Beint í efni

Ævintýri í Útoríu

Ævintýri í Útoríu
Höfundur
Unnur Sveinsdóttir
Útgefandi
Allsherji ehf
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir

Barna- og unglingabókin Skotti og Sáttmálinn eftir Unni Sveinsdóttur er hennar fyrsta skáldsaga en áður hefur hún gefið út ferðabókina Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu (2015) ásamt eiginmanni sínum. Sagan gerist í ævintýraheimi sem heitir Útoría þar sem tvær sólir skína á himninum og mannfólkið hefur gert með sér Sáttmála um að bera virðingu fyrir öllu lífi, bæði manna og dýra. Aðalsöguhetjan er drengurinn Skotti sem er tólf ára og duglegur að lenda í ævintýrum ásamt bestu vinum sínum, Lexí og Loga. Skotti heitir reyndar Úlfur í höfuðið á afa sínum en er kallaður Skotti því hann er alltaf að skottast um. Skotti er yngstur í stórum systkinahópi og á sex eldri systur sem getur gert heimilislífið viðburðaríkt.

Það má segja að sagan skiptist í tvo hluta og í fyrri hlutanum er sagt frá hversdagsævintýrum og uppákomum í Háhöfða þar sem Skotti býr. Í seinni hlutanum, sem er töluvert lengri, gerist svo aðal atburðarás bókarinnar. Í fyrri hlutanum er hver kafli eins og lítil sjálfstæð saga þar sem lesendur fá að kynnast Skotta, fjölskyldu hans og vinum og heyra um uppátæki þeirra og skondin og skemmtileg atvik úr lífi þeirra. Hér er heimur Útoríu einnig kynntur og sagt frá sögu hans, dýra-, plöntu- og mannlífi.

Dýrin leika stórt hlutverk í að sýna lesendum að heimur Útoríu er ólíkur þeirra eigin. Bókin hefst til dæmis á því að Skotti og systir hans Brenda bjarga særðri flugskötu úr skóginum og fara með hana til föður síns sem er dýralæknir. Faðir þeirra hefur einstakt lag á dýrum, svo mjög að: „Sumt fólk hélt því fram að þau segðu honum sjálf hvað amaði að“ (20). Hann er ekki sá eini í fjölskyldunni sem hefur sterka tengingu við dýr en síðar í sögunni kemur í ljós að Brenda getur breyst í kött þegar henni hentar. Hún virðist vera einstök þegar kemur að slíkum hæfileikum því þegar hún segir afa sínum frá því segir hann:

Ég þekki engan sem getur breytt sér. Það var talað um kynþátt í eldgamladaga sem átti sérstaklega mikil samskipti við dýr en að geta ORÐIÐ að dýri, það er stórkostlegt. Það hlýtur að hafa orðið einhvers konar stökkbreyting. Mikið held ég að mamma þín og pabbi séu stolt af þér. (245)

Að geta talað við dýr er heldur ekki á færi hvers sem er en hvort faðir þeirra Skotta og Brendu getur í raun talað við dýr er hins vegar aldrei staðfest. Í fyrri hluta bókarinnar er einnig sagt frá því hvernig Skotti og vinir hans bjarga dýrum sem er verið að selja á markaðnum í Háhöfða. Þar á meðal eru kunnugleg dýr eins og api en einnig óþekktar tegundir eins og sæskeljaungar. Mikið af öðrum framandi dýrategundum eru kynntar til leiks í sögunni, flóðrottur eins og sú sem prýðir kápu bókarinnar eru þar fremstar meðal jafningja en gatagemsar, tannelgir og fleiri furðuverur skjóta einnig upp kollinum.

