast persónum bókarinnar. Í húsinu er einhver heima því skuggamynd af lítilli manneskju með krullað hár svarar spurningunni „Megum við kíkja í heimsókn?“ játandi og þá er „okkur“ hleypt inn í söguna og sjónarhornið færist inn í húsið þar sem Viggó og Tuska búa. Viggó er alsæll á nærbuxunum í vetrarfríinu fyrir utan hvað mamma hans hefur lítinn tíma til að sinna honum. Á meðan „við“ kynnumst Viggó á fyrstu síðum bókarinnar þá þekkjum „við“ Dalíu þegar hún mætir á svæðið: „Hún er fyndnasta, klárasta og skemmtilegasta manneskjan í öllu hverfinu.“

mamma kaka leiðist

Lóa nýtir þekkingu sína sem myndhöfundur og myndasöguhöfundur í Mömmu köku og sumar senurnar eru teiknimyndasögulegar. Hún miðlar yfirgnæfandi kröfum Viggós til mömmu eftirminnilega í mynd og eins þegar mamma springur af reiði eftir að hún kemst að því hvað börnin eru búin að baka – en það er þá sem hún líkist mest mömmu Köku.

mamma kaka úllala
mamma kaka kaplæng

Lokaorð

Tengslin á milli verka Lóu eru margvísleg og oft óvænt og það er gaman að ímynda sér hvernig verður fyrir þá lesendur hennar sem kynnast henni á barnsaldri í gegn um barnabækurnar að lesa verk hennar fyrir fullorðna síðar. Á sama tíma er það sérlega hressandi fyrir fullorðna lesendur, sem flestir lesa barnabækur hennar með börnum, að finna samhljóminn og húmorinn sem einkennir allt höfundarverk hennar.


Elín Björk Jóhannsdóttir, desember 2022