Seinni hluta bókarinnar er formfastari og líkari klassísku barnaævintýri. Þar færist meiri alvara í leikinn og atburðirnir verða öllu háskalegri en hversdags svaðilfarirnar sem sagt var frá í fyrri hluta bókarinnar. Sagan hefst fyrir alvöru þegar Skotti fer í heimsókn til afa síns í sveitina með vinum sínum Lexí og Loga og systur sinni Brendu. Þar heyra þau söguna af Huga, stráknum sem hvarf sporlaust fyrir næstum ári síðan. Hann bjó hjá ömmu sinni á næsta bæ við afa Skotta. Á þeim bæ finna krakkarnir dularfullan kjallara sem er aðgengilegur í gegnum kústaskáp. Þessi kústaskápur, eins og oft vill verða með skápa í barnabókum, er ekki allur þar sem hann er séður og það er ekki alltaf hægt að komast í kjallarinn í gegnum hann. Í kjallaranum finna krakkarnir ýmsa muni sem virðast vera frá Gamla Tímanum og þeim stendur sérstakur stuggur af spegli í listilega útskornum ramma. Þau komast fljótt að því að spegillinn tengist hvarfi Huga og að þau þurfa að taka til sinna ráða og vinna saman ef þau ætla að ná að bjarga honum áður en það verður um seinan.

Í Útoríu er talað um tímabilið fyrir Sáttmálann sem Gamla Tímann. Skotti og skólasystkini hans fara í einum kaflanum í heimsókn í Höll Minninganna og heyra þar í fyrsta sinn raunverulega baksögu Sáttmálans. Þau hafa alltaf vitað um Sáttmálann og út á hvað hann gengur en nú þegar þau eru orðin tólf ára er þeim sagt frá því hvernig ill meðferð mannfólksins á náttúrunni og hvert öðru varð Útoríu nánast að falli. Ein af Gæslufólki Minninganna segir þeim meðal annars frá Græna Ljósinu, sjaldgæfum málmi sem spillti hjörtum fólks:

Þetta var lýsandi grænn málmur, mjúkur og auðvelt að vinna úr honum skartgripi og jafnvel nytjahluti. Fólk ásældist þennan málm af sótthitakenndum ákafa og sveifst einskis til að koma höndum yfir hann. Hann varð að gjaldmiðli og gekk milli manna. Allir sem eignuðust hann vildu eignast meira. […] Allt líf fólks fór að snúast um Græna Ljósið. (49)

Boðskapur Sáttmálans um náttúruvernd, nægjusemi, mann- og dýragæsku er drifkrafturinn í gegnum alla bókina og átökin spretta oftar en ekki úr árekstri þeirra sem standa með gildum Sáttmálans og þeirra sem vinna gegn þeim. Samfélag Útoríu hefur batnað til muna eftir Sáttmálann en ekki er allt orðið fullkomið þrátt fyrir að snúið hafi verið frá syndum Gamla Tímans. Ýjað er að alvarlegri málefnum undir yfirborði útópísks samfélags Útoríu. Heimilisofbeldi, fíknisjúkdómar, grimmd og græðgi eru ennþá til staðar og gera vart við síg í sögunni.

Sterkur siðferðisboðskapur Sáttmálans er gegnumgangandi í allri bókinni og það kemur fyrir að flæði í frásögninni sé fórnað til að koma honum til skila. Þetta er meira áberandi í fyrri hluta bókarinnar meðan verið er að kynna heiminn fyrir lesendum en siðferðisboðskapurinn er einnig rauður þráður í seinni hlutanum. Í takt við það þurfa söguhetjurnar ekki bara að glíma við utanaðkomandi hættur og vandamál í ævintýrum sínum heldur þurfa þau líka að kljást við eigin samvisku og læra af mistökum sínum. Þetta gera þau með hjálp góðra vina og fjölskyldu og allt fer vel að lokum eins og vera ber í barnabók. Undir lok bókarinnar er þó opnað á þann möguleika að hættan sé einungis tímabundið liðin hjá og því er aldrei að vita nema fleiri ævintýri séu í vændum fyrir Skotta og vini hans.


Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, desember 2022